Katrín Jakobsdóttir er einstaklega glaðlynd, skörp og sanngjörn og kætist óvenju mikið yfir atviksorðum og afturbeygðum sögnum. Hún kann öll veganúmer á Íslandi en er á sama tíma afar áttavillt og hefur litla rýmisgreind. Katrín hefur meiri áhuga á að skilja andstæðinginn en að vinna hann í rökræðum og nálgast hvert og eitt mál af virðingu. Ósérhlífin og kröfuhörð á sjálfa sig, og leiðist minna en öðrum þegar flugvélum seinkar, segja vinir og vandamenn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna.

„Hún er til að mynda afar ómannglögg. Þannig hefur hún pantað drykk af Björk Guðmundsdóttur þar sem hún taldi að Björk væri starfsmaður skemmtistaðar í Reykjavík. Hún lendir ítrekað í hinum vandræðalegustu aðstæðum af þessum sökum,” segir eiginmaður hennar.

„Katrín er sannarlega sterkasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún hefur stýrt mörgum húsfélögum í stórframkvæmdum; strax um tvítugt náði hún ótrúlega vel saman við sextuga iðnaðarmenn þannig að þeir skildu hana og hún þá,“ segir bróðir hennar.

Næstu sunnu­daga munu á vef Frétta­blaðsins birtast nær­myndir af for­mönnum allra flokka sem eiga sæti á Al­þingi.

„Það taka allir eftir því þegar Katrín gengur inn í herbergi," segir Svandís, en hún og Katrín eru miklir bandamenn í pólitíkinni.

Lætur fyrir sér fara

Svandís Svavarsdóttir, flokkssystir:

„Katrín er engum lík. Óvenju skörp og ósérhlífin, gríðarlega kröfuhörð við sjálfa sig og alla aðra. En hún er líka sérlega skemmtileg, lífleg og orkumikil. Það taka allir eftir því þegar Katrín gengur inn í herbergi og mér finnst raunar sjálfri að það fari ekki framhjá neinum þegar hún stígur fæti inn í ráðuneytið mitt þótt mín skrifstofa sé á þriðju hæð,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra um flokkssystur sína Katrínu Jakobsdóttur.

Fíflalætin aldrei langt undan

Svandís segir grínið aldrei langt undan hjá Katrínu. „Þessi smáa og fínlega kona hefur sérkennilega mikla fyrirferð, talar mikið, hlær og bæði skellir sér á læri og stappar niður fæti með miklum boðaföllum ef gott grín er í gangi. Oft er hún fyrst til að efna til skemmtiatriða af alls konar tagi. Hún hefur yndi af fíflalátum og þar mætast okkar áhugasvið einkar vel. Raunar held ég að húmor sé vanmetinn sem tæki til lausna í stjórnmálum og lífinu öllu,“ segir hún og bætir við að Katrín sé afar lausnamiðuð í lífinu.

„Þessi smáa og fínlega kona hefur sérkennilega mikla fyrirferð, talar mikið, hlær og bæði skellir sér á læri og stappar niður fæti með miklum boðaföllum ef gott grín er í gangi.“
Fréttablaðið/Anton Brink

„Katrín er líka ástríðumanneskja í vinnu, dugnaðarforkur sem vill að hlutirnir gangi fljótt og vel fyrir sig og á bágt með að þola rugl og sleðagang. Þegar álagið er mest finnur maður vel fyrir undiröldunni, skapi, festu og ákveðni. Það sem þó einkennir Katrínu öðru fremur er hvað hún er lausnamiðuð, einstaklega snjöll í að finna góða niðurstöðu og sátt í flóknum viðfangsefnum þótt stundum þurfi krókaleiðir og löng samtöl við marga. Sá eiginleiki er dýrmætur í stjórnmálum, ekki síst fyrir forsætisráðherra.“

Katrín, Gunnar og fjölskylda. „Það er erfitt að lýsa Katrínu enda er hún um margt óvenjuleg kona,” segir Gunnar.

Lendir ítrekað í vandræðalegum aðstæðum

Gunnar Sigvaldason, eiginmaður:

„Það er erfitt að lýsa Katrínu enda er hún um margt óvenjuleg kona. Hún er til að mynda afar ómannglögg. Þannig hefur hún pantað drykk af Björk Guðmundsdóttur þar sem hún taldi að Björk væri starfsmaður skemmtistaðar í Reykjavík. Hún lendir ítrekað í hinum vandræðalegustu aðstæðum af þessum sökum,” segir Gunnar Sigvaldason, eiginmaður Katrínar.

