Vinir og vandamenn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, lýsa honum sem traustum húmorista sem man allt sem hann les. Þau segja hans besta kost vera manngæskuna. Næturbröltið á honum hélt þó vöku fyrir herbergisfélaga hans og nánum vini sem lagði stund á skiptinám með Sigmundi í Rússlandi. Mamma hans kvartar yfir óstundvísi sonarins en eiginkona hans treystir honum fyrir öllu, nema vegabréfinu sínu.

Systir hans segist hafa reitt hár sitt vegna bræðra sinna á yngri árum, en segir Sigmund sinn nánasta vin og bandamann í dag. Hún er fyrst núna, nokkrum áratugum síðar, tilbúin að viðurkenna að sennilega hefur hann eitthvað fyrir sér í hugmyndum sínum um skipulagsmál sem hann hefur alla tíð haft brennandi áhuga á. Hann eigi hins vegar ekki séns í veðbönkum um enska boltann.

Faðir Sigmundar segir ekki til snobb í sínum manni. „Hann hefur enga minnimáttarkennd gagnvart embættum eða tignarstigi, líkt og við sáum þegar hann fór í einum strigaskó að hitta Obama.“

Næstu sunnudaga munu á vef Fréttablaðsins birtast nærmyndir af formönnum allra flokka sem eiga sæti á Alþingi.

Gunnlaugsbörn. „Síðustu 30 árin hefur hann alltaf haft rangt fyrir sér þegar hann hefur spáð sínu liði, Liverpool, Englandsmeistaratitli,“ segir Nanna, systir hans.

Skipulagsmálanörd og frábær eftirherma

Nanna M. Gunnlaugsdóttir, systir:

„Ætli maður þurfi ekki að fullorðnast hratt þegar maður er þriggja ára og komin með tvö yngri systkini. Sigmundur fékk það hlutskipti og þurfti snemma að hafa áhyggjur af öðrum en sjálfum sér,“ segir systir Sigmundar um bróður sinn. „Hann kippir sér upp við fátt, og það þarf lítið til að gleðja hann. Hann er úrræðagóður, lausnamiðaður, traustur, fyndinn, þrjóskur, feiminn, húmoristi, frábær eftirherma og góður að teikna og mála svo eitthvað sé nefnt.“

Nanna segir hann ekki veigra sér við flóknum verkefnum. „Það eru hinsvegar einföldu hlutirnir sem hann getur flækt fyrir sér. Sem yngri systir var ég fljót að læra að nýta mér það. Á menntaskólaárunum var samningsstaða mín til dæmis mjög góð. Ég gat samið við hann um sjá um að hringja og panta pizzu ef hann í staðinn læsi allt sem ég átti ólært og segði mér svo frá aðalatriðum í stuttu máli. Þetta þótti honum fín skipti og mér enn betri,“ rifjar hún upp.

Hún segir áhugasvið þeirra systkina ekki alltaf hafa farið saman. „Meðan ég lék mér og skemmti sem barn og unglingur sökkti Sigmundur sér oft í að lesa um misáhugaverð málefni. Eitt af því voru skipulagsmál, en sá áhugi kviknaði mjög snemma. Sem unglingur var ég orðin mjög svo þreytt á að hlusta á einhverjar hugmyndir hans um varðveislu gamalla húsa og hönnunarstíla. En svo hef ég séð þegar frá líður hvernig þær hugmyndir sem hann hafði um að færa hús í miðbænum til eldra horfs hefði verið aðlaðandi skipulag og elst betur en samtíniningur af steypuklumpum. Hann mun „heyra” mig viðurkenna þetta í fyrsta skipti þegar hann les þetta,“ segir Nanna, létt í bragði.

„Hann er úrræðagóður, lausnamiðaður, traustur, fyndinn, þrjóskur, feiminn, húmoristi og frábær eftirherma," segir Nanna um bróður sinn.

„Brexit-sinnar munu vinna“

„Það kemur kannski ekki á óvart að núna er frítími hans undirlagður í að fylgjast með Brexit. Hann hefur lengi fylgst með stjórnmálum í Bretlandi og Brexit umræðunni frá upphafi. Mér er minnisstætt þegar við voum í rútu á leið á leik á EM 2016. Sigmundur dregur sig í hlé út úr hópnum, spekúlerar og reiknar eitthvað og allt í einu heyrist „Brexit-sinnar munu vinna”. Ég var nú ekki sannfærð, en hann sýndi mér heilmikla útreikninga sem hann hafði hripað niður á blað um hversu tæpt þetta væri og að kannanir væru sennilega ekki að ná að endurspegla sveitirnar rétt. Þarna sá ég mitt móment til að hafa betur gegn honum og veðjaði við hann um að það myndi ekki gerast. Síðar kom í ljós að ég tapaði þessu veðmáli,“ segir Nanna.

