Leikarinn Tim Allen neitar því að hafa sýnt leikkonunni og fyrirsætunni Pamela Anderson getnaðarliminn sinn þegar þau léku saman í þáttunum Home Improvement.
Anderson, sem gerði garðinn frægan í þáttunum Baywatch, lék um tíma í gamanþáttunum Home Improvement ásamt Allen. Í væntanlegri ævisögu sinni greinir Anderson frá því að Allen hafi sýnt henni getnaðarlim sinn.
„Hann sagði að þetta væri bara sanngjarnt því hann hefði séð mig nakta. Núna værum við jöfn. Ég hló vandræðalega,“ segir Pamela í bók sinni, Love, Pamela, sem kemur út í dag, 31. janúar.
Allen hefur nú svarað þessum ásökunum og neitar að hafa berað sig fyrir Anderson.
„Hún var frábær samstarfsfélagi. Hún er skemmtileg stelpa,“ sagði Allen við blaðamann Daily Mail.
„Allir elskuðu hana, en allir hjá ABC eru vonsviknir með minnið hennar, orðum það þannig,“ sagði Allen og bætti við að hún væri góð stelpa.
Anderson hefur nú einnig varið gjörðir Allen, en hún telur að hann hafi verið að grínast.
„Tim er grínisti, það er hans starf að fara yfir strikið. Ég er viss um að hann meinti ekkert illt með þessu,“ sagði Anderson.