Íslenska vonarstirnið í Noregi, Natan Dagur Benediktsson, hélt að bróðir sinn væri að gera í sér símaat þegar hann fékk símtalið þar sem honum var boðið að taka þátt í norsku útgáfunni af raunveruleikaþættinum The Voice. Þetta kom fram í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá sló Natan í gegn í prufunni sinni í þáttunum. Það er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að fyrir þáttinn hafði Natan aldrei sungið á sviði áður. Líkt og faðir Natans útskýrði, hafði hann lengi átt sér þann draum að vera söngvari.
„Hann er mjög góður bróðir og hafði alltaf verið mjög stuðningsríkur í þessu,“ segir Natan um bróðir sinn sem skráði hann hreinlega til leiks í The Voice. Natan hafði fram að því ekki þorað að stíga skrefið en líkt og fram hefur komið uppskar Natan gjarnan háð og stríðni skólafélaga sinna fyrir söng sinn.
Þegar Natan fékk boðið í símtali, hélt hann að þar væri bróðir sinn á ferðinni. Því sló hann á létta strengi en áttaði sig fljótlega á því að hringjandinn var ekki alveg á sömu blaðsíðu.
„En svo fattaði ég fljótt að þetta væri ekki grín,“ segir Natan glettinn. „Gæinn var mjög hissa á hinni línunni og vissi ekki alveg hvernig hann ætti að bregðast við.“ Natan segist hafa ákveðið að slá til, enda ekki haft neinu að tapa.
Natan segir að það hafi komið sér á óvart að sér hafi tekist að græta einn dómarann, eins og frægt er orðið. „Það snerti hjartað. Það er alltaf mjög gaman að geta borið skilaboðin svona vel í gegnum söng,“ segir hann.
Tökur á þáttunum standa nú yfir og fara fram þar til í miðjan apríl. Þá taka beinar útsendingar við og spennandi að sjá hvert gengi Natans verður.