„Ég er ekki með neitt annað heil­ræði en að hann haldi á­fram því sem hann er að gera. Hann hefur á­unnið sér mikið traust að verð­leikum og ég held að við getum ekki fengið betri mann í þetta verk­efni við þessar að­stæður en Þór­ólf.“

Þetta segir Grímur Sæ­mund­sen, for­stjóri Bláa lónsins og góð­vinur Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis. Mikið hefur mætt á Þór­ólfi – eins og öðrum heil­brigðis­starfs­mönnum landsins– undan­farnar vikur vegna kórónu­veirunnar. Þór­ólfur hefur setið fyrir svörum á dag­legum blaða­manna­fundum og vakið at­hygli fyrir yfir­vegun sína, rétt eins og kollegar hans, Alma Möller land­læknir og Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn.

Frétta­blaðið ræddi við nokkra ein­stak­linga sem þekkja til Þór­ólfs. „Traustur, yfir­vegaður, eld­klár og stað­reynda­miðaður,“ eru orð sem við­mælendur blaðsins höfðu þegar þeir voru beðnir um að lýsa honum í nokkrum orðum.

Þór­ólfur er fæddur 28. októ­ber 1953 og verður því 67 ára í haust. Hann er kvæntur Söru Haf­steins­dóttur, yfir­sjúkra­þjálfara á Land­spítalanum og eiga þau tvo syni; Haf­stein, sem er fæddur 1977, og Svavar sem er fæddur 1986. Þór­ólfur var tveggja ára þegar hann flutti til Eski­fjarðar á­samt for­eldrum sínum, eða um það leyti sem faðir hans, Guðni B. Guðna­son, var ráðinn kaup­fé­lags­stjóri á Eski­firði. Fjöl­skyldan flutti síðar til Vest­manna­eyja þar sem Þór­ólfur bjó til 19 ára aldurs.

Sér­hæfður í smit­sjúk­dómum barna

Segja má að læknis­fræðin hafi átt hug Þór­ólfs enda er hann vel menntaður í þeim fræðum; hann lauk em­bættis­prófi í læknis­fræði frá Há­skóla Ís­lands árið 1981, eftir að hafa byrjað námið í Dan­mörku. Hann stundaði svo nám í al­mennum barna­lækningum á Ís­landi og í Banda­ríkjunum á árunum 1984 til 1988 og nám í smit­sjúk­dómum barna í Banda­ríkjunum á árunum 1988 til 1990.

Þór­ólfur hefur komið víða við á starfs­ferli sínum, starfað á Barna­spítala Hringsins, eigin stofu og verið yfir­læknir bólu­setninga hjá Land­læknis­em­bættinu svo eitt­hvað sé nefnt. Þeir eru vafa­lítið ó­fáir ís­lensku for­eldrarnir sem leitað hafa til Þór­ólfs vegna veikinda hjá börnum sínum.

Grímur Sæ­mund­sen og Þór­ólfur kynntust í lækna­deild Há­skóla Ís­lands seint á áttunda ára­tug liðinnar aldar og hafa þeir verið góðir vinir í yfir 40 ár. Þeir hafa haldið góðu sam­bandi og ferðast til dæmis reglu­lega á­samt fleiri vinum úr læknis­fræðinni. Þór­ólfur kom seinna inn í námið í há­skólanum en Grímur, enda bjó Þór­ólfur í Dan­mörku á­samt eigin­konu sinni en þar lögðu þau stund á nám, Þór­ólfur í læknis­fræði en Sara var í námi í sjúkra­þjálfun.

Fundu sam­eigin­legan tón

Að­spurður kveðst Grímur ekki hafa svör á reiðum höndum um hvað það var sem varð til þess að þeir náðu svona vel saman. „Við vorum saman í fót­bolta sem var stundaður með náminu. Þetta er bara eins og lífið er; menn finna ein­hvern takt og sam­eigin­legan tón og ég hef eignast mína bestu vini í gegnum nám og í­þróttir. Við Þór­ólfur urðum mjög góðir vinir,“ segir hann.