„Stundum er eins og hún trúi því að sameindaflutningar séu til því þegar hún er á Selfossi er hún búin að telja sér trú um að hún sé á leið úr Skeifunni í Vesturbæinn og verði komin eftir tíu mínútur.”

Tímaskynið annað en flestra

„Að sama skapi getur hún verið afar óstundvís og tók það mig mörg ár að venjast hennar tímaskyni. Stundum er eins og hún trúi því að sameindaflutningar séu til því þegar hún er á Selfossi er hún búin að telja sér trú um að hún sé á leið úr Skeifunni í Vesturbæinn og verði komin eftir tíu mínútur.”

Gunnar segir eiginkonu sina afar hugrakka, hvort sem er í leik eða starfi.

„Djörfung er líka eitt af helstu einkennum Katrínar og birtist hún í ýmsum myndum. Þar má nefna ríkisstjórnarmyndanir, eldamennsku og val á hótelum með „karakter“ (en það merkir iðulega hótelbyggingar frá sextándu öld með lofthæð upp á einn og hálfan metra). Hvað sem öllu þessu líður er fátt skemmtilegra en að vera í matarboði með Katrínu og vinum okkar þar sem hún er hrókur alls fagnaðar eða að ferðast um Ísland eða París þar sem hún þekkir hverju þúfu og hvert götuhorn eins og lófann á sér.“

Ótrúlega áhugasöm og glaðlynd

Haukur Ingvarsson, vinur:

„Ég kynntist Katrínu í íslenskunámi við HÍ. Hún er aðeins eldri en ég og var aðstoðarkennari í inngangsnámskeiði að málfræði. Það kom mér á óvart að nokkur manneskja gæti verið svona kát yfir atviksorðum og afturbeygðum sögnum en seinna komst ég að raun um að þetta er einn helsti kostur Katrínar; hún hefur ótrúlegan áhuga á því sem hún fæst við hverju sinni og gengur yfirleitt glöð til starfa,“ segir Haukur Ingvarsson, vinur Katrínar.

„Þeir sem kynnast henni komast fljótt að því að hún veit fullvel hver hún er og hvað hún ætlar sér. Það er beinlínis hlægileg tilhugsun að einhver ráðskist með Katrínu – nema mögulega synir hennar.“

Haukur segist hafa átt mun auðveldara með að tengja við áhuga Katrínar á bókmenntum og segir það sameiginlega ástríðu þeirra beggja.

„Hún var mjög efnilegur fræðimaður. Helsti styrkleiki hennar var sá að hún gat lesið ótrúlegt magn af textum og komið auga á tengslin á milli þeirra; dregið upp stóru línurnar sem maður þarf mikla yfirsýn til að koma auga á. Þannig kom það ekki á óvart að hún skyldi ákveða að kortleggja heila bókmenntagrein, glæpasöguna, í BA-ritgerð sinni en þeim rannsóknum hélt hún áfram á meistarastigi,“ segir hann.

Meira af óverðskuldaðri gagnrýni en verðskulduðu hrósi

„Á háskólaárunum voru gerðar miklar kröfur til Katrínar, bæði í námi og pólitíkinni. Það sáu allir hvað bjó mikið í henni en margir fundu hjá sér þörf til að gagnrýna hana til að „halda henni á jörðinni“. Ég held að Katrín hafi alla tíð fengið meira af óverðskuldaðri gagnrýni en verðskulduðu hrósi. Og það hafa alltaf verið margir til að segja henni hvernig hún á að vera og hvað hún eigi að gera. Þeir sem kynnast henni komast fljótt að því að hún veit fullvel hver hún er og hvað hún ætlar sér. Það er beinlínis hlægileg tilhugsun að einhver ráðskist með Katrínu – nema mögulega synir hennar.“

Haukur segir Katrínu nálgast öll mál af virðingu og festu.

„Íslensk stjórnmálaumræða hefur mjög lengi snúist um að vinna litlu slagina, mæta í kappræður og snúa niður andstæðinginn. En Katrín tekst ekki á við fólk í illu. Stundum varpar maður einhverju fram og heldur að maður geti gengið fram af henni en þá klórar hún sér bara í hökunni og segir: „Áhugavert!“ Það skiptir Katrínu nefnilega meira máli að skilja andstæðing sinn en vinna sigur í rökræðum. Hún er alltaf að hugsa um að ná yfirsýn, sjá stóru línurnar en þær sér maður aðeins með því að nálgast hvert og eitt mál af virðingu.“

Hann segir Katrínu vin vina sinna. „Katrín á fjölbreyttari vinahóp en nokkur annar sem ég þekki. Ég man að góð vinkona hennar sagði eitt sinn að Katrín samfagnaði ekki aðeins með vinum sínum heldur væri hún fyrst á staðinn þegar eitthvað bjátaði á. Hún væri fús til að eiga við mann erfiðu samtölin um sorg, veikindi og önnur viðkvæm málefni. Katrín er mikil prívat manneskja og henni er annt um einkalíf sitt en hún hefur reynt margt og það hefur gert hana að sterkri og heilsteyptri manneskju.“

Mynd úr umræddri ferð Cato og Clouseau í Genf í sumar.

