Vinir og vandamenn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, lýsa honum sem skapandi og hrifnæmum húmorista sem á auðvelt með að fá fólk til lags við sig - náttúrulegum leiðtoga. Hann sé mikill fjölskyldumaður og góður vinur, sem sé stundum dálítið utan við sig og sofnar um leið og hann stígur upp í flugvél.

Þóra Margrét, eiginkona hans, segir hann listrænan, fyndnasta mann sem hún þekkir og segir hann stöðugt á hreyfingu. „Hann getur verið pínu óþolandi með þetta. Ég fæ að fylgjast mjög náið með þessu líkamræktarprógrammi hans. Án þess að ég spyrji!”

Honum er lýst sem góðum samstarfsfélaga sem hafi mikið úthald og létta lund. Blokkflautuferillinn hófst snemma og byrjaði vel, en hefur í seinni tíð fjarað undan, að sögn æskuvinar hans.

Bjarni fær bestu hugmyndirnar í baði en kann ekki að tjilla. „Eins og Bjarni orðar það sjálfur, þá finnst honum nefnilega svo gott að slappa af með því að gera eitthvað,” segir aðstoðarmaður fjármálaráðherrans og vinkona.

Næstu sunnudaga munu á vef Fréttablaðsins birtast nærmyndir af formönnum allra flokka sem eiga sæti á Alþingi.

Bjarni og Illugi sátu saman á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og með þeim tókst mikill vinskapur.

Grallari sem sest alltaf við borðsendann

Illugi Gunnarsson, vinur:

„Um Bjarna má segja að hann er drengur góður,” segir Illugi sem segir Bjarna réttsýnan og feykilega vel gefinn. Hann eigi auðvelt með að setja sig inn í öll mál, sé fljótur að greina aðalatriði frá aukaatriðum. „Hann hefur þrek og festu til að fylgja eftir sannfæringu sinni. Honum er forysta eðlislæg, pólitískur andstæðingur hans sagði eitt sinn við mig að Bjarni væri þeirrar gerðar að þegar hann settist við borð, þá settist hann alltaf við borðsendann, hann væri bara þannig.”

Illugi var kosinn á þing árið 2007 og þeim Bjarna varð fljótt vel til vina. „Það var frábært að vinna með Bjarna, hann var athugull og vel að sér um helstu málaflokka þingsins. Þó að hann væri í forsvari fyrir tiltekinn málaflokk í þinginu þá takmarkaði það ekki umræður og afstöðu til álitamála, stórra sem smárra. Hann var strax á þeim árum það sem maður myndi kalla alhliða stjórnmálamaður, og það var nauðsynlegur undirbúningur fyrir það sem síðar átti eftir að koma.”

Bjarni, Illugi, Kristján Þór og Hanna Birna settust saman í ríkisstjórn 2013, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Stríðnispúki sem hefur fyrir bröndurunum

Illugi segir líka heilmikinn grallara í Bjarna. „Við vinir hans höfum stundum orðið fyrir barðinu á þeirri hliðinni á honum,” segir Illugi og rifjar upp sögu úr þinginu.

„Eitt sinn skömmu fyrir jól, þegar þingið var í sinni hefðbundnu jólapanik, þá sá Bjarni á eftir mér hlaupa í hádeginu út úr þinghúsinu, greinilega í miklum flýti. Hann vissi sem var að Brynhildur kona mín var á leið vestur seinna um daginn og að ég var með verkefnalista sem þurfti að klára. Bjarni sá sér leik á borði og ákvað að hrekkja eilítið vin sinn. Þetta var í þá tíð þegar hægt var að senda nafnlaus sms í gegnum heimasíður. Þar sem ég er á hlaupunum fæ ég sms úr einni slíkri síðu:

Hlökkum til að sjá þig í pallborðinu, ræðurnar byrja kl.12 en þið byrjið kl 12.30. kær kv. Eva

Ég snarstoppaði, skelfingu lostinn. Fyrsta hugsun var hvernig ég ætti að útskýra fyrir Brynhildi að ég kæmist ekki með í verslunarleiðangurinn, en síðan rann upp fyrir mér að vandinn væri enn stærri, ég hafði ekki hugmynd um neina ráðstefnu, hvar hún væri eða um hvað. Þá kom næsta sms:

Reiknum með 300 manns og fjölmiðlarnir eru mættir. Hlökkum til að sjá þig, Eva.

