Vinir og vandamenn Loga Más Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, segja hann umfram allt fyndinn, vinmargan, skemmtilegan og skapandi - en líka veisluþyrstan nautnasegg. Hann hafi þann einstaka hæfileika að draga fram það besta í öðru fólki og lyfta því upp.

Hann hafi alla tíð verið vinsæll og vinmargur stuðbolti, sem hafi þann eiginleika að geta komið öllum í kringum sig í gott skap. Það fari hins vegar ekki framhjá neinum ef liggur illa á Loga.

Honum er lýst sem tilfinningaveru sem finnst fólk ekki eiga erindi í stjórnmál hafi það ekki grátið yfir atriðinu þegar Múfasa dó í Lion King.

Hann er sagður óhefðbundinn pólitíkus þrátt fyrir að aðstoðarmaður hans geri allt sem hún geti til að hefla hann og pússa.

„Hann er laus við snobb og hírarkí og ekkert sérstaklega hrifinn af jakkafötum, hálstaui eða öðru slíku prjáli,” segir þingmaður Samfylkingarinnar og vinkona Loga.

Logi og æskuvinur hans Jón Haukur á góðri stundu með með vinkonum þeirra, Sigrúnu Guðmundsdóttur og Örnu Ágústar. Myndin líklega tekin veturinn 1979-80.

Logi er sagður nýjungagjarn og listfenginn, algjörlega án tilgerðar og með munninn fyrir neðan nefið. „Það er ekki sjaldan sem honum finnst að kvöldi góðs dags að dagurinn hafi verið „besti dagur ævinnar,“ segir eiginkona hans, sem segir það smitandi eiginleika að hafa svo gaman af lífinu.

Æskuvinur hans og meðlimur í hljómsveit Loga, Skriðjöklunum, segir hann hafa verið aðalhugmyndasmiðinn á bakvið sveitina, hvort sem um ræddi lög og texta eða plötuumslög og útlit.

Næstu sunnudaga munu á vef Fréttablaðsins birtast nærmyndir af öllum formönnum flokka sem eiga sæti á Alþingi.

Logi og Arnbjörg fyrir norðan, þar sem Logi rak teiknistofuna Kollgátu frá árinu 2003.

Oftast kátur og lítil þolinmæði fyrir lufsugangi

Arnbjörg, eiginkona Loga:

„Ætli ég myndi ekki fyrst segja um Loga að hann sé mjög fyndinn og skemmtilegt að vera með honum,” segir Arnbjörg, eiginkona Loga.

Hún lýsir honum sem persónu sem tekur mikið pláss og sé sem betur fer oftast kátur. „Því það fer varla framhjá neinum ef hann fer í vont skap. Þegar það gerist stendur það í stutta stund. Hann er alls ekki langrækinn og á mjög auðvelt með að fyrirgefa og biðjast fyrirgefningar.”

Hún segir sinn mann mjög kraftmikinn. „Hann er oft eins og stormsveipur þegar hann tekur til hendinni. Þá drífur hann í hlutunum, stundum aðeins of rösklega, og hefur þá ekki mikla þolinmæði fyrir því að aðrir séu eitthvað að lufsast.”

Logi með Hrefnu, dóttur þeirra Arnbjargar. Loga finnst sérstaklega skemmtilegt að ferðast með fjölskyldu sinni.

Hrifnæmur nautnaseggur

Arnbjörg segir Loga fagurkera sem kunni mjög vel að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

„Myndlistar, hönnunar, bóka, tónlistar, ferðalaga, matar og samvista við skemmtilegt fólk. Og allra best finnst honum að blanda þessu saman í ferðalögum okkar með börnunum. Hann er ægilega hrifnæmur og sér reglulega „bestu bíómyndina“ eða heyrir „besta lagið“, og ekki sjaldan sem honum finnst að kvöldi góðs dags að það hafi verið „besti dagur ævinnar,“ segir Arnbjörg og hlær.

„Sem mér finnst stundum dálítið fyndið hjá 55 ára manni en er alveg frábær eiginleiki sem smitar út frá sér. Og ekki leiðist honum lífið á meðan.”

Logi ungur að árum. Það kom vinum hans mörgum hverjum á óvart að hann skyldi leiðast út í stjórnmál og síðar leiða heilan stjórnmálaflokk.

