Banda­ríska kántrí söng­konan Naomi Judd er látin 76 ára að aldri. Leik­konan Ashley Judd til­kynnti and­lát móður sinnar á Twitter og segir hana hafa látist af völdum geð­sjúk­dóms.

„Við systurnar erum að upp­lifa harm­leik. Okkar fal­lega móðir féll fyrir geð­sjúk­dómi. Við erum í molum. Við erum að upp­lifa mikla sorg en vitum að rétt eins og við elskuðum hana, var hún elskuð af öllum sem hana þekktu. Við búum við nýjan og ó­kunnan veru­leika,“ segir í Ashley í færslunni.

Naomi myndaði dúettinn The Judds á­samt dóttur sinni Wynonna Judd. Þær hafa unnið til Gram­my verð­launa og til stóð að dúettinn yrði form­lega tekinn inn í Frægðar­höll kántrí tón­listar í Banda­ríkjunum á morgun.

Þá höfðu þær ný­verið til­kynnt um fyrir­hugað tón­leika­ferða­lag, sitt fyrsta í heilan ára­tug.

Dúettinn The Judds var á leið í tónleikaferðalag sem átti að hefjast næsta haust.