Hér var mér farið að líða verulega illa. Ég stóð úti á götu og leitaði eins og óður maður að tölvupóstum eða smsum frá einhverri Evu sem ég gat ekki með nokkru móti munað að hafa átt nokkru sinni samskipti við. Þá kom næsta sms:

Ekki gleyma að gestir í pallborðinu eiga að vera með lokaorðið, bara 2 til 3 mín. Kv Eva.

Ótal hugsanir flugu um í kollinum á mér, þetta hlaut að vera mikilvæg ráðstefna, 300 gestir og fjölmiðlar og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins mætir ekki, hneyksli.

Ef þú ert með einhverjar spurningar, ekki hika við að hafa samband, Eva.

Ekki hika við að hafa samband!!! Þarna gafst ég upp, vissi að ég væri orðinn og seinn og kemur þá síðasta sms-ið:

Bjarni hafði samband, hann sagðist koma í staðinn fyrir þig, besta mál, heyrumst. Kær kv. Eva.

Það sem ég var ánægður með hann Bjarna Benediktsson að bjarga þessu svona fyrir mig. Þegar ég kom svo á þingflokksfund klukkan þrjú sama dag byrjaði ég á því að segja þessa sögu, hvernig Bjarni hefði bjargað mér. Áður en ég vissi af lá allur þingflokkurinn í hláturskasti. Bjarni hafði auðvitað orðið fyrri til að segja söguna og ég hljóp því narrið allan hringinn,” segir Illugi og hlær.

Djúpur en glaður alvörumaður sem nýtur þess að vera til

„Bjarni er því sérstök blanda af annars vegar djúpum alvörumanni sem hefur ríka skyldurækni og mikinn vilja til að vinna þjóðinni gagn og hins vegar grallara og gleðimanni sem nýtur þess að vera til, eiga góða vini og góða fjölskyldu. Þannig kemur hann mér fyrir sjónir.”

Þóra segir Bjarna vakna í fullmiklu stuði fyrir sinn smekk, suma morgna.

Fær bestu hugmyndirnar í baði

Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona:

„Bjarni er fyndnasti maður sem ég þekki. Hausinn á honum er stútfullur af skemmtisögum og hann man allt. Hann hefur einstaklega létta lund og vaknar glaður alla morgna og næstum óþægilega hress, því ég er engin sérstakur gleðipinni á morgnana og er frekar sein í gang.” Svona lýsir Þóra Margrét Baldvinsdóttir eiginmanni sínum, Bjarna.

„Hann er sérstaklega þolinmóður, stundum of. Kemst yfirleitt jákvæður í gegnum daginn. Hann hlýtur að hafa verið selur í fyrra lífi því honum líður hvergi jafn vel og í baði. Vaknar oft mjög snemma á morgnana, eiginlega á nóttunni og liggur lengi í baði. Hann segist fá sínar bestu hugmyndir þar,” segir Þóra.

Hann sé mikill íþróttamaður og þurfi mikið að vera á hreyfingu, honum líði hreinlega illa ef hann er ekki að hreyfa sig. „Hann getur verið pínu óþolandi með þetta. Ég fæ að fylgjast mjög náið með þessu líkamræktarprógrammi hans. Án þess að ég spyrji!” segir Þóra og hlær.

Bjarni með dóttur sinni í Stjörnugallanum, en Bjarni er harður aðdáandi uppeldisfélags síns í Garðabæ.

