„Ég sem ekki lög nema þau séu persónuleg,“ segir Natan Dagur um nýja lagið sitt, Holding on. Um er að ræða annað lagið sem Natan gefur út og er frumsamið af honum en í mars síðastliðnum gaf hann út lagið Stuck in Time.

Natan Dagur er búsettur í Noregi og vakti mikla athygli í fyrra þegar hann tók þátt í norsku raunveruleikaþáttunum The Voice. Hann segist hafa fengið gríðarlega góð viðbrögð við nýjasta laginu sínu og fer ekki í grafgötur um að þar opni hann sig upp á gátt.

„Það er í raun það sem mig hefur alltaf langað að gera. Að skrifa um mikilvægar tilfinningar og hugsanir sem ég hef haft,“ útskýrir Natan. Hann segir nýja lagið tengjast því gamla órjúfanlegum böndum.

„Í fyrra laginu syng ég um tilfinningu sem ég hef fundið mjög lengi og sem hefur haft mjög mikil áhrif á mig sem persónu og líf mitt. Að líða eins og maður sé alltaf í sama spori og að maður komist ekki neitt. Að fara að sofa og vakna og gera nákvæmlega það sama og upplifa að maður hafi í raun engan tilgang,“ segir Natan Dagur einlægur.

„Holding on er í raun, ef svo má segja, svarið við þeirri tilfinningu. Þó mér hafi liðið eins og ég væri alltaf á vitlausum stað þá hélt ég samt fast í trúna, jafnvel þó að á tímabili hafi mig ekki einu sinni langað að reyna. Ég minnti mig á hvað ég hafði verið stutt í sársaukanum miðað við mína lífstíð og þess vegna þurfti ég bara að halda fast í vonina og trúna um að hlutirnir yrðu betri á endanum.“

Draumur

Faðir Natans hefur áður rifjað upp í blaðinu hvernig Natani var strítt fyrir sönginn og hvernig hann lagði sönginn á hilluna í langan tíma eftir þá upplifun. Nú vinnur hann við sönginn og spurður um hvernig tilfinning það sé, stendur ekki á svörum.

„Þetta er bara draumur. Ég er með fullt af skemmtilegum verkefnum í pípunum og svo stefnir maður á að gefa út plötu á næsta ári,“ segir Natan Dagur sem segir sýn sína á tónlistarheiminn hafa breyst eftir að hafa slegið í gegn.

„Þetta er dálítið eins og að vera hrifinn af galdrabrögðum og fá svo að vita hvernig þau eru gerð,“ segir hann hlæjandi. „Þetta er svona með flest,“ segir Natan sem segist þó alls ekki við það að fá nóg af tónlistinni.

„Nei, það er ég ekki. Þetta snýst um hvernig þú sinnir þessu. Ég skrifa bara lög þegar ég faktískt finn fyrir einhverju, af því að ef þú ert bara inni í stúdíói til að vera inni í stúdíói þá missirðu náttúrulega bara gleðina.“