Sigurður Ingi Jóhanns­son, for­maður Fram­sóknar­flokksins og sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra, er kallaður Ingi og er traustur, ein­lægur og rómantískur. Hann er mikill fjöl­skyldu­maður og B-týpa sem fer ró­lega af stað inn í daginn en gengur svo takt­viss til verks. Sjarmatröll sem tekur í nefið og kann þá list að lifa lífinu, segja hans nánustu að­stand­endur.

„Ingi er tröll að burðum en undir hrjúfu yfir­borðinu er hins vegar næmur rómantíker. Ingi er af­skap­lega næmur á fólk og líðan þess. Það hef ég oft sann­reynt,“ segir æsku­vinur Sigurðar Inga.

„Ingi er rómantískur og gerir skemmtun úr hver­dags­legum hlutum. Td. hefur hann til­greint há­tíðar­klæðnað við kvöld­verðar­boðið og við mætum þar í síð­kjól og jakka­fötum. Hann bauð mér líka í tjald­úti­legu eina verslunar­manna­helgina – fyrir utan garð! Þar gistum við í þrjár nætur, -með frá­bæra salernis­að­stöðu eins og hann sagði sjálfur,“ segir eigin­kona hans.

Næstu sunnu­daga munu á vef Frétta­blaðsins birtast nær­myndir af for­mönnum allra flokka sem eiga sæti á Al­þingi.

„Ingi er góður stóri bróðir og ég man ekki betur en að hann hafi passað vel upp á okkur yngri syst­kini sín.“

Arn­fríður Jóhanns­dóttir, systir:

„Ingi er góður stóri bróðir og ég man ekki betur en að hann hafi passað vel upp á okkur yngri syst­kini sín. Hann er ró­legur að eðlis­fari, það haggar honum eigin­lega ekkert, hann er með lím­heila, getur munað alla mögu­lega og ó­mögu­lega hluti og vinnur því gjarnan spurninga­keppnirnar sem við förum í fjöl­skyldan þegar við hittumst og vel liggur á okkur,“ segir Arn­fríður Jóhanns­dóttir, systir Sigurðar Inga.

Hún segir syst­kinin vissu­lega hafa tekist á sem börn, en aðal­lega sem ung­lingar um hver ætti að fara í fjósið á morgnanna.

„Hann er B týpa og getur vakað langt fram á nætur sem hann gerði líka sem barn og las og las en þá er líka gott að kúra að­eins á morgnana. Þannig að þegar að ég og vinnu­maðurinn vorum orðin leið á að bíða eftir honum settum við eitt sinn kalt vatn í fötu hlupum inn og helltum yfir hann við litla á­nægju hans og mömmu, skiljan­lega,“ bætir hún við.

Leiddi hópinn á­fram í erfið­leikum

„Við urðum fyrir þeirri hörmu­legu lífs­reynslu að missa for­eldra okkar af slys­förum ung að árum. Það skilur enginn sem ekki hefur staðið í þessum sporum við hvað er að etja, allar til­finningarnar og ör­væntinguna sem brýst fram. Þar stóð hann Ingi sem klettur við bak okkar yngri syst­kina sinna og leiddi okkur á­fram með hjálp stór­fjöl­skyldunnar og heima­byggðar okkar og fyrir það erum við ó­endan­lega þakk­lát.“

Arn­fríður lýsir bróður sínum sem góðum vin. „Það er enginn einn sem á hann Inga að vini hann er mjög traustur og góður hlustandi, húmor­isti, úr­ræða­góður og það er hrein­lega hægt að ræða allt við hann og maður fær alltaf eitt­hvað gott út úr þeim sam­ræðum og þannig bróður og vin er ó­metan­legt að eiga,“ segir hún og bætir við að Sigurður Ingi fylgist vel með fjöl­skyldu sinni.

„Hann verður bara dá­lítið svekktur þegar ein­hver úr fjöl­skyldunni hefur skotist til út­landa og hann bara ekki haft hug­mynd um það.“

„Hann er mikill fjöl­skyldu­maður og barna­karl og nær vel til litlu barnanna í fjöl­skyldunni. Hann er líka að reyna að fylgjast með öllum hvað þau eru að gera, tekst svona og svona enda nóg að gera. Hann verður bara dá­lítið svekktur þegar ein­hver úr fjöl­skyldunni hefur skotist til út­landa og hann bara ekki haft hug­mynd um það.