Grímur þarf ekki að hugsa sig lengi um þegar hann er spurður hvað það er sem lýsir Þór­ólfi best. „Þór­ólfur er mjög traustur, yfir­vegaður og eld­klár. Hann er svo sem ekki að flíka því sér­stak­lega,“ segir Grímur og bætir við hann sé með mjög góða nær­veru, bráð­skemmti­legur og mikill húmor­isti.

Grímur og Þórólfur hafa verið góðir vinir í um 40 ár.
Mynd/GVA

Eigin­leikar sem nýtast vel

Þór­ólfur hefur verið í eld­línunni undan­farnar vikur og verið undir miklu á­lagi, enda mætti vel færa rök fyrir því að hann sinni mikil­vægasta starfi landsins um þessar mundir. Grímur treystir vini sínum vel í þessu verk­efni enda hefur hann aflað sér mikillar þekkingar á ferli sínum.

„Hann fór til Banda­ríkjanna í sér­fræði­nám í barna­lækningum á sínum tíma og sér­hæfði sig í smit­sjúk­dómum barna í tengslum við það. Eins og þjóðin hefur orðið vitni að þá hefur hann mjög mikla þekkingu á þessu verk­efni sem hann er að eiga við,“ segir hann og bætir við að þessir per­sónu­eigin­leikar hans, hvað hann er yfir­vegaður og traustur og sú stað­reynd að hann lætur fátt koma sér úr jafn­vægi, nýtist honum vel í starfi sótt­varna­læknis.

„Mér hefur fundist hann hafa staðið sig alveg frá­bær­lega í þessu verk­efni. Sér­stak­lega hvernig hann heldur kúrs og lætur ekki utan­að­komandi á­reiti hafa á­hrif á sitt stöðu­mat. Það er alveg frá­bært að fylgjast með því – en ekki það að þetta komi mér eitt­hvað á ó­vart. Fyrir okkur sem þjóð að hafa ein­stak­ling með þessi per­sónu­ein­kenni í þessu verk­efni á þessum tíma er auð­vitað frá­bært.“

Á bassa eins og Paul Mc­Cart­n­ey

Það vita ef­laust ekki allir að Þór­ólfur er mikill tón­listar­unnandi. Til marks um það spilar hann á bassa og gítar og þá syngur hann býsna vel. Grímur segir að Þór­ólfur og Sara eigin­kona hans séu miklir gleði­gjafar í partíum og þá sé stutt í Vest­mann­eyja­lögin. „Hann hefur alltaf lagt rækt við tón­listina og var meira að segja í hljóm­sveit í Vest­manna­eyjum á sínum tíma, sem hét Taktar. Það eru fleiri vinir í okkar hópi sem eru miklir tón­listar­menn og það er alltaf glatt á hjalla þegar fólk hittist.“

Að­spurður hvaða tón­list er í upp­á­haldi hjá Þór­ólfi segir Grímur að hann sé mikill Bítla­maður. „Hann á meira að segja bassa eins og Paul Mc­Cart­n­ey, reyndar fyrir rétt­henta. Hann hefur verið mikill á­huga­maður um Bítlana, spilað í Bítla­vina­fé­laginu, og ég held að hann kunni öll Bítla­gripin,“ segir hann. Þá er Þór­ólfur mikill úti­vistar­maður og þykir þeim hjónum fátt skemmti­legra en að ferðast um landið. „Svo hefur þessi vina­hópur – og stærri hópur úr okkar út­skriftar­ár­gangi – hist í gegnum ferða­lög er­lendis þar sem við höfum skipu­lagt ferðir og átt góðar stundir. Það hafa verið mjög skemmti­legar ferðir og það er ein­mitt verið að skipu­leggja eina slíka til Grikk­lands næsta vor. Þessu fári verður lokið þá,“ segir Grímur.