Á Leifsstöð með vegabréf barnanna

Þóra segir Bjarna höndla álag vel. Hann sé bjartsýnn að eðlisfari og eigi auðvelt með að horfa fram á veginn. „Hann kvartar svolítið undan tímaleysi. Vinnan tekur mikið pláss. Hann getur orðið svolítið fjarrænn þegar hann er undir miklu álagi,” útskýrir hún.

„Bjarni getur stundum verið utan við sig. Og mögulega ég líka. Það skýrir kannski vegabréfaruglinginn okkar sem er frægur í fjölskyldunni. Þannig höfum við bæði, en í sitt hvoru lagi, lent í því í Leifsstöð að vera með vegabréf barnanna okkar, en alls ekki okkar eigin – án þess að börnin væru með,” segir hún frá, létt í bragði.

Bjarni er þekktur fyrir hæfileika sína í kökuskreytingum.

Þóra segir Bjarna mikinn listamann í sér. Hann sé mjög flinkur að teikna, leira og föndra.

„Bjarni hefði getað orðið góður arkitekt eða ljósmyndari og hann er með mikla ljósmyndadellu. Tekur mjög góðar myndir sem kemur sér vel við ýmis tilefni. Ég sé hann fyrir mér í einhverju skapandi seinna á lífsleiðinni, en þangað til þá fær hann smá útrás fyrir sköpunargleðina í afmælistertum barnanna okkar. Yngsta dóttir okkar bíður núna spennt eftir Pets-köku fyrir afmælið sitt um næstu helgi.”

Yngsta dóttir Bjarna á von á Pets-köku á afmæli sínu í næstu viku.

Gáfu Halla og Ladda ekkert eftir

Valur Freyr Einarsson, æskuvinur:

„Við Bjarni lærðum saman á blokkflautu þegar við vorum átta eða níu ára í tónlistarskóla í Garðabæ. Svo kom að fyrstu tónleikunum og við áttum að spila saman lítið lag. Við tókum þetta mjög alvarlega og sáum þetta sem mikið tækifæri,” segir Valur Freyr, þegar hann er beðinn um að rifja upp æskuminningu af þeim vinum.

„Ég man að æfingarnar fóru að mestu leyti í það að pæla í hvað við ættum að kalla okkur - eða hvað „hljómsveitin ætti að heita”. Svo komumst við að niðurstöðu og kynntum okkur sem Valla og Badda - sem var bein vísun í uppáhalds dúettinn okkar og átrúnaðargoð í þá daga Halla og Ladda.”

Áslaug Arna, Svanhildur og Bjarni. „Það getur auðvitað fokið í hann og þá fer það ekki framhjá neinum, en það gerist sjaldan og gengur fljótt niður," segir Svanhildur.

Tapar aldrei gleðinni

Svanhildur Hólm Valsdóttir, vinnufélagi og vinkona:

„Hugmynd Bjarna um rólegan dag er að vakna klukkan sex, fara út að hlaupa, elda morgunmat eins og á hóteli, senda öllum vinum sínum mynd af því að morgunmaturinn er í litasetteringu, fara svo í sund, drekka kaffi með einhverjum ótrúlega erfiðum karakter sem hefur eytt nokkrum árum í að gagnrýna hann opinberlega og finnast það frábært samtal, kíkja á myndlistarsýningu og bjóða svo öllum sem hann þekkir í mat til þeirra Þóru þar sem hann er manna hressastur langt fram á nótt,” segir Svanhildur um Bjarna.

„Eins og Bjarni orðar það sjálfur, þá finnst honum nefnilega svo gott að slappa af með því að gera eitthvað.”

Bjarni er hér á vinnustofu Errós. „Hann er mjög hrifnæmur og skapandi og ég myndi mjög gjarnan vilja sjá hann fara eitthvað lengra með það,” segir Sara Lind, vinkona hans.

„Allir venjulegir menn væru dauðir”

„Stundum þegar mest hefur gengið á hef ég sagt við Bjarna: Allir venjulegir menn væru dauðir,” lýsir Svanhildur og segir Bjarna hafa mikið úthald og hafa aldrei tapað gleðinni þrátt fyrir að stjórnmál séu oft ótrúlegt vesen.