En við erum náin fjöl­skylda og til marks um það að þegar að Ingi og Elsa giftu sig þá er það vaninn að ný­giftu hjónin fari í rómantíska ferð saman en nei þá var okkur öllum syst­kinum Inga og okkar fjöl­skyldum boðið með í brúð­kaups­ferðina, viku hesta­ferð inn í Kerlinga­fjöll. Alveg ó­gleyman­leg ferð.“

„Það að búa saman á heima­vist í 4 ár á mesta mótunar­skeiði ævinnar gerir það að verkum að fólk kynnist afar vel-bæði kostum og göllum.“

Gylfi Gísla­son, vinur og mennta­skóla­fé­lagi:

„Ég kynntist Inga, eins og hann heitir í vina­hópnum, þegar við byrjuðum í Mennta­skólanum að Laugar­vatni haustið 1978. Það að búa saman á heima­vist í 4 ár á mesta mótunar­skeiði ævinnar gerir það að verkum að fólk kynnist afar vel-bæði kostum og göllum. Við höfum síðan haldið hópinn vel 8-10 strákar, nú kallar, á­samt mökum svo vin­skapurinn er nú kominn yfir 40 ár,“ segir Gylfi Gísla­son.

„Traustur“ er fyrsta orðið sem kemur í hugann, þegar Gylfi er beðinn um að lýsa fé­laga sínum. „Það hefur eigin­lega átt við alla tíð. Þegar við fé­lagarnir höfðum þrætt öll sveita­böll á Suður­landi á mennta­skóla­árunum og fórum svo að rifja upp axar­sköftin daginn eftir sat Ingi hjá og glotti. Hann hafði aldrei gert neitt af sér ó­líkt okkur hinum og oftar en ekki bjargað okkur úr vand­ræðum.“

„Ingi var eigin­lega ó­þolandi pott­þéttur alltaf, fljúgandi greindur og góður náms­maður sem þurfti lítið að hafa fyrir námi, góður í í­þróttum og lenti sjaldan i vand­ræðum þrátt fyrir að vera í slæmum fé­lags­skap.“

Gylfi nefnir að Sigurði Inga hafi gengið vel á yngri árum, hvort sem er í leik eða starfi.

„Ingi var eigin­lega ó­þolandi pott­þéttur alltaf, fljúgandi greindur og góður náms­maður sem þurfti lítið að hafa fyrir námi, góður í í­þróttum og lenti sjaldan i vand­ræðum þrátt fyrir að vera í slæmum fé­lags­skap. Ingi hefur líka mikið jafnaðar­geð og fátt sem kemur honum úr jafn­vægi- en hann er líka and­skotanum þrjóskari- sem sumir kalla þraut­seigju. Hann hefur mikið keppnis­skap þó hann fari af­skap­lega fínt með það- það þekki ég vel sem fyrrum makker hans í brid­ge,“ segir hann og bætir við að Sigurður Ingi sé kröftugur en rómantískur.

Man ó­þarf­lega margt

„Ingi er tröll að burðum en undir hrjúfu yfir­borðinu er hins­vegar næmur rómantíker. Ingi er af­skap­lega næmur á fólk og líðan þess. Það hef ég oft sann­reynt.“

Þá sé hann mikill nautna­seggur og sæl­keri. „Ingi er nautna­belgur sem hefur bæði gaman að mat og drykk. Hann hefur góðan húmor og virki­lega gaman að vera með honum á góðri stund- hann hefur gaman að fólki og með ó­líkindum miðað við hvað hann þekkir marga að hann man öll nöfn. Reyndar finnst okkur fé­lögunum hann muna ó­þarf­lega margt.“

Fyrsta framboð Sigurðar Inga hófst ekki gæfulega, en það var árið 1980 þegar félagarnir buðu sig fram sem þvottavélastjóra á Lauarvatni. „Skemmst er frá því að segja að við náðum ekki kjöri.“

„Stjórn­mála­ferill Inga hófst ekki gæfu­lega. Hans fyrsta fram­boð var árið 1980 þegar við sam­eigin­lega buðum okkur fram sem um­sjónar­menn þvotta­véla á Laugar­vatni, sem nefndust þvotta­véla­stjórar. Skemmst er frá því að segja að við náðum ekki kjöri. Síðan hefur hann aldrei tapað kosningum og vill hann kenna mér um þennan gamla ó­sigur okkar.

