Verulega hefur fækkað í fylgjendahópi Auðuns Lútherssonar, einnig kallaður Auður, á Instagram síðastliðna viku. Fækkunin á sér stað í kjölfar ásakana um kynferðisbrot af hans hálfu. Síðastliðinn sólarhring hafa síðan yfir 900 manns hætt að fylgja tónlistarmanninum sem státar þó enn af yfir 10.400 fylgjendum.
Í byrjun maí var þessi vinsæli tónlistarmaður með 12.800 fylgjendur á samfélagsmiðlinum. Síðastliðinn mánuð hafa því nærri 2.400 manns ýtt á „unfollow“ þar af 1.800 síðastliðna viku.
Borið hefur hátt á umræðum um meint brot Auðuns á samfélagsmiðlum síðastliðna daga og hafa ásakanirnar orðið til þess að Auður mun ekki koma fram á tónleikum Bubba í komandi viku eða á sviði Þjóðleikhússins í uppsetningu Rómeó og Júlíu næsta haust.
Auðunn sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann baðst afsökunar og kvaðst hafa gengið yfir mörk. Tónlistarmaðurinn þvertók þó fyrir flökkusögur um alvarleg afbrot.
Í kjölfar afsökunarbeiðninnar stigu þrjár konur fram í fyrsta skipti og lýstu kynferðislegu ofbeldi af hálfu Auðuns. Tvær þeirra sögðu afsökunarbeiðnina hafa verið „eins og blauta tusku í andlitið“ þar sem markmiðið hafi ekki verið að taka ábyrgð heldur að bjarga eigin skinni.