„Mamma, ömmur mínar og frænkur eru og voru mjög handlagnar og prjónuðu og saumuðu mikið. Sjálf hef ég prjónað, heklað og föndrað almennt eins lengi og ég man eftir mér,“ segir Guðlaug. „Ég man að heima hjá Guðlaugu ömmu minni var handavinnukommóða með prjónum, nálum og fleiri ævintýralegum hlutum eins og pípunni sem hún reykti í denn. Ég gat dundað mér löngum stundum við að gramsa í kommóðunni. Amma hafði líka óendanlega þolinmæði og tíma til að leiðbeina og hjálpa sem ég nýtti mér óspart.“

Mynstrið á þessari gullfallegu peysu er innblásið af mynstri á væng fiðrildis sem Guðlaug hitti fyrir á Ísafirði.
Eva Ágústa Aradóttir

Handavinnan veitir slökun

Guðlaug er sjúkraþjálfari að mennt en starfsferill hennar er talsvert fjölbreyttari. „Ég var formaður BHM í sex ár, sat í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í átta ár, en vann líka við sjúkraþjálfun og á Námsbraut í sjúkraþjálfun við HÍ. Í dag starfa ég við fræðslu og ráðgjöf hjá Einhverfusamtökunum, en ég og fleiri í fjölskyldu minni erum á einhverfurófinu,“ segir Guðlaug.

„Prjón og hekl hefur alltaf verið hluti af mínu stimmi, eða fitli, sem fylgir einhverfunni. Reglubundin, endurtekin hreyfing sem veitir slökun og ró. Takturinn í prjóninu virkar á mig svipað og gönguferð, hjálpar huganum að fikra sig í gegnum verkefni og viðfangsefni og styður þannig við annað sem ég geri í starfi og leik. Það er líka eitthvað heillandi og göldrótt við að geta tekið hnykil af bandi og flækt hann saman þannig að úr verði eitthvað bæði fallegt og nýtilegt.

Ég upplifi tengingu við eitthvað sammannlegt eðli eða ferli, að búa til nytjahluti sem um leið eru til skrauts. Prjónles, eins og það nefnist á góðri og gamalli íslensku, er ekki bara hlýtt og fallegt, heldur býr líka í því menning, arfur og hefð, sem gengur mann fram af manni. Það er gaman að vera hluti af þeim straumi,“ segir Guðlaug.

Í þessari peysu fær steindur gluggi að verða að nýju mynstri.
Eva Ágústa Aradóttir

Mynstrin fæðast á koddanum

Guðlaug hefur gefið út rúmlega þrjátíu prjónauppskriftir með mynstrum og sniðum sem hún hannar sjálf. „Ég á svo nokkur í hönnunarferli og fleiri liggja óskrifuð en fullgerð sem hafa fæðst síðustu tvö, þrjú árin. Ég byrjaði að prjóna peysur upp úr tíu ára aldri og fann svolítið mínar eigin leiðir í því. Ég kenndi mér til dæmis að prjóna með vinstri hendinni til baka til að sleppa við brugðnar umferðir og æfði mig markvisst í að prjóna hratt,“ segir hún.

Guðlaug segir að hún hafi þó furðu seint byrjað að hanna sín eigin mynstur. „Aðferðin að prjóna peysur ofan frá og niður var opnun fyrir mér, enda er þá auðveldara að móta flíkurnar jafnóðum. Síðan var önnur opnun í tengslum við alvarlega kulnun sem ég lenti í árið 2018 og vann mig út úr að stórum hluta gegnum handavinnuna. Á þeim tíma gat ég illa lesið sem ýtti mér út í tilraunamennsku með eigin mynstur. Þá var ekki aftur snúið og mynstrin fæðast gjarnan á kvöldin og morgnana á koddanum, nokkurn veginn af sjálfum sér. Ég er ekki beint að leita: mynstrin leita eiginlega frekar á mig. Ég tek talsvert af myndum ef ég sé eitthvað fallegt og sumt seytlar smám saman inn í undirmeðvitundina og bankar upp á síðar.“

Hér fær vers úr Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, um tvo dumbrauða fiska, að verða að prjónamynstri.
Eva Ágústa Aradóttir

Í eðli sínu óregluleg

Meðal þeirra gjafa sem fylgja einhverfunni segir Guðlaug að sé rík mynsturhugsun og athygli á smáatriðum. „Ég hrífst af náttúrumynstrum til dæmis á fiðrildavængjum og skeljum. Þau eru í eðli sínu óregluleg, sem er pínu óvenjulegt í prjóni, það er að mynstrin eru ekki endilega samhverf eða fyrirsjáanleg. Náttúran er besti mynstursmiðurinn að mínu mati og ég reyni að vera henni trú og halda óreglunni gangandi. Ég hef líka fundið mynstur í húsum og mannvirkjum, eins og innviðum Fríkirkjunnar í Hafnarfirði og húsum sem eru kennileiti bæði hér í bæ og víðar.“

Guðlaug er með síðu á Ravelry-vefnum þar sem má nálgast uppskriftirnar hennar. „Ef fólk er ekki sjálft með aðgang að vefsvæðinu er hægt að fá aðstoð í garnbúðum við að kaupa uppskriftirnar. Eins má senda mér tölvupóst eða skilaboð gegnum samfélagsmiðla og nálgast uppskriftirnar þannig. Stundum prjóna ég eftir pöntun, en þá bara mína eigin hönnun. Ég hef líka gert einstakar flíkur eftir óskum hvers og eins, sem getur verið mjög skemmtilegt og gefandi,“ segir Guðlaug að lokum. Hægt er að skoða fleiri prjónapeysur eftir Guðlaugu á Ravelryog Instagram: gkdottir_knits.