„Ingi er rómantískur og gerir skemmtun úr hvers­dags­legum hlutum. Td. hefur hann til­greint há­tíðar­klæðnað við kvöld­verðar­borðið og við mætum þar í síð­kjól og jakka­fötum.“

Elsa In­gjalds­dóttir, eigin­kona:

„Þau orð sem ég tel að gefi besta mynd af Inga (eins og hann er kallaður af sínum nánustu) er jafnaðar­geð, traustur, mála­miðlari, greindur og fljótur að greina aðal­at­riðin frá smá­at­riðunum. Hann er líka mjög mann­glöggur og þekkir td. mína ættingja betur en ég,“ segir Elsa In­gjalds­dóttir, eigin­kona Sigurðar Inga.

„Hans aðals­merki er lík­lega samninga­tæknin. Hann hefur ein­stakt lag á að fá fólk til að fara hans leið án þess að það geri sér grein fyrir því eða það sem er enn betra – maður heldur alltaf að þetta hafi verið það sem maður vildi í upp­hafi eftir ,,samninga­lotu“ við hann. Til dæmis vorum við hjónin ó­sam­mála um hvað ætti að klippa hekkið mikið eitt vorið. Áður en ég vissi af var hekkið komið ,,niður við jörð“ og ég svona svaka­lega á­nægð þó ég hafi upp­haf­lega verið að tala um 10 cm!“ segir Elsa og bætir við að það sé „hund­leiðin­legt“ að rök­ræða við hann.

„Það besta og skemmti­legasta sem við gerum er að leggja á, helst með 2-3 til reiðar og nesti í hnakk­töskunni.“

„Hann setur sig vel inn í öll mál sem honum finnst skipta máli en lætur aðra um hitt. Þar sem hann er mjög yfir­vegaður á hann auð­velt með að hugsa skýrt í öllum að­stæðum. Mér hefur td. afar sjaldan tekist að æsa hann upp og það er hund­leiðin­legt að eiga ,,heitar“ sam­ræður við Inga enda ,,drepur“ hann þær fljótt með skýrum stað­reyndum og rökum,“ segir hún.

„Ingi kann þá list að lifa í núinu. Einu sinni komst hann í langan verk­efna­lista frá mér sem inni­hélt allt milli himins og jarðar eins og því að kaupa í matinn eða fara með bílinn í smurningu. Þegar ég næst las listann var hann búinn að bæta við at­riðum eins og td. ,,njóta, anda djúpt og vera saman. Þannig greinir hann hismið frá kjarnanum og smitar lífs­sýn sína yfir á sam­ferða­fólk sitt. Ingi tekur td. alltaf bestu bitana úr frysti­kistunni því góðu hlutina á ekki að geyma til morguns! Og af því að hann er mikill mat­maður og góður í eld­húsinu þýðir það fljótt að ekkert er eftir í kistunni nema slög og súpu­kjöt!“

„Hann bauð mér líka í tjald­úti­legu eina verslunar­manna­helgina – fyrir utan garð! Þar gistum við í þrjár nætur, -með frá­bæra salernis­að­stöðu eins og hann sagði sjálfur.“

Eins og gömul dísil­vél

Elsa tekur undir með Arn­fríði, systur Sigurðar Inga, og segir honum þykja svefninn góður. „Ingi er mikil B-týpa og er að því leytinu eins og gömul dísel­vél, sem fer ró­lega af stað en gengur svo takt­viss og örugg. Þó Ingi sé ró­legur á yfir­borðinu er hann ó­trú­lega af­kasta­mikill þegar kemur að vinnu og tekur yfir­leitt miklu meira að sér en eðli­legt er. Hann minnir mig þannig á aug­lýsinguna um Duracell raf­hlöðuna – þegar allir eru hættir er hann enn­þá gangandi!,“ segir hún og heldur á­fram.