Eins og Cato og Clouseau

Lísa Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður:

„Margir vita að Katrín hefur haldbæra og sumpart allnokkra þekkingu á ansi mörgum hlutum. Færri vita þó að hún kann öll veganúmer á Íslandi. Þetta kann í fljótu bragði að virðast beinlínis skringilegt og ég hugsaði fyrst um Rain Man þegar ég komst að þessu. En það er falleg saga á bakvið þetta og ég get alveg fullvissað fólk um að sagan er alveg eðlileg. Hún reyndar safnar líka steinum og páskaungum og í því samhengi er þetta náttúrulega stórfurðulegt allt saman,“ segir Lísa Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður Katrínar, sem rifjar í framhaldinu upp nokkrar utanlandsferðir sem þær hafa farið í saman í störfum sínum.

Gengur stundum á fólk

„Maður skyldi ætla að þekkjandi öll þessi veganúmer væri manneskjan eins og gangandi kompás og með henni yrði enginn áttavilltur. Hún hefur hins vegar afar takmarkaða rýmisgreind, það bara verður að segjast. Stundum veit hún ekki hvort að hún er að koma eða fara og á það til að ganga á fólk. Sjálf er ég ekki alveg laus við að vera bjánaleg þegar kemur að okkar ferðalögum erlendis en saman erum við eins og Cato og Clouseau.“

Katrín og Lísa í Skaftafelli í sumar á flokksráðsfundi VG

Lísa segir að eitt af betri augnablikum Katrínar á erlendri grundu hafi verið í Genf í Sviss síðastliðið sumar.

„Við vorum staddar á þingi Sameinuðu þjóðanna í Genf voru að hlaupa á milli funda með hersingu af fylgdarliði og þurftum báðar að komast á salerni. Það var stoppað við ruddumst inn og hersingin beið fyrir utan. Það voru ekki margar mínútur á milli funda þarna svo að það var betra að vera snöggur og ákveðinn.

Ég stóð og þvoði mér um hendurnar þegar Katrín kom út og óð að vaskinum. Var eiginlega eins og vindvél léki um hárið á henni - farturinn var slíkur. Að loknum þvotti sneri hún sér að handþurrkunni og dró ákveðin, þó fumlaus í handþurrkuna (sem var svona handklæði á rúllu) ekkert gerðist. Í snarhasti tók Katrín þéttingsfast í handklæðið og kippti í. Það vildi ekki betur til en svo að uforvarendis stóð Katrín þarna með heila handþurrku í fanginu og hafði losað hana af veggnum. Við sprungum úr hlátri, lögðum frá okkur þurrkuna og rukum á næsta fund.“

„Átta ára gömul fór hún í sælgætisbindindi sem stóð í sjö ár og veit ég ekki um neitt annað barn sem hafði svo sterkan vilja,“ segir Ármann

Hljóp um allt og skellihló

Ármann Jakobsson, bróðir Katrínar.

„Katrín var glaðvært barn. Ég man eftir henni hlaupandi um allt skellihlæjandi og iðulega á svipinn eins og hún þekkti stórkostlega skemmtilegt leyndarmál alheimsins sem öðrum væri hulið. Enda varð hún snemma vinsæl hjá fullorðnu fólki sem átti til að gefa henni sælgæti óumbeðið sem leiddi svo til þess að átta ára gömul fór hún í sælgætisbindindi sem stóð í sjö ár og veit ég ekki um neitt annað barn sem hafði svo sterkan vilja,“ segir Ármann Jakobsson, bróðir Katrínar.

„Hluti af vinsældum hennar hjá eldri kynslóðinni stafaði af því að hún var skýrmælt og var iðulega fengin til að lesa ljóð og kynna á bekkjarkvöldum. Hún gerði það alltaf eins og fagmaður,“ bætir hann við.  