Neitaði að taka hlutina of alvarlega og að klæða sig í svart

Dagur, arkítekt og vinur:

Dagur og Logi kynntust þegar þeir hófu nám við Arkitektaháskólann í Osló haustið 1986. „Hann var rólegur og lét lítið fyrir sér fara eins og við öll sem ekki kunnum norskuna reiprennandi en lumaði á mikilli kímnigáfu sem gerði það að verkum að við bekkjarfélagar hans fórum fljótt að leggja við hlustir þegar hann lagði orð í belg,” rifjar Dagur upp.

„Ungir arkitektanemar eiga það til að taka hlutina dálítið alvarlega, hafa „réttu” skoðanirnar á hlutunum, gera hlutina á „réttan” hátt og klæða sig í svart. Þetta þótti okkur Loga ansi þreytandi til lengdar og ákváðum því að stofna listafélagið Anthon Berg, þar sem léttvægir hlutir voru teknir fyrir á alvarlegan hátt og alvarlegri hlutir teknir úr samhengi og skemmtilegt gert úr.”

„Ungir arkitektanemar eiga það til að taka hlutina dálítið alvarlega, hafa „réttu” skoðanirnar á hlutunum, gera hlutina á „réttan” hátt og klæða sig í svart. Þetta þótti okkur Loga ansi þreytandi," segir Dagur, en Loga yrði seint lýst sem snobbuðum.

Viggo og Gustav máluðu bæinn rauðan

Logi tók við þetta tilefni upp listamannanafnið Viggo Ullmann og Dagur nafnið Gustav Storm.

„Saman stóðum við að málverkasýningum, sýningum á sjálfsmyndum nemenda og kennara og hönnunarsamkeppni um nýjan skólabúning. Upp úr stóð sýningin á portrettmyndum skrifstofustjóra skólans sem hann tók með gamalli Polaroid myndavél og þóttu vægast sagt afleitar.

Eftir að hafa sett að minnsta kosti hundrað þeirra í ramma voru þær orðnar að ógleymanlegum listaverkum. Skrifstofustjórinn kom að máli við okkur nokkrum árum seinna þegar hann var sestur í helgan stein og sagði að þetta hefði verið ein stærsta stundin á starfsferli hans.”

„Þetta er Logi í hnotskurn. Hann sér hæfileika fólks í öllum hugsanlegum myndum, styður við bakið á þeim og stuðlar að því að koma þeim á framfæri. Heimur hans er fjölbreyttur, litríkur og umfram allt tekur hann öllum eins og þeir eru og lyftir þeim upp.”

„Logi er laus við snobb og hírarkí og ekkert sérstaklega hrifinn af jakkafötum, hálstaui eða öðru slíku prjáli," segir Helga Vala, vinkona hans og kollegi í þingflokki Samfylkingarinnar

Getur reynst þrautin þyngri að hefla og pússa Loga

Helga Vala , vinnufélagi Loga:

Helga Vala þekkti Loga ekkert áður en hún fór í framboð haustið 2017. „En það var einmitt hans nálgun á samfélagið sem fékk mig til að slá til,” rifjar hún upp.

„Logi er listamaður og ég er fullviss um að sú taug í honum laðar allskonar fólk að því að hafa áhuga á þessu fyrirbæri sem pólitíkin er. Logi hugsar út fyrir boxið. Hann er óhefðbundinn pólitíkus þrátt fyrir að Freyja, aðstoðarmaður hans, geri allt sem hún getur til að hefla hann og pússa,” segir Helga Vala, létt í bragði.

„Logi er laus við snobb og hírarkí og ekkert sérstaklega hrifinn af jakkafötum, hálstaui eða öðru slíku prjáli. Sem dæmi veit ég að þegar hann og Abba konan hans þurftu að mæta í drottningarboð á Bessastöðum á fullveldisafmælinu, þurftu þau að hringja í vin til að skilja fyrirmælin á boðskortinu um áskilinn klæðaburð,” útskýrir hún og hlær.

„Logi er listamaður og ég er fullviss um að sú taug í honum laðar allskonar fólk að því að hafa áhuga á þessu fyrirbæri sem pólitíkin er," segir Helga Vala, vinkona Loga.

