Flesta kylfinga sem hafa ekki þegar náð því dreymir einn daginn um að fara holu í höggi. Það tekur meðalkylfinginn um það bil 12.500 tilraunir að ná að fara holu í höggi í fyrsta sinn. Þegar um atvinnukylfing er að ræða fækkar tilraununum niður í 2.500 tilraunir. +

Á Íslandi hafa um 3.000 einstaklingar náð þeim merka áfanga að fara holu í höggi og eru um 130 sem ná því árlega.

Sexfaldi Íslandsmeistarinn Björgvin Þorsteinsson hefur oftast Íslendinga farið holu í höggi eða níu sinnum en Elín Hrönn Jónsdóttir og Ólöf Geirsdóttir leiða í kvennaflokki. Báðar hafa þær fjórum sinnum farið holu í höggi.

Haldið er úti skráningu í Einherjaklúbbnum á netinu og má þar sjá alla sem fóru holu í höggi á síðasta ári. Þar mátti meðal annars finna besta körfuboltamann landsins, Martin Hermannsson, á síðasta ári.

Síðasti Íslendingurinn til að ná holu í höggi á lokadegi síðasta árs var Sigurður Sveinn Þórðarson, oftast þekktur sem Siggi Dúlla, liðsstjóri karlalandsliðsins í knattspyrnu og karlaliðs Stjörnunnar.

Siggi náði áfanganum á einni af síðustu holunum á Highlands Reserve golfvellinum í Flórída á lokadegi síðasta árs, vopnaður sjö járni á holu sem var 125 metrar. Aðspurður segist Siggi ekki hafa beðið lengi eftir draumahögginu.

„Ég hélt að ég myndi aldrei ná þessu, það var smá heppni í þessu enda bara tvö ár síðan ég byrjaði í golfi og telst því nýbyrjaður,“ segir Siggi þegar hann rifjar þetta upp.

„Tilfinningin var góð þegar ég sá hann í holunni. Ég var að spila með pabba mínum og við sáum ekki nógu vel hvar boltinn endaði enda var sólin farin að setjast. Meðspilarinn okkar sagðist halda að hann væri í holunni. Þetta var klárlega hápunkturinn á golfferlinum.“

Aðspurður segist hann hafa fengið hamingjuóskir frá leikmönnum landsliðsins en það voru ekki allir tilbúnir að kaupa það að Siggi hefði farið holu í höggi.

„Þeir sáu þetta á internetinu á sínum tíma og það komu nokkrar hamingjuóskir,“ segir Siggi og heldur áfram: „Það voru einhverjir sem voru ekki að kaupa þetta. Jói Berg var ekki tilbúinn að kaupa þetta,“ sagði Siggi léttur að lokum.