Félagið Vinir íslenskrar náttúru (VÍN) var stofnað haustið 2022 af um fjörutíu manns sem eiga það sameiginlegt að vilja vernda íslenska náttúru. Tilgangur VÍN er að fjalla um náttúruverndarmál líðandi stundar með áherslu á skaðleg áhrif ágengra og framandi tegunda í íslenskri náttúru.
„Þetta byrjaði raunverulega þegar mörg okkar voru að vinna umsögn um landsáætlun Skógræktarinnar,“ segir Sveinn Runólfsson, formaður VÍN.
„Það voru um 18–20 aðilar sem skrifuðu mjög vandaðar umsagnir um landsáætlunina sem gerði ráð fyrir óheyrilega miklum aukningum í ræktun, sérstaklega nytjaskóga. Þessir aðilar voru margir af okkar færustu vísindamönnum í náttúruvernd í víðtækum skilningi.“
Ógn stafafurunnar
Sveinn segir að margar og viðamiklar athugasemdir hafi verið gerðar við landsáætlunina.
„Þá fórum við að ræða saman hópurinn og sömdum ítarlegar athugasemdir til viðbótar sem við sendum til matvælaráðherra og kynntum síðar á formlegum fundi,“ segir hann. „Þar lýstum við yfir okkar áhyggjum af landsáætluninni sem við töldum brjóta í bága við marga alþjóðlega samninga og lög um náttúruvernd. Ráðherrann brást vel við og lét semja nýja landsáætlun í landgræðslu og skógrækt.“
Sem dæmi nefnir Sveinn að í auknum mæli hafi verið mælst til að notast við tegundir sem hópurinn telur ágengar, á borð við stafafuruna.
„Upp af þessu spratt hugmyndin um að gera okkar viðbrögð sýnilegri með formlegum hætti og það endar með því að við stofnum þetta félag,“ útskýrir hann. „Við ætlum okkur að starfa áfram á þessum vettvangi sem hópur og veita bæði stofnunum og stjórnvöldum visst aðhald þegar kemur að alþjóðlegum samningum – að við stöndumst þá en þverbrjótum þá ekki með svona viðbrögðum.“
Frumskógahernaður
Á fimmtudaginn fór svo í loftið nýr upplýsingavefur VÍN, natturuvinir.is, þar sem verður að finna vísindagreinar og umfjöllun um málefni sem viðkoma náttúruvernd.
„Við leggjum áherslu á að þarna verði eingöngu að finna greinar sem byggja á faglegum og vísindalegum grunni og fjalla um náttúruvernd í víðum skilningi,“ segir Sveinn. „Við leggjum gríðarlega áherslu á verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Skógræktin er okkur ósammála um að margar tegundir séu ágengar því þær hafi ekki verið úrskurðaðar ágengar á einhverjum listum stjórnvalda en við teljum að allir sem fari um landið okkar með opin augun hljóti að sjá að tegundir eins og stafafuran eru að breiðast mjög hratt út.“
Þá segir Sveinn að VÍN muni einnig beita sér fyrir að koma skikk á þann frumskógahernað sem gildi nú um kolefnisjöfnun.
„Okkur blöskrar hvað mörg fyrirtæki eru að kosta miklum fjármunum til að kaupa kolefniseiningar, sem í rauninni eru ekki til, til að jafna sína eigin kolefnislosun. Þarna er mál sem við viljum meðal annars beita okkur fyrir.“