Natan Dagur Benediktsson sló heldur betur í gegn hjá dómurunum í norsku útgáfunni af The Voice síðustu helgi. Allir fjórir dómarar snéru sér við, en Natan ákvað að ganga í lið Inu Wroldsen. Hún er ein af þekktustu söngkonum Noregs og er í hljómsveitinni Ask Embla með hinum íslenska Arnþóri Birgissyni.

Í dag birti opinber YouTube-síða The Voice val sitt á bestu áheyrnaprufum vikunnar á heimsvísu. Sjö atriði voru valin alls en flutningur Natans Dags á Bruises með Lewis Capaldi var fyrstur í röðinni. Þetta verður að teljast nokkuð merkilegur árangur í ljósi þess að hátt í hundrað lönd eru með sína eigin útgáfu af þáttunum. Í athugasemdum við myndbandið er augljóst að Natan Dagur á sér marga dygga fylgendur.

„Já, þetta kom mér allt saman svo mikið á óvart. Ég fór a sviðið með engar væntingar, hélt að enginn myndi snúa sér við. Mig hefur skort sjálfstraust í langan tíma en vonaðist innilega að einn dómari myndi snúa sér við þannig að ég kæmist allavega áfram. Það að fjórir dómarar hafi snúið sér við, allir staðið upp fyrir mér klappandi og að fá þessi ummæli frá þeim var alveg óraunverulegt,“ segir Natan Dagur, í ítarlegur viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins sem kemur út á morgun.