„Þó ég nefni þessar dæmisögu þá verð ég nú að taka fram að þegar hann hefur rangt fyrir sér þá held ég að hann hafi ekkert síður gaman að því, það er sennilega hluti af áhuga hans á að kryfja mál til mergjar og sjá allar hliðar. Síðustu 30 árin hefur hann til dæmis alltaf haft rangt fyrir sér þegar hann hefur spáð sínu liði, Liverpool, Englandsmeistaratitli. Það hefur samt ekki komiður niður á áhuga hans á enskri knattspyrnu.“

„Eins og maður gat orðið brjálaður á eldri bræðrum sem höfðu áhyggjur af manni og voru stríðnir grallarar, þá er ég nú heppin að eiga tvo sem eru þeir fyrstu sem ég hringi í ef eitthvað bjátar á. Manngæskan er sennilega besti kostur Sigmundar og su staðreynd að ég get treyst honum 100 prósent þegar á þarf að halda.“

Sigmundur og Anna Sigurlaug á góðri stundu.

Skipulag í óskipulaginu

Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona:

„Sigmundur er ótrúlega minnugur á allt sem hann les.Hann er þekktur fyrir að vera nokkuð utan við sig og muna sjaldnast hvar hann á að vera eða klukkan hvað, er alltaf á síðustu stundu og hann er með pappíra og minnispunktana sína á allskonanar bréfsefni og servíettum út um allt - og hann týnir þeim líka iðulega,“ segir Anna Sigurlaug, oftast kölluð Anna Stella.

„Það getur því verið stressandi að vinna með honum. Þannig hefur hann oft reynt á taugarnar hjá samstarfsfólki sínu þegar hann mætir til funda bæði innanlands og erlendis án þess að hafa með sér ræðurnar eða fundamöppurnar með öllum gögnum. Allir gera ráð fyrir að hann hafi týnt möppunni og eru tilbúnir með auka eintak fyrir hann,“ segir Anna Stella og hlær. „En í allri óreiðunni í kringum hann er nefnilega mikið skipulag og undirbúningur. Hann er alltaf búinn að lesa allt spjaldanna á milli og þegar hann hefur lesið eithvað man hann það. Möppur og pappírar eru í raun óþarfi fyrir Sigmund,“ segir hún og segir það sama upp á teningnum á heimili þeirra hjóna.

„Eitt það skemmtilegasta sem við gerum saman er að ferðast,“ segir Anna Stella

„Það er hægt að fletta upp í honum með nánast alla hluti. Eitt það skemmtilegasta sem við gerum saman er að ferðast. Hann er alltaf vel lesinn um sögu lands og þjóðar og pólitíkina, sem er auðvitað sérstakt áhugamál hans. En eitt er víst að ég myndi aldrei treysta honum fyrir því að geyma vegabréfið sitt, því hann myndi týna því um leið – en sennilega man hann vegabréfsnúmerið nú samt!“

Sigmundur og Sigurjón voru á McDonalds kúrnum í Moskvu.

Krefjandi herbergisfélagi vegna næturbrölts

Sigurjón Oddsson, vinur:

Sigmundur og Sigurjón fóru saman í skiptinám til Rússlands árið 1998. „Upphaflega kom ég með þessa hugmynd og Sigmundur sagðist ætla að koma ef ég færi og hann stóð við það. Rússlands á þessum tíma var að jafna sig eftir umskiptin 1989 en það eimdi enn af Sovéttímanum. Við komu til Rússlands var þetta fyrir mig eins og að fara aðeins aftur í tímann, 10 – 15 ár, það var eitthvað sem maður tengdi við gamla tíma heima á íslandi. Ef til vill voru það bara Lödurnar á götunum, klæðaburður fólks eða hvernig húsin voru máluð að innan með skipamálningu eða jafnvel bara sú staðreynd að ríkið hafði átt allt næstum eins og á Íslandi,“ rifjar Sigurjón upp.

