Í náttúrulaugum Krauma er hægt að baða sig í hreinu og tæru vatni sem kemur beint úr Deildartunguhver og njóta þess að upplifa slakandi umhverfi. Það er tilvalið fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga að gefa gjafabréf að þessari upplifun, sem gerir fólki kleift að gleyma amstri dagsins.

„Upplifun er góð gjöf sem hentar flestum og Krauma býður upp á upplifun sem er fyrir alla sem vilja njóta þess að vera í beinni snertingu við náttúruna, slaka á og endurnæra líkama og sál,“ segir Jónas Friðrik Hjartarson, framkvæmdastjóri Krauma.

Hreinleiki og hámarks slökun

„Krauma eru náttúrulaugar við Deildartunguhver í Borgarfirði, vatnsmesta hver í Evrópu. Náttúrulaugarnar innihalda hreint og tært vatn beint úr Deildartunguhver sem er kælt með vatni undan öxlum Oks,“ segir Jónas. „Við erum með sex laugar, fimm heitar með mismunandi hita og eina kalda. Engum sótthreinsandi efnum er bætt í vatnið, heldur er hreinleiki þess tryggður með mjög miklu vatnsrennsli í laugunum.

Það eru bara notuð ávöl og mjúk form við hönnun lauganna, sem skapar skemmtilega andstæðu við kassalaga hönnun bygginganna,“ segir Jónas. „Búningsklefarnir okkar rúma 100 manns og þar eru læstir skápar. Í klefunum eru rúmgóð snyrtiborð með stórum speglum og góðri lýsingu.

Til að hámarka slökunina er gestum boðið að dvelja í hvíldarherbergi sem er staðsett á laugasvæðinu, en þar er að finna þægilega legubekki þar sem þeir geta slakað á við ljúfa tónlist og snark frá arineldi,“ segir Jónas. „Krauma býður svo líka upp á tvö vatnsgufuböð og útisturtur, en gufan er mynduð með því að úða hveravatni inn í rýmin undir timburbekkjunum. Í gufuböðunum eru notaðar hágæða ilmolíur til að hámarka ánægju gesta.

Síðast en ekki síst erum við með veitingastað með fullbúnu eldhúsi í aðalbyggingunni, en þar bjóðum við upp á létta rétti ásamt kaffi og meðlæti,“ segir Jónas. „Staðurinn rúmar 70 manns í sæti og 60 á palli utandyra þegar veður leyfir. Lögð er áhersla á gott og ferskt hráefni sem er keypt frá bændum og fyrirtækjum í Borgarbyggð. Bæði laugarnar og veitingastaðurinn eru opin allt árið um kring.“

Besta vopnið gegn stressi

„Í ár ættu fyrirtæki að gefa starfsfólki sínu gjöf sem inniheldur slökun og góðan mat,“ segir Jónas. „Það er fátt betra til að vinna gegn stressinu og álaginu sem fer illa með okkur öll.

Við bjóðum upp á mismunandi gerðir af gjafabréfum,“ segir Jónas. „Það er hægt að fá bara aðgang í náttúrulaugarnar, aðgang í náttúrulaugarnar með mat á veitingastaðnum inniföldum og svo er hægt að bæta við drykkjum eða leigu á handklæðum og sloppum.“

-------------------------------------------

Allar upplýsingar um Krauma er á www.krauma.is eða í síma 555-6066 og hægt er að senda póst á krauma@krauma.is til að fá frekari upplýsingar um gjafabréfin.