Loga finnst ekki leiðinlegt að lyfta sér upp

Helga Vala segir Loga mikinn mannasætti. „Það sáum við vel í vor í þinglokasamningum. Hann er lunkinn við að skera bullið frá kjarnanum og koma málum í horf. Hann mætti samt stundum taka sér meira pláss.”

Hún lýsir honum sem hróki alls fagnaðar. „Loga finnst ekkert leiðinlegt að lyfta sér upp og er lunkinn að finna sér félaga í því hér á þingi sem þó gráta það hvað hann er kvöldsvæfur og úthaldslítill í skemmtanalífinu," segir Helga Vala, kímin.

Jón Haukur og Logi á æfingu með KA, líklega 1975. Þeir eru báðir í fremri röð, Jón Haukur annar frá vinstri og Logi þriðji frá hægri.

Tólf ára rekinn fyrir að rífa kjaft

Jón Haukur, æskuvinur og Skriðjökull

„Eitt helsta einkenni Loga er hvað maðurinn er skemmtilegur,” segir Jón Haukur, hljómsveitarmeðlimur Skriðjökla og æskuvinur Loga.

„Við kynntumst svona 10-11 ára og þá strax var hann jafnan hrókur alls fagnaðar og hefur verið síðan, mikill húmoristi og ærslabelgur enda hefur hann alltaf verið vinmargur og vinsæll. Hann hefur líka alltaf verið með munninn fyrir neðan nefið og mér er það minnisstætt þegar hann var rekinn af velli í fótboltaleik á Siglufirði fyrir að rífa kjaft við áhorfendur! Þá hefur hann líklega verið tólf ára gamall,” rifjar Jón Haukur upp.

Þeir vinirnir voru saman í íþróttum, seinna saman í menntaskóla og unnu saman „hjá bænum“ eins og það var kallað. „Við unnum einnig dálítið saman á bak við tjöldin í pólitík. Ekki átti maður þó beinlínís von á því þá að hann yrði síðar meir formaður stjórnmálaflokks,” segir Jón Haukur.

Á sviði með Skriðjöklum 2012. Á myndinni eru auk Loga, Jakob Jónson (til vinstri) og Raggi sót.

Aðalsprautan að baki Skriðjöklanna

Jón Haukur segir vin sinn ekki bara skemmtilegan, heldur hæfileikamann á mörgum sviðum.

„Logi er eldklár, frjór og listrænn, og ég hefði frekar trúað því að hann yrði myndlistarmaður en stjórnmálamaður. Í menntaskóla teiknaði hann ógrynni af myndum í Carmínu, árbók útskriftarnema, og þegar Jöklarnir fóru af stað var hann aðalhugmyndafræðingurinn þar, hannaði umslög og auglýsingar, samdi lög og texta og setti mikinn svip á útlit sveitarinnar,” rifjar hann upp.

Jón Haukur segir Loga hafa verið þrælgóðan handboltamann. „Hann hefði ábyggilega komist í landsliðið ef hann hefði ekki hætt allt of snemma vegna náms. Hann gerðist arkitekt og hefur gert fína hluti þar en flestir vita svo hvað hann hefur verið að bauka síðustu ár.

Það kemur í ljós hvað hann endist lengi í pólitíkinni en ég er handviss um að hann á eftir að gera eitthvað annað sem eftir verður tekið, hann er bara þannig.”

Logi með vinkonu sinni og Samfylkingarkonu, Guðrúnu Ögmundsdóttur, á góðri stundu.

Allir eigi að gráta yfir atriðinu þegar Múfasa dó

Freyja, aðstoðarmaður Loga:

Freyja lýsir Loga sem manni með mikla samkennd. „Hann veigrar sér ekki við að taka símtöl og fundi með alls konar fólki í allskonar aðstæðum. Enginn er eitthvað mikið mikilvægari en annar.

Hann bjó einu sinni til próf sem honum finnst að allir sem gefa kost á sér í pólitík þyrftu að þreyta; ef manneskjan fór ekki að gráta yfir atriðinu þegar Múfasa dó í Lion King, ætti sú manneskja ekki heima í stjórnmálum því hana vantaði nægilega samkennd til þess,” segir Freyja um Loga.

Vinum Loga kemur saman um að hann sé mikill gleðigjafi og kunni að njóta lífsins.

