Listakonan og dansarinn Gígja Jónsdóttir tekur þátt í sýningarröð Listasafns Reykjavíkur, sem nefnist Haustlaukar II. Á laugardaginn fer frem fyrsti gjörningurinn á hennar vegum, en allir snúast þeir um listræna sýn á nánd.

„Ég hef mikið verið að vinna með gjörninga. Ég er mjög hrifin af þessu lifandi elementi, þetta er eitthvað sem ekki er hægt að stjórna. Þessi mannlegi hluti sem kemur fram í gjörningum heillar mig. Ég hef mikið leikið mér með það að fá almenning til að taka þátt í verkunum mínum. Mér finnst það alltaf svo spennandi, að fá fjölbreyttar raddir inn í verkin. Þannig að listin geti verið sammannleg,“ segir Gígja.

Mynd/Gígja Jónsdóttir

Pönkhljómsveit eldri borgara

Í fyrra gerði Gígja gjörning sem fólst í því að hún stofnaði pönkhljómsveit með eldri borgurum.

„Í þeim hópi var beggja blands fólk sem hafði enga reynslu og svo aðrir með smá reynslu. Mér finnst það alltaf svo áhugavert, að fá ólíka flóru af fólki í verkin,“ segir hún.

Listasafn Reykjavíkur stendur nú fyrir þriggja vikna langri sýningarröð sem kallast Haustlaukar. Hún er haldin í annað sinn.

„Þemað er list í almenningsrými og listin sem er mest áberandi er list sem væri hægt að kalla óáþreifanlega. Dagskráin er mjög fjölbreytt, það eru átta listamenn sem taka þátt.“

Verk Gígju heitir Nánd í þremur þáttum ásamt Grand finale, sem fram fer í október.

„Fyrsti þátturinn er á laugardeginum. Þar koma saman pör, alls konar pör, og sýna nánd í almenningsrými. Gjörningurinn stendur bara yfir í fimm mínútur. Hann fer fram við Sæbrautina, milli Hörpunnar og Sólfarsins. Ég væri mjög til í að fá fleira fólk til að taka þátt í þeim gjörningi og þeir sem vilja geta haft samband við mig upp á það,“ segir Gígja.

Annar þáttur gjörningsins fer fram á samskiptaforritinu Zoom.

„Þá tjá þátttakendur nánd sína í gegnum internetið. Áhorfendur geta svo nálgast tengilinn á viðburðinn og fylgst með án myndavélar og hljóðs. Þannig fá þau að upplifa það verk,“ segir Gígja.

Fréttablaðið/Anton Brink

Nándarstöðvar um allan bæ

Þriðji þátturinn verður svo stenslaðar Nándar-stöðvar sem settar verða upp úti um allan bæ.„Þær verða svo áfram í gangi. Þær eru á Hlemmi, Granda, Mjódd og Kringlunni. Þar geta vegfarendur nándast saman,“ segir Gígja og hlær.

Hún segist hafa farið að pæla meira í nánd og mikilvægi hennar núna á þessum fordæmalausu tímum.Lokahnykkurinn í sýningarröðinni fer svo fram á Arnarhóli 18. október.

„Þá þarf enginn að skrá sig og öllum er velkomið að koma og sýna nánd.“

Gjörningurinn á laugardaginn fer fram á Sæbraut milli Hörpu og Sólfarsins. Hann hefst klukkan 15.00. Nánari upplýsingar um þátttöku er hægt að nálgast á listasafnreykjavikur.is.