Covid-faraldurinn setti strik í reikninginn en það kom ekki að sök því tölvutæknin brýtur niður alla múra og Heiðar Már náði að ljúka báðum námsbrautum á tveimur önnum.

Heiðar Már er 44 ára gamall, fæddur og uppalinn á Vopnafirði en hefur búið á Reyðarfirði frá 1988. Heiðar á að baki fjölþættan feril á vinnumarkaði, meðal annars starfaði hann í mörg ár sem kjötiðnaðarmaður og einnig hefur hann verið í sölumennsku af ýmsum toga. Frá árinu 2019 hefur Heiðar glímt við eftirköst slyss sem hann varð fyrir og segist hafa ákveðið að nýta tímann vel til þess að afla sér menntunar og breikka þannig atvinnumöguleikana þegar hann geti snúið aftur út á vinnumarkaðinn. Fiskeldið sé í sókn á Austurlandi og sjávarútvegurinn standi þar einnig styrkum fótum. Þess vegna hafi hann séð ýmsa möguleika í því að fara annars vegar í nám í fisktækni og hins vegar fiskeldi í Fisktækniskólanum.

Námið hóf hann fyrir rösku ári, haustið 2020, og lauk því í vor. Áður hafði Heiðar farið í raunfærnimat þar sem öll hans fjölþætta starfsreynsla var lögð saman og metin á móti náminu. Eins og nærri má geta stytti raunfærnimatið leið Heiðars Más umtalsvert að settu marki.

Heiðar Már ætlar ekki að láta staðar numið með námið í fisktækninni og fiskeldinu, því á vorönn 2022 er hann skráður í gæðastjórnarnám í Fisktækniskólanum.

Spurning um viðhorf

„Ástæðan fyrir því að ég fór í þetta nám var einfaldlega sú að ég vildi nýta tímann vel í veikindafríinu og þegar ég fór að kynna mér Fisktækniskólann komst ég að raun um að hann byði upp á þann möguleika að ég gæti tekið allt námið í fjarnámi. Það hentaði mér mjög vel og því lét ég slag standa og sé ekki eftir því,“ segir Heiðar Már og bætir við að það hafi ekki verið honum eins stórt skref að setjast aftur á skólabekk eftir langt hlé og ætla mætti.

„Þetta er fyrst og fremst spurning um viðhorf. Ef maður ætlar sér hlutina, þá ganga þeir. Hér á árum áður átti ég ekki alltaf auðvelt með að læra en núna gekk námið ljómandi vel vegna þess að athyglin og ánægjan af náminu var meiri en þegar ég var yngri,“ segir Heiðar Már.

„Uppbygging námsins í Fisktækniskólanum er mjög góð. Ég gat horft á upptökur af fyrirlestrum kennaranna þegar mér hentaði og síðan byggðist námið að stórum hluta á verkefnavinnu. Ef eitthvað var óljóst fengust svör fljótt og vel frá kennurunum. Þetta gekk því prýðilega og hentaði mér mjög vel,“ segir Heiðar Már og upplýsir að hann ætli ekki að láta staðar numið með námið í fisktækninni og fiskeldinu, á vorönn 2022 sé hann skráður í gæðastjórnarnám í Fisktækniskólanum.