Göngutúr í haustsvalanum gefur fölum vanga hressandi og heilbrigt útlit en þó má alltaf bæta um betur með kinnalit. Þar koma sterkt inn rósrauðir tónar sem líkja eftir frísklegum áhrifum útiveru á húðina.

Fersk húð er hluti af hausttískunni, hvort sem hún er lýtalaus eða ekki. Því er mælt með léttum farða sem hylur ekki hörundið og leyfir persónulegri húð hvers og eins að skína í gegn. Döggvot húð, í stað mattrar, með lágmarks förðun gefur heilbrigt og stelpulegt útlit.

Glært gloss er aftur í tísku og rauður varalitur er hæstmóðins í haust. Þannig fullkomna vínrauðar varir látlausa andlitsförðun sem þarf ekki meira en góðan maskara en hafið í huga að gott er að nota varalitablýant til að varna því að rauði liturinn smitist út fyrir varirnar.

Óvænt og litríkt litaval á augnumgjörðinni er í tísku á haustdögum. Til dæmis blár í stað svarts augnblýants. Þá þarf ekki annað en maskara og gloss til að líta óaðfinnanlega út. Til að ná fram töfrandi glampa í augnförðun er ráð að setja gylltan eða silfraðan augnskugga við innri augnkróka á meðan annarri förðun er haldið látlausri.

Kattaraugu eru sígild og þokkafull en kalla nú á dramatískari útfærslu þar sem augnblýanturinn er dreginn aðeins upp á við og út fyrir, líkt og Kleópatra gerði forðum. Mikill og þykkur maskari er líka heitur í haust og gefur flöktandi augnhárunum íburðarmikið útlit. Til að daðra enn meira við tískuna þykir kynþokkafullt að vera með augnblýant sem hefur smitast aðeins út fyrir augnlínuna, en þó ekki of mikið.

Augabrúnir eiga að vera sem náttúrulegastar en gott er að bursta þær og fylla upp í eyður með fínlegum strokum í sem náttúrulegustum lit.