Hefur sérstakt lag á sextugum iðnaðarmönnum

Ármann segir Katrínu alltaf hafa verið jákvæða og séð spaugilegu hliðina á lífinu. „Katrín var aldrei svartsýn eða tortryggin og jafnan fús að kynnast nýju fólki. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á öðrum, tekur eftir öllum og sér gjarnan spaugilegu hliðina á mannlífinu. Þegar Katrín útskrifaðist sem stúdent fannst okkur fjölskyldu hennar við þekkja hvern mann á sviðinu af því að þetta fólk hafði birst svo skýrt í sögum hennar.“

„Ég man eftir henni hlaupandi um allt skellihlæjandi og iðulega á svipinn eins og hún þekkti stórkostlega skemmtilegt leyndarmál alheimsins sem öðrum væri hulið.“

Ármann segir Katrínu hafa einstaka þolinmæði og alltaf hafa haft lag á fólki.

„Katrín er sannarlega sterkasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún hefur stýrt mörgum húsfélögum í stórframkvæmdum; strax um tvítugt náði hún ótrúlega vel saman við sextuga iðnaðarmenn þannig að þeir skildu hana og hún þá. Hún vinnur af kostgæfni hvaðeina sem hún gerir, skipuleggur viðburði vel og hefur alltaf skýra sýn á hvernig allt eigi að vera og lætur það ganga upp en iðulega þó á seinustu stundu þannig að því fylgja mikil hlaup undir lokin. Hún hefur sinn eigin smekk og heldur sig við hann og álit annarra fær ekki breytt honum,“ segir hann.

„Hún er þolinmóð og ráðagóð þegar á móti blæs og manneskja sem kemur að gagni í kröggum þegar öðrum fallast hendur. Hún hefur mikla ró og leiðist minna en eiginlega öllum öðrum þegar flugvélum seinkar. Þetta er sjálfsagt eitthvað sem hefur lærst í störfum hennar seinustu sextán árin.“

„Ég hef aldrei séð hana sitja auðum höndum. Hún getur straujað, fylgst með pólitískum umræðum í sjónvarpi og skrifað ræðu – allt í einu.“

Getur allt

Sólveig Halldórsdóttir, vinkona:

„Við höfum verið vinkonur síðan í MS, í meira en 25 ár. Þar vorum við meðal annars saman í nemendastjórn og hún átti ekki í neinum vandræðum með að stýra nemendafélaginu og dúxa á stúdentsprófunum sama árið. Hún er eldklár, skemmtileg og heiðarleg manneskja og það er alveg sama hvað gengur á í stjórnmálunum, hún finnur samt tíma til að sinna vinum sínum og fjölskyldu,“ segir Sólveig Halldórsdóttir, vinkona Katrínar. Hún segir Katrínu algjörlega einstaka.

„Katrín er ekki eins og neinn sem ég þekki. Hún vinnur frá morgni til kvölds, er trú sinni sýn á hlutina en hlustar líka á þá sem hún treystir. Hún hefur almennt trú á fólki sama hvaðan það kemur. Svona flestu fólki allaveganna. Hún ber sig ekki saman við aðra og tekur öllu fólki eins og það er.“

Stjórnaði húsfélaginu áfram þrátt fyrir að hafa flutt

Sólveig segir Katrínu alltaf hafa nóg fyrir stafni.

„Ég hef aldrei séð hana sitja auðum höndum. Hún getur straujað, fylgst með pólitískum umræðum í sjónvarpi og skrifað ræðu – allt í einu. Hún á erfitt með að segja sig frá verkefnum sem hún hefur tekið að sér. Það hefur til dæmis orðið til þess að hún sat áfram í stjórn húsfélags sem hún var flutt úr.“

Fremur töfrabrögð í veislum

Sólveig segist jafnframt reyna að hemja ákveðna áráttu eftir bestu getu og tekur fram að húmoristinn Katrín Jakobsdóttir taki að sér að sýna töfrabrögð í veislum.

„Hún er með söfnunaráráttu sem hún reynir að hemja og beisla eftir bestu getu. Ég held hún eigi samt flest alla hluti sem hún hefur eignast í lífinu, þar á meðal gamla servíettusafnið, útsaumsuppskriftir sem munu aldrei verða notaðar og öll skattframtöl frá upphafi,“ segir hún.

„Hún er gömul sál sem elskar Anton Berg marsipansúkkulaði, var lengi ekki með kreditkort, prentar út ljósmyndir og raðar í albúm, og straujar allt, líka sokka. Hún er með sinn eigin húmor, er til dæmis félagi í Hinu íslenska töframannagildi, þar sem hún og Halldóra vinkona hennar fremja töfrabrögð af mikilli elju. Það er hægt að panta þær í veislur.“

Nærmyndir af formönnum annarra flokka eru að finna í tengdum fréttum hér fyrir neðan.