Ekki gramm af tilgerð

Freyja segir Loga bæði kraftmikinn og skapandi. „Hann hefur ótrúlegan hæfileika til að koma auga á lausnir jafnvel við flóknustu aðstæður - ætli það sé ekki arkitektinn í honum. Ég kann líka að meta að það er ekki til eitt gramm af tilgerð í honum,” lýsir hún.

„Hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur, enda er fatastíllinn hans nokkuð óhefðbundinn, eins og hann. Hann er heiðarlegur, skapandi, fyndinn - þó hann sé ekki jafn fyndinn og hann heldur - og sanngjarn leiðtogi sem dregur fram það besta í fólki og lyftir því upp.”

Logi með föður sínum, Einari Helgasyni, á góðri stundu. Pabbi Loga var myndlistarmaður og því hefur Logi ekki langt að sækja sköpunargleðina.

Eini Akureyringurinn sem komst upp með að flytja sig yfir Gleránna

Ingólfur Freyr, vinnufélagi og vinur:

„Ég kynntist Loga fyrst fyrir alvöru veturinn 2004 þegar ég byrjaði að vinna með honum á teiknistofunni Kollgátu sem hann hafði þá nýstofnað. Ég hafði sem Akureyringur auðvitað alltaf vitað af Loga í gegnum handbolta og fótboltaiðkun okkar,” segir Ingólfur.

„Mér hafði þótt hann frekar merkilegur gaur fyrir það að vera eiginlega eini Akureyringurinn sem hafði spilað í meistaraflokki með bæði Þór og KA án þess að vera vændur um að svíkja lit eða vera litinn hornauga af öðru hvoru félaginu eins og oftast gerist þegar menn flytja sig yfir Gleránna.

Ég komst svo að því þegar ég kynntist honum betur að það er hinn einlægi áhugi hans á allskonar fólki, víðsýni hans og umburðarlyndi sem gerðu honum kleift að vera farsæll og vinsæll leikmaður hjá báðum félögum.”

Logi þótti gríðarlegt handboltaefni. Þeir sem þekkja til segja að hann hefði átt heima í landsliðinu hefði hann haldið áfram.

Nýjungagjarn og fáránlega góður að muna nöfn

Ingólfur segir Loga nýjungagjarnan. „Hann hefur gaman að nýjum og fallega hönnuðum hlutum sem hann fær gjarnan algjört æði fyrir og verður þá alveg heltekinn. Ég þekki til dæmis engan sem hefur átt jafn mörg heyrnartól um ævina.

Hann á sennilega stærsta ósýnilega safn heyrnartóla á Íslandi því hann er sífellt að rekast á fallegri, betri og snjallari heyrnartól sem hann kaupir sér, en týnir þeim svo reyndar jafnóðum,” segir Ingólfur og hlær.

Hann segir Loga þekkja alveg ótrúlega marga. Hann sé góður að muna nöfn og fjölskyldutengingar.

„Við höfum farið víða saman í vinnuferðir og það er alveg sama hvert við komum eða hvern við hittum, alltaf skal Logi þekkja einhvern sem tengist viðkomandi eða vita hver frændi hans eða frænka er. Hann hefur ótrúlega mikinn áhuga á fólki, ólíkum persónuleikum og fólki með ólíkar skoðanir.”

„Það kemur í ljós hvað hann endist lengi í pólitíkinni en ég er handviss um að hann á eftir að gera eitthvað annað sem eftir verður tekið, hann er bara þannig," segir Jón Haukur um vin sinn.

Veður úr einu í annað - en alltaf með á nótunum

Ingólfur segir Loga gjarnan með mörg verkefni í kollinum á sama tíma. „Hann fer gjarnan úr einu í annað og því eins gott að fylgjast vel með og vera snöggur að tengja. Hann á það til að byrja að ræða um eitthvað en fara svo í miðri setningu yfir í eitthvað allt annað.”

Logi sé oft annars hugar. „Stundum líður manni eins og hann sé ekkert að hlusta og hafi ekki heyrt neitt af því sem sagt var en það er algjör misskilningur. Hann hefur þann frábæra eiginleika að geta verið með marga bolta á lofti í höfðinu og samt náð megin inntaki samtalsins á sama tíma.”