Allt frá ediki að ólífuolíu og engiferi. Ef þig langar að prófa náttúrulegar og ódýrar leiðir til að mýkja húðina eða hreinsa hana, nú eða halda henni unglegri eins og Sophia Lauren lestu þá áfram.

Edik

Edik býr yfir ýmsum eiginleikum og má nota á ólíkan hátt. Einn möguleikinn er að nota það í baðvatnið til að mýkja húðina og halda sýrustiginu í jafnvægi. Passlegt er að setja um 200 ml af ediki út í baðvatnið – svo er bara að slaka og njóta.

Epsom-salt

Undanfarið hefur verið vinsælt að fara í Epsom-bað. Talið er að það mýki húðina og auki upptöku líkamans á magnesíum. Gott er að þurrbursta húðina áður og hafa baðvatnið vel heitt. Passlegt magn er sirka tveir bollar af saltinu út í baðvatnið og mikilvægt að liggja í baðinu alla vega 20 mínútur.

Talið er að Epsom saltið mýki húðina og auki upptöku magnesíums í líkamanum. Mynd/Getty

Grænt te

Flest höfum við heyrt hversu gott grænt te á að vera fyrir okkur en það er víst ekki aðeins til inntöku heldur er tilvalið að bæta því við baðvatnið. Teið hefur slakandi áhrif og því tilvalið ef þú ætlar í bað fyrir svefninn. Settu bara 5 til 10 tepoka undir bununa þegar þú lætur renna í baðið.

Sophia Lauren sagði einhvern tíma að lykillinn að unglegu og frísku útliti hennar væru ólífuolíuböðin. Mynd/Getty

Ólífuolía

Sophia Lauren sagði einhvern tíma að lykillinn að unglegu og frísku útliti hennar væru ólífuolíuböðin. Sagt er að olían geti örvað kollagenframleiðslu líkamans og þannig minnkað fínar línur og hrukkur. Einnig gæti verið ráð fyrir psoriasissjúklinga að bæta svolítilli ólífuolíu í baðvatnið. Smelltu sirka fimm matskeiðum af Extra virgin ólífuolíu í baðið á meðan þú lætur renna í það og liggðu svo eins lengi og þig lystir. Húðin verður alla vega silkimjúk á eftir.

Ferskt engifer

Hreinsunareiginleikar engiferrótarinnar fyrir kroppinn eru vel þekktir en prófaðu að bæta henni við baðið. Hreinsaðu ysta lagið af rótinni og rífðu hana niður þar til þú ert komin með nóg í sirka hálfan bolla. Settu það út í heitt baðið og liggðu í a.m.k. 15 til 20 mínútur. Þú ættir að svitna vel af þessu svo gættu þess að drekka vel af vatni, eða engifertei ef þú vilt hámarka hreinsunina.

Kanill er sagður aðstoða við hreinsun líkamans og er passlegt að setja þrjár stangir í baðvatnið. Mynd/Getty

Kanill

Talið er að bæði geti kanillinn hitað upp kroppinn og einnig losað um hægðatregðu. Kanill er sagður aðstoða við hreinsun og er jafnframt frábær viðbót við baðið á köldum vetrardögum. Gott er að nota kanilstangir í baðið en venjulegur kanill dugir alveg jafn vel. Passlegt er að setja þrjár stangir eða setja svolítinn kanil í grisju út í vatnið.