Leikarinn Aron Már Ólason, eða Aron Mola, og tónlistarmaðurinn Aron Can Gultekin opna grautarstað ásamt kærustum sínum, Hildi Skúladóttur og Ernu Björnsdóttur í nýrri mathöll Grósku á næstunni.

Frá þessu greindi Aron Mola frá í hlaðvarpsþættinum Heitt á könnunni sem kom út í dag.

Við erum að opna morgunskálarstað sem breytist yfir í eftirrétti og kokteilabar á kvöldin, upplýsir hann.

Hugmyndin kom upp í Kanada

Að sögn Arons Mola hefur ferlið verið mjög skemmtilegt, en það hófst fyrir um þremur árum síðan.

„Erna og Hildur voru að fljúga (sem flugfreyjur) til Montreal og þetta var svona þriggja daga stopp.

Við héngum öll saman alla daga og fórum á svona acai stað og hugsuðum vá , ok við þurfum að opna svona stað heima,“ segir Aron Mola.

Aron Mola segir aðaláhersluna vera á hafragraut. „Við ætlum að gera lúxushafragrauta. Konseptið á að vera holt á daginn og sætt á kvöldin, því á morgnana ertu alltaf hollastur.

Svo líður á daginn á kvöldin viltu kannski kíkja í kokteil eða bjór, eða vöfflu með dulce de leche,“ segir hann og heldur áfram

„Við erum með rosalega kokteila, kokteila sem eru ekki til á Íslandi, nema afbrigði af þeim, en eru töluvert betri en annars staðar,“ upplýsir Aron og hlær og leggur áherslu á að hann sé grjótharður gagnrýnandi á það sem þau eru að fara að bjóða uppá.

„Ég er grjótharður í smakkinu þegar við erum búin að fá hjálp frá öðrum að búa eitthvað til.“ Þá hikar hann ekki við að segja til ef honum hefur þótt það vont.