Í tilefni af 40 ára starfsafmæli Ljósmyndasafns Reykjavíkur nú í ár efndi safnið til útgáfu á veglegu afmælisriti.

Nætur sem daga er vandað, 216 blaðsíðna afmælisrit með 222 myndum úr safnkosti Ljósmyndasafns Reykjavíkur, eftir um 70 myndhöfunda. Í bókinni er einnig inngangsgrein eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur ásamt ljóðum og örsögum eftir Óskar Árna Óskarsson.

Myndaúrvalið veitir sýn á þann mikla sjónræna fjársjóð sem finna má í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, en safnið telur alls á sjöundu milljón mynda af ýmsum toga. Hluta myndasafnsins má einnig finna á Myndavef Ljósmyndasafns Reykjavíkur (www.ljosmyndasafn.reykjavik.is).

Myndirnar völdu Sigríður Kristín Birnudóttir, Gísli Helgason og Kristín Hauksdóttir úr afar fjölbreyttum safnkosti Ljósmyndasafns Reykjavíkur, en öll hafa þau áratuga reynslu af því að annast ljósmyndir í varðveislu safnsins. Ritstjóri var Sigrún Kristjánsdóttir.