Hvort sem fólki líkar betur eða verr er Last Christmas löngu orðið rammsígilt jólalag sem ómar um víða veröld í desember ár hvert en þeir sem hafa þróað með sér krónístk óþol sameinast í desemberbyrjun ár hvert í leiknum Whamageddon sem gengur út á það nánast vonlausa takmark að komast hjá því að heyra lagið ekki frá 1. desember til jóla.

whamageddon reglurnar.PNG

Reglur leiksins eru einfaldar en um leið og Last Christmas berst keppendum til eyrna er viðkomandi dauður. Úr leik. Sendur til Whamhallar eins og „evrópsku heiðingjarnir“ sem hófu leikinn kalla samkomustað hinna föllnu sem mega dúsa þar til næstu jóla þegar þeir geta freistað þess að rétta hlut sinn gagnavart þeim félögum George Michael og Andrew Ridgeley sem gerðu lagið ódauðlegt jólin 1984 og síðar bráðdrepandi. Í það minnsta í Whamageddon.

Samkvæmt harmagrátinum sem þegar er byrjaður að óma, frá Ástralíu til Árósa, á Facebook-vegg Whamageddon er mannfallið yfirleitt mest 1. desember.

Myndskreytingarnar á Facebook-síðu Whamageddon 2021 segja meira en milljón orð um hversu málið er litið alvarlegum augum.

Þeim sem komust í gegnum þann dag er ráðlagt að hlusta bara á sína eigin tónlist. Alltaf. Ekki tala við neinn. Ekki fara neitt. Ekki horfa á jólamyndir og helst að leiða desember alveg hjá sér, eigi takmarkið að nást.

Fréttablaðið fékk sex vaskar jólakempur til þess að reyna að komast Whamlaus í gegnum aðventuna og hér verður fylgst með afdrifum Köru Kristelar, Jóns Óskars, Auðar Jónsdóttur, Guðmundar Steingrímssonar, Kristlínar Dísar og Birgis Arnar Steinarssonar á föstudögum til jóla.

Flogið í ljósi George Michael

Auður Jónsdóttir rithöfundur

Ekki stendur á svari þegar rithöfundurinn Auður Jónsdóttir er spurð hvers vegna hún hætti sér á jólalagavígvöll Whamageddon. „Af því að George Michael var fyrsta ástin mín og ég kyssti plakat af honum góða nótt á hverju kvöldi. Svo þetta er raunveruleg áskorun fyrir mig.“ Hversu líklegt telurðu að þú munir komast í gegnum aðventuna án þess að heyra lagið?

„Nánast engar líkur, en af því að ég er í hrútsmerkinu þá tek ég ekki mark á líkum og hef ég einsett mér að finna aðferð til að finna lausnina og komast hjá því að heyra þetta lag,“ segir Auður sem á fleira sameiginlegt með Guðmundi Steingrímssyni en að vera með bók, Allir fuglar fljúga í ljósið, í flóðinu, þar sem bæði nefna Fairytale of New York, með Pogues sem uppáhaldsjólalagið sitt.

Vágestur í hjartastað

Fréttablaðið/Þórsteinn

Guðmundur Steingrímsson rithöfundur

„Þetta hljómar sem einstaklega krefjandi keppni sem ég get ekki annað en tekið þátt í,“ segir altmuligt-maðurinn Guðmundur Steingrímsson en umdeild fegurð Wham!-jólalagsins á þó síður en svo hug hans allan á aðventunni þar sem hann er á fleygiferð að fylgja eftir hinni nýútkomnu skáldsögu sinni, Fegurðin ein, sem hann segir hvarvetna hafa fengið góðar undirtektir. „Mér finnst það mjög ólíklegt,“ segir Guðmundur um hvort hann telji líklegt að hann muni komast óskaddaður í mark í Whamageddon.

„En ég legg þó upp með visst plan. Ég mun bara hlusta á Gufuna í bílnum og á Spotify heima. Ég vona að algóðryþminn svíki mig ekki og setji Wham! á playlistann.“ Þegar talið berst síðan að uppáhaldsjólalaginu hans lyftist umræðan á aðeins hærra plan.

„Fairytale of New York, með Pogues, er alltaf í uppáhaldi og Christmas Time með Darkness kemur mér líka í stuð. Svo er River með Joni Mitchell eða Ben Platt giska fínt jólalag. Og fullt af þessu íslenska á undanförnum árum. Sigurður Guðmunds, Baggalútur, Sigríður Thorlacius. En verst er líka að Last Christmas hefur alltaf átt stað í hjarta mínu. Þannig að þetta verður þeim mun meiri áskorun.“

Leyfir sér að falla

Kristlín Dís Ingilínardóttir blaðakona

Kristlín Dís Ingilínardóttir blaðakona segist til í Whamageddonslaginn „vegna þess að ég elska auðveldar áskoranir sem ég veit að ég þarf ekki að gera neitt til að sigrast á“. Hún telur þó útilokað að hún muni komast í gegnum aðventuna án þess að heyra lagið og hefur engar áhyggjur.

„Að fenginni reynslu tel ég það, sem betur fer, ómögulegt vegna þess að ég get varla beðið eftir að heyra George hvísla í eyrað á mér.“ Last Christmas er nefnilega eitt uppáhaldsjólalag hennar ásamt Fyrir jól með Purumönnum, Sjáumst aftur með Páli Óskari og að sjálfsögðu Last Christmas með Wham! verma efstu sætin í dag en ég er á þeirri óvinsælu skoðun að það séu eiginlega til of mörg góð jólalög til að geta valið.“

Ágætis möguleikar

Fréttablaðið/Þórsteinn

Birgir Örn Steinarsson sálfræðingur

„Ég tek þátt til þess að sigra, auðvitað,“ segir Birgir Örn Steinarsson sálfræðingur, einnig þekktur sem Biggi í Maus, um ástæðu þess að hann hellir sér í Whamageddon. „Ég tel mig eiga ágætis möguleika. Komst langt í fyrra. Vinn vinnu þar sem það er ekkert útvarp og mun pottþétt ekki setja þetta lag á sjálfur. Hlusta helst á jólalög á vínil og ekki á þetta,“ segir Biggi og nefnir Someday at Christmas, með Stevie Wonder, sem uppáhaldsjólalagið sitt.

Alveg vammlaus

Kara Kristel samfélagsmiðlastjarna

„Ég fékk boð um það og ég skil ekki neitt,“ segir samfélagsmiðlastjarnan Kara Kristel, sem tók góðfúslega áskorun Fréttablaðsins, um að vera með í Whamageddon.

„Mér mun örugglega ganga mjög vel því ég fer aldrei neitt og hlusta ekki á útvarp,“ bætir hún við og upplýsir að uppáhaldsjólalagið hennar sé hvorki meira né minna en „öll Christmas In The Dogghouse sem Snoop Dogg gaf út 2008“.

Áhyggjulaust ævikvöld

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Jón Óskar myndlistarmaður

„Ég hef ekkert betra að gera frekar en aðrir eldri borgarar,“ segir myndlistarmaðurinn Jón Óskar um þátttöku sína í Whamageddon.

„Ég slepp örugglega því ég þekki ekki þetta lag. Ef svo slysalega vildi til að ég að heyrði það þá myndi ég ekki fatta að ég væri dauður,“ segir Jón Óskar um nánast skotheldar lífslíkur sínar í leiknum og klykkir út með rokkaðri yfirlýsingu um að Merry Xmas Everybody með Slade sé hans uppáhaldsjólalag.

George Michael og Andrew Ridgeley sem gerðu lagið ódauðlegt jólin 1984.