Þegar blaða­maður bendir honum á að hópurinn muni að minnsta kosti hafa einn sótt­varna­lækni með í för segir Grímur að vina­hópurinn sé vel með­vitaður um það. „Það hefur ein­mitt verið grínast með það í seinni tíð, eftir að hann tók við þessu em­bætti, að það sé gott að hafa sótt­varna­lækni í hópnum sem menn geta þá átt að, ef eitt­hvað bjátar á.“

Festist í lyftu og fékk hæstu ein­kunn


Austur­frétt fjallaði um Þór­ólf á dögunum enda Þór­ólfur alinn upp að hluta á Eski­firði. Rit­stjórinn Gunnar Gunnars­son gróf upp gömul ein­kunna­spjöld, ef svo má segja, og komst að því að Þór­ólfur hafði fengið hæstu ein­kunn á barna­prófi í 6. bekk barna­skólans. Fékk hann ein­kunnina 9,5. Þá er bent á að í Ár­bók Há­skóla Ís­lands frá árinu 1981 komi fram að Þór­ólfur hafi fengið hæstu ein­kunn þeirra sem luku em­bættis­prófi í læknis­fræði. Fékk hann ein­kunnina 8,8.

Þá var rifjað upp í um­fjöllun Austur­fréttar þegar Þór­ólfur – og hópur fleiri lækna – festust í lyftu á Land­spítalanum. „Við vorum víst of margir og sumir kannski of þungir,“ sagði Þór­ólfur í við­tali við Morgun­blaðið á þor­láks­messu árið 1997.

Þórólfur var í hópi lækna sem festust í lyftu á Landspítalanum fyrir jólin 1997.
Mynd/Tímarit.is

Alltaf opið hús

Haf­steinn er eldri sonur þeirra Þór­ólfs og Söru og segir Haf­steinn að hann eigi góðar minningar frá upp­vaxtar­árum sínum þó flutningar hafi verið tíðir. Haf­steinn fæddist í Ár­ósum í Dan­mörku þegar for­eldrar hans voru í námi. Fjöl­skyldan unga flutti svo til Ís­lands í Vestur­bæ Reykja­víkur þegar hann var nokkurra mánaða, svo bjuggu þau í Vest­manna­eyjum, eitt ár á Akur­eyri en svo flutti fjöl­skyldan til Banda­ríkjanna um miðjan níunda ára­tuginn.

Haf­steinn segir að það sem ein­kennir föður hans sé það hversu fé­lags­lyndur hann er. „Pabbi er alveg ein­stak­lega fé­lags­lyndur og þau, mamma og pabbi, eiga alveg of­boðs­lega stóran vina­hóp frá öllum þessum stöðum sem þau hafa búið á. Þegar við bjuggum í Ameríku þá var oft opið hús,“ segir Haf­steinn og nefnir að fjöl­skyldan hafi verið til­tölu­lega ný­flutt til Banda­ríkjanna þegar Már Kristjáns­son, nú­verandi yfir­læknir smit­sjúk­dóma­deildar Land­spítalans, kom út til náms á­samt sinni fjöl­skyldu. „Þau bjuggu hjá okkur í nokkrar vikur meðan þau voru að leita að hús­næði. En á þeim tíma þekktust þau ekki neitt. Þeim þykir mjög gaman að fá fólk heim.“

„Hann stoppar ekkert“

Haf­steinn segir að faðir hans hafi alla tíð verið at­orku­samur og unnið mikið. Fjöl­skyldan bjó í þrjú ár í Connecticut og svo tóku við tvö ár í Min­nesota áður en fjöl­skyldan flutti heim til Ís­lands.

Haf­steinn segir að faðir hans hafi haft í nógu að snúast undan­farnar vikur, fjöl­skyldan viti vel af á­laginu sem fylgir starfinu þessa dagana. „Já, þetta er „non-stop“. Ég er ekkert að trufla hann á daginn en ég heyri í mömmu dag­lega og þeim á kvöldin til að heyra hvernig hann hefur það. Ég veit að hann er í sím­tölum langt fram eftir kvöldi hér heima og við fólk er­lendis. Hann hefur alltaf verið svo­lítið þannig. Hann hefur alltaf haldið sinni menntun við og stoppar ekkert.“

Þegar hann er spurður hvort á­lagið nú henti honum þá kannski á­gæt­lega, segir Haf­steinn að núna sé þó meira undir. „Hann hefur kannski ekki tíma til að sinna á­huga­málum sínum sem hann notar til að losa stressið.“

Þórólfur tekur hér við verðlaunum úr höndum Valgerðar Sverrisdóttur, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, árið 2005. Þórólfur var yfirlæknir sóttvarnarsviðs hjá Landlæknisembættinu og voru verðlaunin fyrir góðan árangur á sviði rafrænna viðskipta.

