Ég lifi enn – sönn saga sem er frum­sýnt í Tjarnar­bíói í dag er sjón­ræn og ljóð­ræn sýning um hið undar­lega ferða­lag sem lífið er og þá vissu að við munum öll deyja. Verkið er inn­blásið af per­sónu­legri reynslu að­stand­enda af að fylgja sínum nánustu inn í þriðja ævi­skeiðið og þeirra sem eru staddir í því sjálfir.

„Okkur fannst þetta bara svo brýn nauð­syn. Við byrjuðum að vinna í þessu 2019 og síðan þá hefur verið mikil vakning varðandi þriðja ævi­skeiðið, verð­mæti þess og þær að­stæður sem fólk er í,“ segir Rebekka A. Ingi­mundar­dóttir, list­rænn stjórnandi verk­efnisins.

Með aðalhlutverk í Ég lifi enn – sönn saga fara leikkonurnar Þórey Sigþórsdóttir, Ingibjörg Gréta Gísladóttir og Halldóra Rósa Björnsdóttir.
Mynd/Owen Fiene

Fór í nám­skeið í mark­þjálfun

Rebekka starfaði sem kennari á sviðs­höfunda­braut Lista­há­skóla Ís­lands þegar hún fékk hug­myndina að verk­efninu en hún segir hana hafa kviknað út frá nám­skeiði í mark­þjálfun sem hún fór í á­samt öðrum kennurum.

„Ég á­kvað að fara svo í nám hjá E­volvia og læra mark­þjálfun og ég staldraði sjálf svo­lítið við eldra fólk, það talaði enginn um það. Ég var að pæla í því og gerði smá rann­sóknar­vinnu, svo bý ég rétt hjá Grund þannig að ég fór bara af stað með hvað myndi hjálpa eldra fólki að vera mark­þjálfuð inn í næsta dag, næstu viku eða næsta mánuð á þriðja ævi­skeiðinu,“ segir Rebekka.

Um það leyti sem Rebekka var í þessum vanga­veltum hringdi leik­konan Þór­ey Sig­þórs­dóttir í hana og spurði hvort hún vildi taka þátt í verk­efni um að safna saman sögum eldra fólks.

„Í því sam­tali fórum við báðar á flug um hvernig væri að vinna með að styrkja eldra fólk út frá rödd, líkams­beitingu og þjálfun. Hvernig væri þá að vinna með eldra fólki út frá þessum hug­myndum,“ segir Rebekka.

Rebekka og Þór­ey byrjuðu að móta verk­efnið og fengu síðar til liðs við sig leik­stjórann Ás­dísi Skúla­dóttur og úr varð nokkurra ára rann­sóknar­verk­efni sem þróaðist svo út í sýninguna Ég lifi enn.

Úr sýningunni Ég lifi enn - sönn saga.
Mynd/Owen Fiene

Tölum svo lítið um þetta

Er þriðja ævi­skeiðið kannski eitt­hvað sem er svo­lítið hulið og lítið fjallað um í sam­fé­laginu?

„Já, þar er ég sam­mála þér. Ég upp­lifði það í gegnum fólk sem við unnum með og sem að­standandi, við vitum að við stefnum þangað en við undir­búum okkur ekki fyrir það og það er eins og það sé á­kveðin hunsun í gangi.“

Rebekka bætir því við að hún hafi sjálf ný­lega fengið að upp­lifa þetta sem að­standandi en móðir hennar lést í fyrra og faðir hennar flutti á hjúkrunar­heimili um svipað leyti.

„Við tölum svo lítið um þetta, það er næstum eins og það sé tabú að verða gamall og vera á þessum aldri. Ég heyri rosa­lega mikið nei­kvætt um það frekar en já­kvætt, fólk dettur út af vinnu­markaði mjög snemma eða er sett út í horn. Fyrir mig sem hef búið í tuttugu ár er­lendis, í Tékk­landi og Hollandi, sé ég að þar er reynsla metin sem verð­mæti en hérna á Ís­landi er farið eftir kenni­tölunni sem er undar­legt því við erum svo lítið sam­fé­lag.“

Við tölum svo lítið um þetta, það er næstum eins og það sé tabú að verða gamall og vera á þessum aldri.

Vinnu­smiðjur fyrir eldri borgara

Er ein­hver í list­ræna teyminu á þriðja ævi­skeiðinu?

„Já, Ás­dís Skúla­dóttir sem fylgdi okkur frá fyrsta nám­skeiðinu sem við héldum í Hæðar­garði. Við vorum með vinnu­smiðjur sem við héldum sem hétu Augna­blik – Ég á mér rödd. Við byrjuðum í Hæðar­garði og svo sóttum við um hjá Reykja­víkur­borg að fara inn á öll fé­lags­heimili eldri borgara á Reykja­víkur­svæðinu og fórum inn á sau­tján fé­lags­mið­stöðvar með þessa vinnu­smiðju.“

Spurð um hvort þetta sé sýning fyrir alla aldurs­hópa segir Rebekka verkið henta fólki á miðjum aldri, þeim sem eru að nálgast þriðja ævi­skeiðið sem og yngra fólki.

„Þetta er líka fyrir mann­eskjuna sem er tví­tug og hefur á­huga á að kíkja að­eins inn í þennan heim og hefur gaman af ljóð­rænu, sjón­rænu og öðru­vísi leik­húsi. Ég vona svo sannar­lega að bæði eldra fólk, fólk á miðjum aldri og yngra fólk muni njóta þess,“ segir hún.