Natan Dagur Bene­dikts­son tekur lagið Back to Black eftir Amy Winehouse í þætti The Voice í kvöld klukkan átta á norskum tíma. Átta þátttakendur keppa í kvöld en aðeins sex komast áfram.

Benedikt Viggósson, pabbi Natans, segir hann ánægðan með lagavalið.

„Það var gott hljóð í honum í morgun. Hann er ánægður með lagið en þetta verður í annarri útgáfu en við erum vön að heyra,“ segir Benedikt.

Natan ásamt þjálfara sínum Inu Wroldsen

Fer stöðugt fram

Benedikt segir spenntur en ekki nærri því jafn stressaður og hann var í síðustu viku, þegar Natan söng fyrir Norðmennina á íslensku.

„Ég er stundum aðeins of spenntur, en ég er rólegri núna en fyrir síðasta þátt. Síðast var verið að velja á milli tveggja í liðinu hennar Inu. Þar eru sterkustu keppendurnir og hann ætlaði að syngja á íslensku og ég hafði enga hugmynd hvernig það myndi falla í kramið hjá Norðmönnum.“

Natan sló rækilega í gegn þegar hann tók lagið Vor í Vaglaskógi í útsetningu Kaleo og komst áfram í átta manna úrslit. Eftir þáttinn í kvöld eru bara tveir þættir eftir.

„Þetta er búið að vera ótrúlegt ferðalag og Natan er stöðugt að bæta sig. Hann er að keppa við marga sigurstranglega, fólk sem er búið að standa á sviði í mörg ár en Natan tekur þetta allt á einlægninni og maður sér miklar framfarir í flutningi hans í hverri viku.“