Hin 36 ára gamla Kate Keltie, sem gerði garðinn frægan í áströlsku sápuóperunni Nágrannar, glímir nú við fjórða stigs krabbamein. Kate lék Michelle Scully í þáttunum á árunum 1999 til 2004 og kom alls fram í rúmum 300 þáttum á sínum tíma.
Fjölmargir aðdáendur þáttanna hafa sent Kate baráttukveðjur. Þá var söfnun hrundið af stað fyrir hana og var markmiðið að safna sem nemur tveimur milljónum króna. Þegar þetta er skrifað stendur upphæðin hins vegar í um 2,5 milljónum króna.
Í fréttum ástralskra fjölmiðla kemur fram að Kate hafi greinst með brjóstakrabbamein og meinið hafi þegar dreift sér í eitla, blóðið og bein.
Á GoFundMe-síðu sem sett var á laggirnar vegna veikinda leikkonunnar kemur fram að hún hefji lyfjameðferð í þessari viku og fram undan sé stórt og krefjandi verkefni. Í yfirlýsingu segist Katie sjálf vera afar þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur fundið fyrir.