„Það stóð til að fara að læra viðskiptafræði en það var heldur meiri áhersla lögð á rússneskukennslu en við lögðum upphaflega upp með. Skólinn var fátæklega búinn miðað við nútímastaðla, fyrir utan skandinavísku deildina. Við áttum einmitt að nema í henni en þar var allt huggulegra og myndir, meðal annars mynd af forseta Íslands. En við höfðum gengið með Hollendingum í skólann fyrsta daginn. Þeim hafði verið úthlutuð mun verri aðstaða. Við ákváðum þó að vera með þeim áfram. Þetta var meira framandi og spennandi og kennararnir þar voru einnig mjög góðir,“ segir Sigurjón.

McDonalds-kúrinn varð ofan á

Skólinn var alla virka daga frá 8 til 5, aðallega rússneskunám. „Á Íslandi bjuggum við enn hjá foreldrum og vorum því ekkert sérstaklega góðir í að bjarga okkur með mat, því varð McDonalds oftast fyrir valinu eða nær daglega, enda staðurinn í göngufæri og nær eina framboðið af veitingastöðum á þessum stað. Kjörbúð fundum við enga á svæðinu fyrr en síðustu dagana en þá kom í ljós að hún var í blokkinni sem við bjuggum í! Við höfðum ekki reiknað með því skipulagi og í þokkabót var hún vel falin bak við hurð. Þrátt fyrir hamborgarátið komum við þó heim tággrannir þar sem við gengum mjög mikið og þræddum daglega eftir skóla og um helgar neðanjarðakerfi Moskvu og borgina enda á milli. Það var áhugavert að kynnast borginni á þennan hátt og nota okkar stutta tíma vel. Við gengum bókstaflega sólana á skónum niður. Auk þess þá hefur Sigmundur áhuga á alls kyns fólki og er fljótur að kynnast því svo við eignuðumst mjög mikið af vinum og kunningjum á okkar stutta tíma. Við fórum oft með þeim að skoða borgina.“

Þeir Sigmundur deildu herbergi. „Það var frekar krefjandi,“ segir han og hlær. „Sigmundur var oftast á stjá langt fram eftir nóttu að mér fannst, yfirleitt við lestur eða eitthvað annað verkefni en ég kaus að fara að sofa snemma og var ekki ánægður með þetta næturbrölt á honum. Eigi að síður var hann kominn á fætur eldsnemma á morgnana og mættur í tímana. Ég viðurkenni að ég tók að mér að stugga við honum og draga hann á lappir.“

Í góðri vina hópi í Sánkti Pétursborg.

Ekki enn fyrirgefið jakkastuldinn

„Svo er Sigmundur þannig gerður að hann vill helst ekki henda neinu og er mjög hugmyndaríkur við að gefa hlutum nýtt hlutverk. Þær hugmyndir eru þá ástæður hans fyrir að geyma hlutinn. Það fór að taka á taugarnar hjá mér þegar mér fannst herbergið vera farið að fyllast af dóti. Nokkrum árum eftir dvölina í Moskvu kemur gatslitni jakkinn hans frá þessum tíma heim með sendiráðunaut en jakkinn hafði flakkað í búslóð hans í mörg ár. Jakkinn endaði hjá mér og ég henti þessum útslitna jakka. Það voru reginmistök og hann hefur ekki held ég enn fyrirgefið mér það,“ rifjar hann upp.

Sigurjón segir þá sem taka Sigmund á tal komast fljótt að því að hann sé mjög góð manneskja, nærgætinn og hafi áhuga á og gaman af fólki. „Hann er mjög hjálpsamur og vill allt fyrir alla gera en vildi um leið að tíminn liði aðeins hægar því hann ætlar sér að gera svo margt. Tíminn er því hans helsti óvinur. Sigmundur er með límminni, man næstum því allt og er stundum svolítið utan við sig. Samanlagt gerir þetta hann að áhugaverðum einstakling og fór ég ekki varhluta af því í Rússlandi þar sem fólk dróst að honum. Hann getur átt samræður um næstum hvað sem er og hefur alltaf eitthvað til málanna að leggja.“

Feðgarnir.

Ekki til snobb í Sigmundi

Gunnlaugur Sigmundsson, faðir:

„Hann er að mörgu leyti eins og ísbjörn, feldurinn er mjúkur og hlýr, og hann getur svamlað lengi aleinn í ískaldri vök,“ segir Gunnlaugur um son sinn.