„Ég held að einmitt það, hvað hann er góður í skapinu, hafi fleytt honum yfir margt. Það getur auðvitað fokið í hann og þá fer það ekki framhjá neinum, en það gerist sjaldan og gengur fljótt niður. Bjarni er heldur ekki langrækinn og á mjög gott með að setja sig í spor annarra og sjá margar hliðar á málum.”

Bjarni með tveimur dætrum sínum.

Svanhildur segir Bjarna einstaklega lipran í höndunum. „Fyrir föndrara eins og Bjarna var Snapchat mikil himnasending. Hann hefur sem sagt sérhæft sig síðustu ár í að breyta myndum og sendir oft mjög fyndin og bjánaleg snöpp, gjarnan með einhverri hræðilegri tónlist undir.”

Hún segir hann þægilegan í samstarfi. „Ekki síður sem ferðafélagi, enda fer ekkert fyrir honum. Hann sofnar um leið og lagt er af stað í öllum farartækjum, hvort sem það eru leigubílar, lestir eða flugvélar.”

Vinirnir Sara Lind, Birgir, Bjarni, Þóra, Hanna Lilja og Lúðvík í einu af mörgum ferðalögum sínum.

Húmoristi sem er ekki mikið fyrir að „tjilla”

Sara Lind Þrúðardóttir, vinkona:

„Bjarni er algjört eðaleintak af manneskju. Mikill vinur vina sinna, ráðagóður og hjartahlýr. Ótrúlegur húmoristi, maður er ekkert búinn að vera lengi í návist hans áður en maður engist um af hlátri. Ég þekki engan sem kann jafnmarga brandara,” segir Sara Lind, vinkona Bjarna.

„Ég var svo heppin að kynnast honum og Þóru fyrir tæpum þrjátíu árum,” segir Sara Lind, sem segir samt ótrúlega stutt síðan í hennar huga. Þau kynntust í gegnum eiginmann Söru, Birgi, sem er æskuvinur Bjarna og Þóru og spilaði fótbolta í Stjörnunni með Bjarna.

„Við urðum strax miklir vinir og síðan þá hefur vinskapurinn bara vaxið líkt og fjölskyldur okkar. Eitt árið vorum við svo samstíga að við eignuðumst dætur með 5 daga millibili – sem í dag eru bestu vinkonur.”

„Þannig höfum við bæði, en í sitt hvoru lagi, lent í því í Leifsstöð að vera með vegabréf barnanna okkar, en alls ekki okkar eigin – án þess að börnin væru með," segir Þóra Margrét um heimilislífið.

Alltaf talað um „Bjarna og Þóru”

Sara Lind segir vonlaust að tala um Bjarna í eintölu. „Það er alltaf talað um Bjarna og Þóru á mínu heimili. Ég held að það sé hans stærsta gæfa í lífinu að eiga hana Þóru Margréti að lífsförunaut. Þau eru einstakt par, náin og miklir félagar, og alltaf stutt í glens og hlátur og ég tala ekki um góðan mat, sem hún er fræg fyrir,” lýsir Sara Lind.

Í gegnum árin hafa Birgir og Sara Lind ferðast mikið með Bjarna og Þóru ásamt öðrum vinahjónum þeirra. „Bæði með og án barna og þá bregst það ekki að Bjarni er búinn að skanna allt nærumhverfi okkar strax á öðrum degi. Hann er nefnilega ekkert mikið fyrir að bara „tjilla” heldur dregur okkur af stað til sjá og upplifa það markverðasta vopnaður myndavélinni. Auðvitað stórgræðum við ferðafélagarnir á þessu og svo myndasafninu sem verður til við hverja ferð – verst það eru svo fáar myndir af honum!”

Sara Lind segir að með árunum hafi svo áhugi hans á myndlist og tónlist dýpkað verulega. „Hann er mjög hrifnæmur og skapandi og ég myndi mjög gjarnan vilja sjá hann fara eitthvað lengra með það.”