„Það eina sem ég hef ráð­lagt honum er að passa vel upp á svefninn,“ segir Reynir Guð­steins­son, fyrr­verandi skóla­stjóri og faðir Víðis Reynis­sonar, yfir­lög­reglu­þjóns hjá ríkis­lög­reglu­stjóra. Víðir hefur staðið í ströngu undan­farnar vikur vegna CO­VID-19 kóróna­veirunnar og gert allt sem hann getur til að halda lands­mönnum upp­lýstum um stöðu mála.

Frétta­blaðið ræddi við ein­stak­linga sem þekkja vel til Víðis og er ó­hætt að segja að allir tali vel um þennan 52 ára Kópa­vogs­búa sem er í senn eigin­maður og tveggja barna faðir. „Þægi­legur, ljúfur og skipu­lagður,“ eru orð sem við­mælendur Frétta­blaðsins höfðu meðal annars um Víði.

Tré­smiður sem fór í lög­reglu­skólann

Víðir Reynis­son er fæddur í Vest­manna­eyjum þann 22. apríl 1967. Faðir hans er Reynir Guð­steins­son og móðir hans heitir María Júlía Helga­dóttir. Víðir er kvæntur Sig­rúnu Maríu Kristjáns­dóttur og saman eiga þau tvö börn. Víðir ólst upp í Vest­manna­eyjum til 11 ára aldurs en flutti þá upp á land. Segja má að hjálpar­störf og störf í þágu al­manna­hags­muna hafi átt hug Víðis frá unga aldri.

„Hann var í Hjálpar­sveit skáta þegar hann var ungur og varð síðan for­stöðu­maður þar líka eftir að hann flutti til Reykja­víkur. Hann hefur verið í þessu alveg frá æsku í rauninni,“ segir Reynir faðir hans.

Það sem ef til vill fáir vita er að Víðir lærði tré­smíði áður en hann fór í lög­reglu­skólann. Að­spurður hvort lög­reglu­starfið hafi átt betur við Víði en tré­smíðin segir Reynir að hlutirnir hafi að líkindum æxlast á þennan veg. „Þetta er eins og með svo margt annað sem gerist á lífsins leið.“

Ró­legur en getur verið skap­mikill

Reynir hefur á ferli sínum meðal annars starfað sem deildar­stjóri al­manna­varnar­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra, verið lög­reglu­full­trúi á Suður­landi, öryggis­full­trúi KSÍ og þá er hann reynslu­mikill björgunar­sveitar­maður og stjórnandi leitar- og björgunar­að­gerða. Hann hefur tekið þátt í sam­ræmdum að­gerðum vegna stórra náttúru­ham­fara hér á landi; snjó­flóðunum á Vest­fjörðum 1995, jarð­skjálftunum á Suður­landi 2000 og 2008, eld­gosinu í Eyja­fjalla­jökli 2010 og Gríms­vötnum 2011 svo eitt­hvað sé nefnt.

Víðir hefur vakið at­hygli fyrir mikla yfir­vegun, bæði á blaða­manna­fundum og í við­tölum við fjöl­miðla, á þessum miklu ó­vissu­tímum vegna CO­VID-19. Reynir segir að yfir­vegun sé orð sem lýsir syni hans á­gæt­lega. „Hann hefur alltaf verið svona, alveg frá því að hann var krakki. Hann er ein­stak­lega ró­legur þegar á þarf að halda en hann er skap­mikill líka þegar á þarf að halda. Þetta er bara góð blanda,“ segir hann.

Mikið hefur mætt á Víði að undanförnu eins og svo mörgum öðrum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Á sam­fé­lags­miðlum hefur Víði verið hrósað í há­stert sem og öðrum sem hafa verið á­berandi í fjöl­miðlum vegna veirunnar.

„Mér finnst rétt að hrósa, sér­stak­lega fólki sem stendur sig vel. Víðir Reynis­son, Þór­ólfur Guðna­son og Alma Möller eru frá­bær í sínum störfum og hafa verið frá fyrsta degi. Ég trúi því að þau á­samt öllum öðrum sem koma að þessu stóra teymi komi okkur í gegnum þetta á­stand,“ sagði einn Twitter-notandi á dögunum. Annar bætti við að Víðir gæti hæg­lega orðið næsti for­seti með þessu á­fram­haldi. „Kemur sterkur inn eins og Guðni Th. Gerði í kjöl­far Pana­ma­skjalana,“ sagði hann. Hvort metnaður Víðis liggi á Bessa­stöðum skal ó­sagt látið en það er ljóst að sam­starfs­menn hans myndu sakna hans ef hann hyrfi til annarra verka.

„Hann er ein­stak­lega góður sam­starfs­maður og vandaður maður að öllu leyti. Hann er mjög skipu­lagður og ná­kvæmur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann er á­byggi­legur og maður getur alltaf treyst því að hann skili vel af sér því sem hann tekur sér fyrir hendur,“ segir Guðni Bergs­son, for­maður Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands, en þar hefur Víðir starfað sem öryggis­stjóri undan­farin misseri.