„Það truflar hann ekkert að vera einn með alla á móti sér því hann veit innra með sér að hann hefur á réttu að standa og hann er svo rökfastur og vel lesinn að það er á færi fárra að standa í orðræðu við hann.“

Hann segir ekki til snobb í Sigmundi. „Hann hefur enga minnimáttarkennd fyrir embættum eða tignarstigi á alþjóðavettvangi, líkt og við sáum þegar hann fór í einum strigaskó að hitta Obama,“ rifjar Gunnlaugur upp.

Hann segir Sigmund ekki áreita aðra að fyrra bragði. „En ef hann er áreittur ómaklega eða fjölskylda hans þá tekur hann til varna og þá geta höggin orðið þung. Hann er með góðan húmor og glaðlegur í vinahópi en hverfur inn í eigin hugarheim ef honum þykir umræðuefnið ekki áhugavert.“

Sigmundur má ekkert aumt sjá, að sögn föður síns. „Hann hefur mjög ríka réttlætiskennd, finnur til með þeim sem eiga undir högg að sækja og vill rétta hjálparhönd. Hann er afar minnugur, man allt sem hann les, hann stendur vel við bakið á vinum sínum og samverkafólki, ver það sé á það ráðist en þegar pólitískir andstæðingr narta í hann sjálfan þá hristir hann sig bara. Þyki honum á hinn bóginn sem hann sé svikinn eða komið sé í bakið á honum með óheiðarlegum hætti man hann slíkt til eilífðar. Almennt má segja að Sigmundur sé drengur góður.“

Fjölskyldan í fríi.

Stórskrýtinn Íslendingur á Gamla garði

Hann rifjar upp sögu af syni sínum. „Íslenskir stúdentar hættu að fá inni á Gamla garði í Kaupmannahöfn við sambandsslitin 1918. Gamli garður í miðborg Kaupmannahafnar er nú einungis fyrir danska stúdenta sem eru taldir afbragðsnemendur og eru einungis tveir íslendingar sem hafa fengið þar inni frá sambandsslitum 1918. Annar þeirra er Sigmundur Davíð."

Í ferð fyrrverandi alþingismanna um Kaupmannahöfn síðastliðið haust undir forystu Svavars Gestssonar var fenginn leiðsögumaður til að ganga með hópnum um miðborg Kaupmannahafnar og rifja upp sögu samskipta Íslands og Danmerkur. „Við Gamla garð stoppar leiðsögumaðurinn og fer að segja af Gamla garði og þvi að þar hafi einungis fengið inni tveir Íslendingar frá því 1918 sá síðasti heiti Sigmundur Davíð sem síðar hafi orðið forsætisráðherra á Íslandi.

Fararstjórinn fer svo að segja þá gamansögu að vinkona hennar hafi búið í næsta herbergi við Sigmund og furðað sig mikið á því að hann safnaði notuðum mjólurfernum, skolaði þær, pressaði og raðaði svo snyrtilega upp í hillu en þetta þótti merki um að Íslendingurinn á Gamla garði væri stórskrýtinn enda neitaði hann að segja hvað hann ætlaði að gera við mjólkurfernurnar.“

Fararstjóranum þótti þetta afar fyndin saga af skrýtnum Íslendingi. „En enginn af fyrrverandi þingmönnum í hópnum hló, vitandi af foreldrum Sigmundar í hópnum. Sighvatur Björgvinsson kveður svo upp úr með að best sé að Gunnlaugur hringi í Sigmund og fái upplýst til hvers hann var að safna mjólkurfernum og var það gert á staðnum.

Svar Sigmundar var þetta:

„Ég var bara að flokka sorp, nokkuð sem Dönunum datt ekki í hug að gera. Ég gat ekki hlaupið með hverja lausa fernu á flokkunarstöð svo ég fór bara með fernurnar í ruslið einu sinni í mánuði.“

Gefur sig ekki í rökræðu

Sigríður G. Sigurbjörnsdóttir, móðir

Móðir Sigmundar lýsir honum sem blíðum og ljúfum með mikið jafnaðargeð. „Hann er hlýr, feiminn, vinur vina sinna, staðfastur og kurteis.“

Hún segir hann greindan. „Hann er mjög fróður, sér heildarmynd einstaklega vel, seinþreyttur til vandræða, er seinn að reiðast en ef hann reiðist situr reiðin djúpt í honum.“

Hann geti verið þrjóskur. „Hann gefur sig aldrei í rökræðu, fær hluti á heilann og kynnir sér þá allt sem hann kemst yfir um málið. Þessa stundina er hann með Brexit á heilanum og þá veit hann allt um Brexit og samskipti Bretlands og ESB,“ segir hún.

„En hann er ekki nógu stundvís.“