Heilsu söngvarans og áður trommara hljómsveitarinnar, Phil Collins, hefur hrakað hratt undanfarin ár þannig að tónleikaferðalagið sem kennt er við The Last Domino? verður efalítið hans síðasta.

Höddi Magg gerði sér því lítið fyrir og dreif sig til Bretlands þar sem hann ætlar að sjá Collins á sviði í síðasta sinn í tvígang. Á tónleikunum í Liverpool í gær og síðan aftur í Glasgow í Skotlandi.

Vægast sagt góður rómur hefur verið gerður að þessu tónleikaferðalagi Genesis í breskum fjölmiðlum hingað til og þá ekki síst frammistöðu Collins sem styðst við staf þegar hann gengur á svið og syngur sig sitjandi í gegnum prógrammið.

Viðbrögð Hödda við fyrri tónleikunum benda eindregið til þess að breska pressan hefur engu logið þar sem hann talar á Facebook um „töfra í Liverpool“ og bætir við: „Þetta var betra en ég bjóst við. Alger negla, ógleymanlegt kvöld. Hafði áhyggjur af Collins en hann fór framúr mínum björtustu vonum. Flottasta show sem ég hef séð.“

Phil Collins hefur nokkuð látið á sjá en engu gleymt og stendur sig með stakri prýði á tónleikaferðalaginu sem Höddi Magg er að teika í Bretlandi.
Fréttablaðið/Getty

Býsna djúpt í árinni tekið í ljósi þess að Höddi upplýsti í Fréttablaðinu nýlega að hann hefði séð Genesis í fyrsta sinn árið 2007 á Old Trafford í Manchester.

„Það var sko stóra stundin þar sem allt var í fullu fjöri og Collins bæði að tromma og „fronta“ í ótrúlegu standi. Þeir tónleikar verða eiginlega ekki toppaðir,“ sagði Höddi fyrir helgi og hlýtur að vera skýjum ofar eftir gærkvöldið þar sem Collins og félögum tókst greinilega að toppa í Liverpool í gær.