Kettlingarnir Rósa og Scooby hittust í fyrsta skipti í dag og virtist hvorugt þeirra vera sérlega ánægt með nærveru hins. Kettirnir búa hlið við hlið og er aðeins einn veggur sem aðskilur þá en þeir virtust hafa sérstaklega fyrir því að eiga í deilum hvorn við annann.

Eigandi Rósu, Helga Guðrún Ásgeirsdóttir, náði erjum hafnfirsku nágrannanna á myndband og hafa samskipti kettlingana vakið mikla lukku á samfélagsmiðlum í dag.

Lokað fyrir heimsóknir

Helga segir kettina oft hafa kíkt á hvorn annan í gegnum glerið á milli svalanna en að þeir hafi aldrei heilsað almennilega upp á hvorn annan fyrr en í dag. „Þetta var í fyrsta sinn sem mín þorði að stökkva þarna upp,“ sagði Rósa í samtali við Fréttablaðið.

Kötturinn Scooby var hins vegar löngu búin að taka stökkið og var hann farin að venja komur sínar á svalir nágrannans áður en spýtu var komið fyrir á milli svalanna tveggja til að gulltryggja yfirráðasvæði Rósu. Mögulega hefur Rósa ekki kunnað að meta fyrrnefndar heimsóknir en hægt er að sjá kettina tvo kýta á svalahandriðunum í myndbandinu hér fyrir neðan.