Eins og að framan greinir snúa þessi á­huga­mál einkum að tón­list og úti­vist. Haf­steinn er sjálfur tón­listar­maður og segist hann hafa fengið bakteríuna frá báðum for­eldrum sínum. Móðir hans, Sara, er barna­barn Eyja­mannsins Odd­geirs Kristjáns­sonar sem er mörgum tón­listar­unn­endum að góðu kunnur. Hann samdi til dæmis lögin Ég veit þú kemur, Ágúst­nótt og Ship ohoj svo ein­hver séu nefnd.

Þór­ólfur sjálfur er svo vel lið­tækur tón­listar­maður og hefur hann verið í nokkrum á­huga­manna­sveitum eins og Grímur benti á. „Ég held að hann sé í ein­hverjum tveimur eða þremur hljóm­sveitum. Ég man ekki nöfnin á þeim en oft eru þetta bönd sem eru sett saman við eitt­hvað til­efni. Hann hefur til dæmis verið í Bítla­bandi,“ segir Haf­steinn og bætir við að faðir hans sé líka mikill djassari. Þannig er eitt af hans upp­á­halds­lögum lagið Ain‘t Mis­behaving með Fats Waller. Þá hafi þau mjög gaman af því að sækja tón­leika og leik­hús.

Tók lengi þátt í Reykja­víkur­mara­þoninu

Eins og Grímur nefndi hér að framan er Þór­ólfur líka jeppa­á­huga­maður og þau hjónin. „Þau eru í jeppa­hópi sem fer upp á há­lendi einu sinni á ári. Þau leggja mikið upp úr því að reyna að sjá mikið af Ís­landi. Hann hljóp oft í Reykja­víkur­mara­þoninu og hljóp um tíma mikið en á­kvað að hætta því fyrir 1-2 árum.“

Þór­ólfur, Alma Möller og Víðir Reynis­son hafa fengið mikið lof fyrir það hvernig hefur verið staðið að upp­lýsinga­gjöf til al­mennings á þessum við­sjár­verðu tímum. Þau hafa sýnt yfir­vegun og reynt eftir bestu getu að færa lands­mönnum allar þær upp­lýsingar sem liggja fyrir hverju sinni. Eins og gengur og gerist heyrast stundum gagn­rýnis­raddir en það efast væntan­lega enginn um að allir eru að gera sitt besta.

„Maður hefur horft á þau þarna þrjú saman eins og þau hafa aldrei gert neitt annað. Hann og þau hafa staðið sig frá­bær­lega. Það er kannski helst það sem sýnir líka þennan já­kvæða punkt í þessu öllu því þau virðast öll vera stað­föst í sinni þekkingu og það er greini­legt að stjórn­völd treysta þeim. Það er verið að taka á­kvarðanir út frá stað­reyndum og taktík frekar en pólitík,“ segir hann.

Mjög stað­reynda­miðaður


Haf­steinn segir að yfir­vegun sé ein­mitt orð sem lýsir föður hans vel.

„Já, hann horfir alltaf á hlutina frá öllum sjónar­hornum og er mjög stað­fastur í sinni skoðun, en það er samt alltaf hægt að dispútera við hann. Það er til dæmis ekki til drama í honum. Ég hef aldrei orðið vitni að því. Hann er stað­reynda­miðaður og horfir aldrei á hluti út frá pólitík. Hann er aldrei að hugsa um svo­leiðis, hugsar bara um stað­reyndir og hvað er hægt að vinna út frá þeim,“ segir Haf­steinn og bætir við að hann hafi sjálfur notið góðs af þessum eigin­leikum föður síns.

„Ég hef þurft að leita til hans með marg­vís­leg vanda­mál og það hefur aldrei verið nein hræðsla með það. Alveg sama hvort það hafi verið ein­hver ung­linga­mál eða eitt­hvað. Hann hefur alltaf komið manni til að­stoðar – og stundum til bjargar.“