„Ég var í þyrlu með opna hurð og horfði niður á Jesú Krist, að mér fannst,“ segir Helga Möller í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún deildi mynd af gos­stöðvunum í Geldingardölum sem hefur vakið gríðar­lega at­hygli.

„Það sem mér fannst mögnuð mynd og það sem er ó­trú­legast er að morguninn eftir las ég í blöðunum að þessi helgi­mynd hefði hrunið ofan í,“ segir stór­söng­konan.

Að­spurð segist Helga vera trúuð. Lík­lega hafi enginn séð þessa sjón sem helgi­mynd nema hún en það skipti hana ekki máli.

„Þetta minnir mann á Rio de Janeiro í Brasilíu, þar sem er stærðarinnar líkneski af Jesú Krist með út­breiddar hendurnar. En það sem ég sé er bara önnur hendin út­breidd. Mér fannst þetta al­gjör­lega magnað og ég sem betur fer náði mynd af þessu.“

Helga segist hafa séð það strax í þyrlunni að þetta liti út eins og Jesú Kristur. „Og þá bara byrjaði ég að drita myndum til að fá sem besta sjónar­hornið af þessu. Ég sagði það ekki við neinn þarna, það hefðu allir haldið að ég væri skrítin,“ segir söng­konan og hlær.

„Þannig ég bara þagði. Svo sá ég myndina þegar ég kom heim og ég hugsaði bara „Vá ég verð að sýna Ís­lendingum þetta!“ Við erum bara blessuð. Það er góður andi sem heldur blessun sinni yfir Ís­landi. Það er bara þannig, það er mín upp­lifun,“ segir Helga Möller.

Ég er í sjokki en ég eyddi óvart færslunni með þessari einstöku mynd sem ég tók af gosinu og öllum fallegu skilaboðunum...

Posted by Helga Möller on Monday, 10 May 2021