Við dettum flest í þá gildru að útbúa sama nestið á hverjum einasta degi, fyrir okkur sjálf í vinnuna eða fyrir börnin í skólann eða tómstundirnar.

Tilhugsunin um enn eina kæfusamlokuna getur verið þrúgandi og því freistast margir til þess að „gleyma“ nestinu heima og splæsa í hádegismat hjá einhverri mishollri búllunni. Það má auðvitað gera sér dagamun og leyfa sér endrum og eins en ef markmiðið er að spara peninga, þá er hægt að stórgræða á því að taka með sér nesti á hverjum degi.

Afgangar eru lífsbjörg

Kvöldmaturinn er oft tilvalinn til þess að taka með sér í nesti. En mann langar ekkert endilega í sama hádegismat og var í matinn kvöldið áður. Því er um að gera að geyma afgangana í tvær nætur og taka með í hádegismat einum degi síðar.

Kjúklinganaggaafgangar þurfa ekki að fara til spillis. Þeir eru fínir í salatið. Ekki gleyma að taka smá dressingu með. Fréttablaðið/Getty

Búðu til salat

Margir afgangar eru þannig að hægt er að skella þeim í vefjur eða búa til salat úr þeim. Kjúklinganaggar eru til dæmis frábærir til þess að taka holla salatblöndu yfir heilsustrikið og gera að gómsætu hádegisnesti. Skvettu smá sesardressingu yfir og þú ert komin með sesarsalat!

Pítsusneiðar eru dásamlegar í nestisboxið og á flestum stöðum er hægt að verma þær í örbylgjuofninum eða í samlokugrillinu. Passaðu bara að taka strax frá tvær-þrjár sneiðar úr pítsukassanum svo flatbakan sporðrennist ekki öll yfir línulegri kvölddagskránni.

Tilvalið er að smella smá klettasalati með í nestisboxið og gúrkubitum. Kokteiltómatar eru svo frábært og næringarríkt snarl með hádegismatnum. Húðin ver þá gegn hvers kyns vætu og þeir haldast stökkir og frískir í nestisboxinu.

Kraftur kjúklingabaunanna

Hummus er afar seðjandi og hollur og til eru óramargar tegundir. Jalapeno-hummus, með rauðrófum, með lárperum og margt fleira. Hann getur ýmist verið frábær smyrja eða ídýfa. Hann passar jafnt með flatkökum, samlokubrauði, niðurskornu rótargrænmeti, í salatið og hvað eina. Svo er hann frábær viðbót í súpur og eykur virkni þeirra til að seðja um heilan helling. ■