„En ég get ekki heldur sleppt því að tala um mýkri hliðina á honum. Það besta og skemmti­legasta sem við gerum er að leggja á, helst með 2-3 til reiðar og nesti í hnakk­töskunni. Ingi er rómantískur og gerir skemmtun úr hvers­dags­legum hlutum. Td. hefur hann til­greint há­tíðar­klæðnað við kvöld­verðar­borðið og við mætum þar í síð­kjól og jakka­fötum. Hann bauð mér líka í tjald­úti­legu eina verslunar­manna­helgina – fyrir utan garð! Þar gistum við í þrjár nætur, -með frá­bæra salernis­að­stöðu eins og hann sagði sjálfur. Þannig lætur hann tíma­skort ekki koma í veg fyrir það að njóta stundarinnar.“

Ing­veldur og Sig­tryggur, að­stoðar­menn:

Ing­veldur Sæ­munds­dóttir og Sig­tryggur Magna­son, að­stoðar­menn Sigurðar Inga, bera honum einnig vel söguna og segja hann fæddan leið­toga.

„Sigurður Ingi er með með­fædda leið­toga­hæfi­leika, dýra­læknar geta verið góðir leið­togar. Það sem lýsir honum best er að hann er alltaf pollró­legur, sama hvað gengur á. Honum finnur sig vel þegar margir boltar eru á lofti og aðrir eru að farast úr stressi, þá rís hann upp og tekur af skarið og púslar öllu saman. Þannig á hann auð­velt með að fá fólk í lið með sér og að leiða saman ólík sjónar­mið að far­sælli lausn sem verður að veru­leika. Það er þægi­legt að vinna með honum og hvetjandi,“ segja þau og bæta við að hann vinni vel undir pressu.

Ó­haggan­legur

„Það haggar þessum manni ekkert. Eftir því sem lætin verða meiri þá verður hann yfir­vegaðri. Hann hlustar vel, hugsar og leiðir fólk til niður­stöðu. Það er kannski þessi eigin­leiki öðrum fremur sem hefur gert honum kleift að bræða ára­tuga­frost sem verið hefur verið í sam­skiptum ríkis og borgar varðandi sam­göngu­mál. Þessi eigin­leiki gerir það líka að þegar það kemur meiri þungi í röddina þá er hlustað.“

Þau segja hann mikinn gest­gjafa. „Hann er með ó­skiljan­legt út­hald og virðist ganga á ein­hverri annarri orku en aðrir. Það er líka al­gjört möst að hann fari sem oftast heim í sveitina, þar líður honum best og sækir orkuna. Ingi og Elsa eru höfðingjar heim að sækja og hafa þau oftar en ekki boðið starfs­fólki ráðu­neytanna heim sem hann hefur gegnt fyrir,“ segir Ing­veldur og Sig­tryggur og bæta við að Sigurður Ingi sé alltaf já­kvæður.

„Sigurður Ingi kemur til dyranna eins og hann er klæddur, er heiðar­legur og hefur haldið sínum karakter gegnum þau ár sem hann hefur verið ráð­herra. Alltaf já­kvæður og léttur. Nef­tóbaks­hornið hans er t.d. aldrei langt undan við hin dag­legu störf. Þetta er smá at­höfn. Þá dregur hann rusla­fötuna fram undan borðinu og hallar sér yfir hana til þess að kornin falli ekki á gólfið. Þessi nefa­t­höfn getur svo orðið ansi skraut­leg þegar fram­kvæmda­stjóri flokksins og ritari koma á skrif­stofuna.

Það virðist sem allir þeir sem unnið hafa með honum beri traust til hans og virðingu fyrir honum. Ja, allir nema einn.

Það hefur komið fyrir að frétta­menn hafa verið að óska eftir við­tali en hann hefur verið upp­tekinn við geldingar á hrossum.“

Ingi­björg Ólöf Isak­sen, vin­kona:

„Ég kynntist Inga í gegnum stjórn­málin en hann er skemmti­leg blanda á­byrgs stjórn­mála­manns og sjarmatrölls sem tekur í nefið,“ segir Ingi­björg Ólöf, vin­kona Sigurðar Inga.