„Just anot­her day at the office“

Víðir hefur til dæmis ferðast með ís­lenska lands­liðinu í verk­efnum liðsins er­lendis. Hann fór til dæmis með liðinu á heims­meistara­mótið í Rúss­landi og til Tyrk­lands og Mol­dóvu í nóvember síðast­liðnum svo eitt­hvað sé nefnt.

Guðni segir að Víðir sé einnig góður í hóp og honum hafi verið vel tekið af ís­lensku lands­liðs­mönnunum.

„Hann kann að leiða og vera hluti af hóp­vinnu, enda hefur það komið vel í ljós í þessum stóru verk­efnum sem hann hefur tekið að sér að undan­förnu. Það kemur okkur ekki á ó­vart hvað hann hefur leyst þessi verk­efni vel af hendi. Þannig að ég get í raun ekki hrósað honum nóg fyrir hvað hann er á­byggi­legur, góður starfs­maður og líka góður fé­lagi,“ segir Guðni.

Víðir tekur starf sitt al­var­lega en það er líka oft stutt í grínið hjá honum. Þegar Frakk­land og Ís­land mættust í vin­áttu­leik í októ­ber 2018 sauð upp úr undir lokin þegar Rúnar Már Sigur­jóns­son, miðju­maður ís­lenska liðsins, tæklaði Kyli­an Mbappe, stór­stjörnu Frakka, illi­lega. Leik­menn Frakka voru ekki sáttir við tæk­linguna, hópuðust að Rúnari og létu hann heyra það. Víðir var ekki lengi að koma sínum manni til varnar enda öryggis­stjóri ís­lenska liðsins. Hann birti svo mynd á Twitter-síðu sinni af upp­á­komunni undir yfir­skriftinni: „Just anot­her day at the office“.

Bara venjulegur dagur á skrifstofunni hjá Víði.
Mynd/Skjáskot af Twitter

Guðni segir að Víðir hafi fallið vel inn í starfs­lið KSÍ og hópinn sem vinnur náið með lands­liðinu. „Hann hefur líka sinnt öllum sínum störfum af mestu ná­kvæmni og öryggi. Það hefur verið mjög gott að hafa hann hérna hjá KSÍ en ég vona bara að hann komi ekki núna í kjöl­farið á þessum lof­söng og biðji um launa­hækkun,“ segir Guðni og hlær en segir svo í al­var­legri tón: „Hann er mjög fær starfs­maður og mjög góður í því sem hann tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er á vett­vangi KSÍ eða núna hjá hinu opin­bera sem yfir­lög­reglu­þjónn.“

Víðir stillir upp fyrir myndatöku á æfingasvæði íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi 2018.
Fréttablaðið/Eyþór

Hlustar á U2 og gengur ekki undir stiga

Víðir var í skemmti­legu við­tali við Eyja­fréttir árið 2010, um það leyti sem Eyja­fjalla­jökull gaus. Þar kom meðal annars fram að drauma­bíllinn hans er Land Cru­iser, upp­á­halds­maturinn hans er lamba­steik með sveppa­sósu og góðum kar­töflum og aðal­á­huga­mál hans eru úti­vera og í­þróttir.

Þegar hann var spurður hvaða mann eða konu úr mann­kyns­sögunni hann væri til í að hitta sagðist hann gjarnan vilja hitta Rudy Guili­ani, fyrr­verandi borgar­stjóra New York. „Gætum örugg­lega skipst á góðum upp­lýsingum,“ sagði Víðir en Giu­ili­ani var borgar­stjóri New York þegar hryðju­verka­á­rásirnar voru gerðar þann 11. septem­ber 2001. Þá sagði hann að U2 og gott rokk kæmi honum í gott skap og sagði að Vest­manna­eyjar væru fal­legasti staður sem hann hefði komið á. Þá sagði Víðir að hann væri hæfi­lega hjá­trúar­fullur. „Labba ekki undir stiga og fæ ó­nota­til­finningu ef svartur köttur hleypur fyrir framan mig.“

Ó­víst er hve­nær fer að hægjast um hjá Víði vegna CO­VID-19 en lands­menn allir vona væntan­lega að það verði fyrr en seinna. Reynir faðir hans segir að þeir feðgar séu í góðu sam­bandi en hann er þó með­vitaður um að „strákurinn“ hafi nóg að gera um þessar mundir. „Ég hef látið hann í friði núna þegar það er svona mikið að gera. Auð­vitað erum við alltaf í sam­bandi en það eru nógu margir sem hringja í hann núna,“ segir Reynir léttur að lokum.

Víðir svaraði nokkrum laufléttum spurningum í viðtali við Eyjafréttir en þá var hann Eyjamaður vikunnar hjá blaðinu.
Mynd/Skjáskot af viðtali Eyjafrétta.