Andrea Vilhjálmsdóttir tók eftir því að sviðslistafólk í kringum hana var farið að fjalla um plöntur í verkum sínum og í kjölfarið langaði hana til að leiða það saman. Hún spurði það því hvort áhugi væri á að sýna verkin á sama tíma undir hatti listahátíðar. Þannig varð Plöntutíð til.

„Hátíðin vakti svo mikla lukku í fyrra að ég ákvað að halda hátíðina aftur að ári. Við opnuðum því fyrir umsóknir í febrúar og fengum miklu fleiri en við áttum von á. Listamennirnir sem sýna á hátíðinni í ár hafa því sumir verið að vinna að verkunum sínum í tæpt hálft ár. Til að mynda Yelena og Jakub, sem standa að verkinu Kæra gulrót. Þau útbjuggu matjurtagarð í vor fyrir utan nýja tilraunaleikhúsið Tóma rýmið sem staðsett er á Skeljanesi. Þau hafa verið að rækta í allt sumar og verða með tilraunakennda matarupplifun á laugardaginn þar sem grænmeti fær aftur persónuleikann sinn,“ segir Andrea.

Ýmislegt gengið á

Andrea segir það hafa gengið ágætlega að skipuleggja hátíðina í skugga faraldurs.

„Í samstarfi við plöntur lærist að tileinka sér ákveðna ró og yfirvegun. Stór partur af hátíðinni er að skapa nærandi aðstæður fyrir listamennina til að gera tilraunir og rannsaka hvernig vinnuferlið getur verið sjálfbært hvað varðar orku og vinnutíma. Ef það er álag og stress þá þarf kannski bara að breyta aðeins til og vinna vinnuna þannig að öllum líði vel. Það hefur ýmislegt gengið á og dagskráin hefur verið smá f ljótandi. Og þannig verður það bara, það er nýi raunveruleikinn sem við búum við. Ef fresta þarf einhverju þá bara frestast það.“

Plöntutíð er ekki bundin við eina helgi, hún getur skipt um búning og farið á kreik á hvaða árstíð sem er, útskýrir Andrea

„Verkin eru líka öll mjög sóttvarnavæn þar sem þau eru f lest sýnd utandyra í óhefðbundnum rýmum og það eru fáir áhorfendur í einu á hverri sýningu. Þannig að í sjálfu sér er faraldurinn ekki í vegi fyrir verkunum eða plöntunum, bara listamönnunum sem gætu lent í sóttkví eða einangrun. Og ef einhverjir áhorfendur eiga ekki heimangengt þá verður gjörningi streymt frá Austurlandi á föstudaginn, verkið er eftir Wiolu Ujazdowska og er fyrir dýr og heitir Takk fyrir að halda mér á lífi.“

Töfrandi tengsl

Við sviðslistadeild Listaháskólans er ein tveggja vikna vinnustofa fyrir nemendur sem endar á sýningu á verkum í vinnslu á föstudaginn í nágrenni við skólann í Laugarnesinu.

„Síðan er Dance for plantsvinnustofa á Dansverkstæðinu með danska danshöfundinum Kat Staub sem er partur af alþjóðlegu listamannasamsteypunni Dance for plants. Að lokum verður Plöntuleikhúsvinnustofa á fjölskyldustund í Gerðarsafni með Lóu Björk Björnsdóttur,“ segir Andrea.

Hver er sérstaða Plöntutíðar?

„Ég veit ekki til þess að það séu til aðrar sviðslistahátíðir sem vinna sviðsverk fyrir eða með plöntum. Ef einhver veit um slíka einhvers staðar í heiminum má endilega senda mér línu,“ segir hún og hlær.

Hver eru þessi töfrandi tengsl náttúrunnar og listarinnar?

„Ég held að það sé ekki til svar við því. Myndlistarmenn hafa verið mjög duglegir í gegnum árin að vinna með náttúrunni en það hefur verið mun minna um það í sviðslistum, sérstaklega leikhúsi þar sem sögurnar fjalla yfirleitt um krísur mennskunnar. Það gerist bara eitthvað unaðslegt þegar sköpunarkraftur manneskjunnar leggst saman við sköpunarkraft náttúrunnar.“

Nærandi aðstæður

Í fyrra fór Andrea í vettvangsferð með Gústaf Jarli Viðarssyni, skógfræðingi hjá Skógrækt Reykjavíkur, og sagði hann henni að hugurinn fengi oft mikla ró við það að ganga í skóglendi.

„Sérstaklega þar sem það eru svo margir litir og form sem skynfærin nema í einu. Það væri á við góða hugleiðslu eða sálfræðitíma. Ætli það megi ekki segja það sama um listina í heimsfaraldri, hún hjálpar okkur að dreifa huganum og sjá sjálf okkur í öðru samhengi.“

Haldið þið að faraldurinn muni spegla sig í listinni frá þessu tímabili?

„Já, klárlega. Heimurinn verður aldrei eins og hann var áður, það er bara náttúrulögmál umbreytingarkraftsins. Stór partur af hátíðinni er að skapa nærandi aðstæður fyrir listamennina til að gera tilraunir og rannsaka hvernig vinnuferlið getur verið sjálfbært hvað varðar orku og vinnutíma,“ segir hún.

Dagskrána er hægt að skoða nánar á plontutid.com