„Ingi er þessi stað­fasti klettur sem afar gott er að leita til. Maður kemur aldrei að tómum kofanum og alltaf er hann til­búinn að hlusta. Hann er reynslu­mikill og hefur mikla reynslu af sveitar­stjórnar­málum sem styrkja hann sem ráð­herra,“ segir hún.

Ingi­björg Ólöf tekur undir með flestum sem þekkja Sigurð Inga og segir hann hafa ein­stakt lag á fólki. „Ingi er gæddur þeim frá­bæra hæfi­leika að ná að sam­eina fólk í verk­efnum, komast að sam­eigin­legri og skyn­samri niður­stöðu og hefur í­trekað sýnt það í verki,“ segir hún og heldur á­fram.

Skemmti­legast að hitta á hann í lopa­peysunni

„Það sem er líka ein­lægt við Inga er að hann er al­gjör­lega laus við alla til­gerð og stétta­skiptingu. Ingi býr að þeim eigin­leika að treysta fólki og er fljótur að koma auga á hæfi­leika. Hann hefur ó­bilandi trú á sínu fólki og hvetur til dáða sem er ein­mitt það sem góður liðs­maður og leið­togi gerir.“

„Það er stutt í glettnina hjá honum og ef maður nær honum í lopa­peysunni og ég tala ekki um á hest­baki er von á góðri skemmtun. En hann er afar mikill húmor­isti sem nýtur úti­veru. Hann er ó­trú­lega af­kasta­mikill, gengur á­kveðið til verks með skýran fókus og hvílir vel í sjálfum sér þó allt sé á haus. Hann er næmur á fólk, nær að hrífa það með sér og man allt sem hann les og heyrir. “

Sigurður Ingi og Elsa leyfa barnabörnunum gjarnan að fara á bak í sveitinni.

Nanna Rún, elsta dóttir Sigurðar Inga:

„Þeir sem hafa tekið í hendina á pabba vita hversu stórar og miklar hendurnar á honum eru. Að skrifa löng skila­boð á snjall­síma nú­tímans er því ekki hans sterkasta hlið. Við nánasta fólkið hans vitum því alveg að eina svarið hans við öllum mögu­legum skila­boðum og spurningum er "like",“ segir Nanna Rún, elsta dóttir Sigurðar Inga.

Hún segir pabba sinn heiðar­legan, ó­sér­hlífinn og traustan. „Pabbi er heiðar­legur, ó­sér­hlífinn og traustur. Það er ró og ein­hver öryggis­til­finning í kringum hann. Það sést td vel á því hve dýr hænast að honum, td. gælu­dýr okkar syst­kina úr æsku, vildu helst af öllu vera í kringum hann þó hann hefði jafn­vel engan á­huga á því, þvert á móti,“ segir hún.

„Hann er með þykkan skráp og breitt bak, enda búinn að þurfa að takast á við ýmis verk­efni í gegnum lífið."

„Hann er með þykkan skráp og breitt bak, enda búinn að þurfa að takast á við ýmis verk­efni í gegnum lífið. Þegar inn fyrir skrápinn er komið er þó til­finninga­ríkur og hlýr maður sem gott er að leita til.“

Nanna segir pabba sinn fylgjast vel með um­ræðunni.

„Hann hefur alltaf verið frétta­sólginn og fylgist vel með, hann las öll mögu­leg frétta­blöð sem hann komst í á yngri árum. Hann er "b-týpa", þ.e.a.s á auð­velt með að vaka fram á nætur. Oftar en ekki sátum við nætur­hrafna­feðginin yfir texta­varpinu löngu eftir hátta­tíma og lásum þar fréttir í "raun­tíma" enda ekkert inter­net með glóð­volgar fréttir á hverri mínútu eins og nú er orðið,“ segir hún og bætir við að hann sé mikill mat­gæðingur og góður kokkur.

„Hann elskar að elda góðan mat og er al­gjör snillingur í eld­húsinu. Aðal­á­huga­mál hans, og Elsu eru þó hestarnir og úti­vistin tengd þeim. Synir mínir (barna­börnin) njóta góðs af því og fá að fara á bak með ömmu og afa þegar komið er í sveitina.“