Ég lifi enn – sönn saga sem er frumsýnt í Tjarnarbíói í dag er sjónræn og ljóðræn sýning um hið undarlega ferðalag sem lífið er og þá vissu að við munum öll deyja. Verkið er innblásið af persónulegri reynslu aðstandenda af að fylgja sínum nánustu inn í þriðja æviskeiðið og þeirra sem eru staddir í því sjálfir.
„Okkur fannst þetta bara svo brýn nauðsyn. Við byrjuðum að vinna í þessu 2019 og síðan þá hefur verið mikil vakning varðandi þriðja æviskeiðið, verðmæti þess og þær aðstæður sem fólk er í,“ segir Rebekka A. Ingimundardóttir, listrænn stjórnandi verkefnisins.

Fór í námskeið í markþjálfun
Rebekka starfaði sem kennari á sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands þegar hún fékk hugmyndina að verkefninu en hún segir hana hafa kviknað út frá námskeiði í markþjálfun sem hún fór í ásamt öðrum kennurum.
„Ég ákvað að fara svo í nám hjá Evolvia og læra markþjálfun og ég staldraði sjálf svolítið við eldra fólk, það talaði enginn um það. Ég var að pæla í því og gerði smá rannsóknarvinnu, svo bý ég rétt hjá Grund þannig að ég fór bara af stað með hvað myndi hjálpa eldra fólki að vera markþjálfuð inn í næsta dag, næstu viku eða næsta mánuð á þriðja æviskeiðinu,“ segir Rebekka.
Um það leyti sem Rebekka var í þessum vangaveltum hringdi leikkonan Þórey Sigþórsdóttir í hana og spurði hvort hún vildi taka þátt í verkefni um að safna saman sögum eldra fólks.
„Í því samtali fórum við báðar á flug um hvernig væri að vinna með að styrkja eldra fólk út frá rödd, líkamsbeitingu og þjálfun. Hvernig væri þá að vinna með eldra fólki út frá þessum hugmyndum,“ segir Rebekka.
Rebekka og Þórey byrjuðu að móta verkefnið og fengu síðar til liðs við sig leikstjórann Ásdísi Skúladóttur og úr varð nokkurra ára rannsóknarverkefni sem þróaðist svo út í sýninguna Ég lifi enn.

Tölum svo lítið um þetta
Er þriðja æviskeiðið kannski eitthvað sem er svolítið hulið og lítið fjallað um í samfélaginu?
„Já, þar er ég sammála þér. Ég upplifði það í gegnum fólk sem við unnum með og sem aðstandandi, við vitum að við stefnum þangað en við undirbúum okkur ekki fyrir það og það er eins og það sé ákveðin hunsun í gangi.“
Rebekka bætir því við að hún hafi sjálf nýlega fengið að upplifa þetta sem aðstandandi en móðir hennar lést í fyrra og faðir hennar flutti á hjúkrunarheimili um svipað leyti.
„Við tölum svo lítið um þetta, það er næstum eins og það sé tabú að verða gamall og vera á þessum aldri. Ég heyri rosalega mikið neikvætt um það frekar en jákvætt, fólk dettur út af vinnumarkaði mjög snemma eða er sett út í horn. Fyrir mig sem hef búið í tuttugu ár erlendis, í Tékklandi og Hollandi, sé ég að þar er reynsla metin sem verðmæti en hérna á Íslandi er farið eftir kennitölunni sem er undarlegt því við erum svo lítið samfélag.“
Við tölum svo lítið um þetta, það er næstum eins og það sé tabú að verða gamall og vera á þessum aldri.
Vinnusmiðjur fyrir eldri borgara
Er einhver í listræna teyminu á þriðja æviskeiðinu?
„Já, Ásdís Skúladóttir sem fylgdi okkur frá fyrsta námskeiðinu sem við héldum í Hæðargarði. Við vorum með vinnusmiðjur sem við héldum sem hétu Augnablik – Ég á mér rödd. Við byrjuðum í Hæðargarði og svo sóttum við um hjá Reykjavíkurborg að fara inn á öll félagsheimili eldri borgara á Reykjavíkursvæðinu og fórum inn á sautján félagsmiðstöðvar með þessa vinnusmiðju.“
Spurð um hvort þetta sé sýning fyrir alla aldurshópa segir Rebekka verkið henta fólki á miðjum aldri, þeim sem eru að nálgast þriðja æviskeiðið sem og yngra fólki.
„Þetta er líka fyrir manneskjuna sem er tvítug og hefur áhuga á að kíkja aðeins inn í þennan heim og hefur gaman af ljóðrænu, sjónrænu og öðruvísi leikhúsi. Ég vona svo sannarlega að bæði eldra fólk, fólk á miðjum aldri og yngra fólk muni njóta þess,“ segir hún.