Námið í NTV var þrjár annir og Þóra Birna segir að námið hafi algjörlega staðist væntingar, kennararnir hafi verið frábærir og nemendahópurinn fjölbreyttur og á öllum aldri.
„Þetta var fólk með alls konar bakgrunn, konur voru í meirihluta en það voru líka nokkrir karlmenn,“ segir hún.
Áður en Þóra Birna skellti sér í bókhaldsnám hafði hún lokið námi sem framreiðslumaður, eða faglærður þjónn. Hún var líka með meistaragráðu í matvælagreinum og hafði unnið störf tengd því.
„Ég hafði aðallega unnið á veitingastöðum áður en ég fór í bókhaldsnámið. Ég vann lengi á Lækjarbrekku sem vaktstjóri og meistari en vann líka í nokkur ár á leikskóla,“ segir hún.
Bókhaldsnám var því frekar stór breyting frá fyrra námi og störfum Þóru Birnu. Hún hafði þó fengið smjörþefinn af því áður en hún skráði sig í NTV.
„Það voru bókhaldskúrsar í meistaranámi mínu í matvælagreinum sem kynntu mig fyrst fyrir greininni. Ég fékk svo smá reynslu af bókhaldskerfi við vaktstjórastörf á veitingahúsi. Það vakti áhuga minn á frekara námi í faginu,“ útskýrir hún.
Fjölbreytt verkefni
Þóra Birna segir að það hafi ekki verið auðvelt að finna starf að námi loknu þar sem flestir leita eftir einhverjum með reynslu. En hún fann sem betur fer starf hjá Örmum ehf. og sér þar um bókhald, skipulag og fleira fyrir Arma bíla. Starfið er fyrsta starf hennar sem viðurkenndur bókari.
Spurð að því hvort hún hafi fengið einhverja starfsþjálfun í náminu hjá NTV eða hvort henni hafi bara verið hent beint út í djúpu laugina þegar hún hóf störf segir hún að starfsþjálfun hafi ekki verið hluti af náminu en hún fékk góða aðstoð frá samstarfsfólki sínu hjá Örmum sem hjálpaði henni að komast inn í starfið.
„Verkefnin eru mjög fjölbreytt hjá mér þar sem ég sé um fyrirtæki frá A til Ö. Það er oft þannig að hlutverkum er skipt á milli, einn sem sér kannski bara um að senda reikninga en þetta fyrirkomulag gefur manni mestu reynsluna,“ útskýrir Þóra Birna.
Hún er mjög ánægð með að hafa tekið ákvörðun um að skella sér í bókhaldsnám.
„Ég kynnist alls kyns fólki. Bæði í náminu og á vinnustaðnum mínum. Þar er fólk alls staðar að úr þjóðfélaginu sem poppar upp daginn,“ segir hún. Hún segir einnig aðspurð að auðvelt sé að aðskilja vinnu og einkalíf í þessu starfi.
„Það er mjög einfalt. Vinnutíminn getur verið sveigjanlegur og það er ekkert mál að skilja vinnuna eftir í vinnunni.“
Margir hafa þær hugmyndir að bókhaldsstarf sé þurrt og leiðinlegt? Er það þín upplifun?
„Það er ekki mín upplifun, en fer líklega eftir einstaklingum og vinnunni. Mitt starf er mjög fjölbreytt og kannski myndi mér leiðast ef ég væri að gera alltaf það sama alla daga allan daginn. En almennt held ég að bókhaldsstarf sé ekki þurrt og leiðinlegt,“ segir Þóra Birna. Hún segir erfitt að nefna eitthvað eitt sem er skemmtilegast við starfið.
„Í augnablikinu finnst mér ekkert leiðinlegt í vinnunni, en ætli það sé ekki skemmtilegast þegar það stemmir hjá manni.“
Spurð að því hvort námið hafi borgað sig og hvort bókhaldsstörf séu vel launuð, svarar hún að námið hafi klárlega borgað sig.
„Þetta er besta vinna sem ég hef verið í. Ég held að bókhaldsstörf séu almennt vel borguð, og klárlega betur launuð ef þú ferð í námið.“