Undanfarin ár hafa fjallahjólin orðið sífellt fyrirferðarmeiri í útivist landsmanna enda hentug hreyfing fyrir fólk á öllum aldri auk þess sem hægt er að hjóla á fjöllum, fellum og malarstígum víða um land stóran hluta ársins.

Einn þeirra sem hafa stundað fjallahjólamennsku lengi er trésmiðurinn Sindri Hauksson sem segir svo margt heillandi við íþróttina. „Ætli það sé ekki helst gleðin við að vera úti í náttúrunni að djöflast með vinunum og peppa hverjir aðra upp í einhverja vitleysu. Eina andlega áreynslan er að hugsa manískt um hjól, að hjóla eða að moka og smíða eitthvað nýtt til að hjóla á. Svo er líka líkamlega og andlega ómögulegt að vera í vondu skapi á fjallahjóli eða BMX-hjóli. Maður er brosandi allan hringinn, alltaf.“

Byrjaði ungur að hjóla

Sindri segist hafa djöflast á hjóli og hjólabrettum síðan hann var barn. „Þegar ég var fimmtán ára byrjaði ég að hjóla á BMX-hjóli og úr varð samband á borð við malt og appelsín. BMX er alveg eins og hjólabretti að því leyti að við erum að nota borgarumhverfið eins og leikvöll, finna flotta staði og gera eitthvað töff á þeim. Þá erum við til dæmis að stökkva upp á handrið og renna okkur niður það og stökkva á milli bílskúrsþaka svo eitthvað sé nefnt. Ég og vinir mínir vorum úti alla daga og öll kvöld að finna nýja staði til að hjóla á. Ef veðrið var vont þá sóttum við skjól í bílastæðahúsum eða yfirbyggðum vörumóttökum.“

Fyrir nokkrum árum keypti Sindri aftur fjallahjól og fann hvað það opnaði marga nýja möguleika fyrir sig. „Nú er náttúran líka orðin að leikvelli og ég hjóla þar með sama utangarðsmannahugarfarinu og ríkti á hjólabrettinu og BMX-hjólinu áður.“

Góð aðstaða víða

Aðstaðan fyrir fjallahjólara hefur batnað mikið hérlendis undanfarin ár að hans sögn. „Þar má meðal annars nefna Skálafell bike park sem er að verða rosalega flott svæði þar sem mikill metnaður er lagður í að búa til brautir á öllum erfiðleikastigum. Svo er aragrúi af hjólastígum alls staðar í kringum okkur á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis á Hengilssvæðinu, í kringum Reykjadal og Móskarðshnúka svo eitthvað sé nefnt. Það eru líka mjög góðar hjólabrautir í Hlíðarfjalli á Akureyri og það er mikill metnaður lagður í brautargerð á Ísafirði. Svo bætist endalaust við þegar maður er duglegur að fara út að hjóla og leita.“

Einfalt að byrja

Fyrir þau sem vilja stíga sín fyrstu skref á fjallahjólum segir Sindri þau í sjálfu sér ekki vera flókin. „Í fyrsta lagi þarf maður að eiga hjól og það þarf alls ekki að vera dýrt hjól. Ef þú átt hjól sem þér finnst flott og virkar ágætlega þá ertu í góðum málum. Í öðru lagi er bara að fara út að leika sér. Finna malarstíga til að skransa á og hjóla í skógum í nærumhverfi sínu. Það er svo merkilegt hvað maður er fljótur að kynnast fullt af skemmtilegu fólki sem hjólar, bara með því að fara út að hjóla. Ég er örugglega í fimm mismunandi hjólaklíkum bara út af því að ég fór út að hjóla.“

Gott hjólapartí í vændum

Sindri er einn þeirra sem koma að skipulagi Dirtjump og E-bike Downhill hjólakeppninni sem haldin verður í Skálafell bike park næsta laugardag, 20. ágúst. „Það verður sannarlega boðið upp á frábært hjólapartí í Skálafelli á vegum Púkans og Skálafell bike park. Fyrst verður raffjallahjólakeppni þar sem keppendur hjóla malarveg upp fjallið og bruna svo niður downhill-brautina og keppast við að verða fyrstir í mark.“

Næst á dagskrá er „dirtjump session“ og hástökkskeppni á pallasvæðinu. „Dirtjump sessi­onið“ verður þannig að það mega allir taka þátt. Við hjólum og leikum okkur í klukkutíma og verða veitt verðlaun fyrir flottasta trikkið og flottasta hjólarann í bæði yngri og eldri flokki. Á meðan verða pulsur og drykkir í boði fyrir alla sem mæta til að hjóla eða horfa á. Veislunni lýkur með öfugu limbói eða hástökkskeppni þar sem við munum stökkva yfir slá sem er hækkuð um 10 cm í hverri umferð. Sá sem fellir ekki slána vinnur.“

Hægt er að kynna sér keppnina betur á Facebook á síðu Skálafell bike park.

Dirtjump og E-bike Downhill hjólakeppnin fer fram í Skálafell bike park laugardaginn 20. ágúst.