Heimilisfriður býður upp á meðferð fyrir fólk af öllum kynjum sem beitir ofbeldi í nánum samböndum. Þangað kemur bæði fólk sem er vísað þangað af yfirvöldum og líka fólk sem hefur samband af sjálfsdáðum því það vill vinna í sínum vandamálum. Andrés Proppé Ragnarsson, sérfræðingur í klínískri sálfræði, sem er einn þeirra sem sjá um meðferðina, segir að hún geti skilað miklum árangri og að fólk geti bætt ráð sitt.

„Í stuttu máli sagt á Heimilisfriður að skapa heimilisfrið,“ segir Andrés. „Við höfum verið starfrækt síðan árið 1998, að vísu með smá hléi. Fyrst hét þetta Karlar til ábyrgðar og í þó nokkur ár var litið svo á að við værum bara að eiga við ofbeldi karla gegn konum. En nafninu var breytt árið 2012 þegar þetta var opnað fyrir alla.“

Niðurgreidd hjálp

„Heimilisfriður er meðferðartilboð fyrir gerendur í ofbeldi í nánum samböndum, óháð kyni. Hingað leita gerendur sem vilja taka ábyrgð á gjörðum sínum og breyta hegðun sinni og þá gjarnan hugsun og gildismati líka,“ segir Andrés. „Heimilisfriður er eina sérhæfða meðferðartilboðið sem er í boði fyrir gerendur á Íslandi, en það eru ýmis úrræði í boði fyrir þolendur og við erum í góðum tengslum við samtök og stofnanir sem veita þau.

Makar þeirra sem beita ofbeldi fá líka viðtöl hjá okkur, sem snúast fyrst og fremst um öryggismat,“ útskýrir Andrés. „Heimilisfriður er líka að fikra sig áfram með parameðferð, sem hefur ekki boðist áður. En slík meðferð þarf að koma á eftir ofbeldismeðferðinni, annars gagnast hún ekki. Ekki síst þar sem ofbeldið er gagnkvæmt.

Margir staldra við kostnaðinn við að fara til sálfræðings vegna vandamála sinna, en það þarf ekki í þessu tilfelli, því úrræðið er niðurgreitt af félagsmálaráðuneytinu. Það þarf því bara að borga smá komugjald, en viðtal kostar 3.000 krónur. Félagsmálaráðuneytið hefur reynst okkur vel og það er ástæða til að hrósa því fyrir þann skilning sem það hefur sýnt,“ útskýrir Andrés.

Oft mikil áfallasaga

„Hingað kemur fólk sem hefur verið að beita alls kyns gerðum af ofbeldi, svo sem líkamlegu, andlegu, fjárhagslegu og hlutaofbeldi, þar sem eignir eru skemmdar. Á bak við það geta verið ansi margir hlutir,“ segir Andrés. „Við vitum að það eru tengsl á milli þess að beita ofbeldi fullorðinn og hafa orðið fyrir því eða upplifað það sem barn. Um 80-85 prósent gerendanna sem koma til okkar segjast hafa orðið fyrir eða upplifað ofbeldi sem börn. Sem þýðir að við þurfum oft að vinna ansi mikla áfallavinnu til að hjálpa þeim að vinna úr því. Þetta er mjög oft fólk sem á mikla áfallasögu.“

Andrés bendir á að áhrif heimilisofbeldis á börn séu vanmetin og það sé staðreynd að bæði þolendur og gerendur geri sér sjaldnast grein fyrir afleiðingunum sem það hefur fyrir börn.

„Það eru líka oft tengsl við vímuefnaneyslu, sérstaklega í grófustu tilfellunum, en það er samt ekki næstum því eins algengt og að hafa upplifað ofbeldi sem barn,“ útskýrir hann. „Í báðum tilvikum er líka ekki um orsakasamhengi að ræða, heldur tengsl. Auðvitað er fullt af fólki sem verður fyrir ofbeldi sem barn en beitir aldrei ofbeldi og það er mikið af fólki sem neytir vímuefna án þess að beita ofbeldi.“

Mikilvægt að taka ábyrgð

„Stórum hluta þeirra sem koma til okkar er vísað hingað af Barnavernd, lögreglu eða öðrum aðilum sem starfa í þessum geira, en það er líka stór hópur sem heyrir af þessu og kemur af sjálfsdáðum,“ segir Andrés. „Almennt séð er árangurinn betri ef fólk kemur sjálft, þá er fólk með áhuga á ferlinu og metnað til að láta það ganga frá byrjun. En hinn hópurinn nær líka fínum árangri, það tekur bara lengri tíma að fá hann til að fá áhuga og metnað fyrir ferlinu.

Fólk er velkomið til okkar á öllum stigum vandans og því fyrr sem fólk kemur, því betra. Það er auðveldara að snúa við eftir að hafa beitt ofbeldi einu sinni en þegar það er orðið langtímamynstur,“ segir Andrés. „En ef fólk á við mikinn vímuefnavanda að stríða þarf það stundum að fara í meðferð við því áður en sálfræðimeðferðin getur farið að virka.

En oft er nú stærsta hindrunin bara að stíga það skref að hringja til okkar í síma 555 3020. Þá er viðkomandi búinn að viðurkenna að hafa beitt ofbeldi,“ segir Andrés. „Þessu fylgir nánast alltaf mikil skömm, allir skammast sín þegar þeir vita að þeir hafa gert eitthvað andstyggilegt við einhvern sem þeir elska meira en nokkurn annan en telja sig ekki ráða við það. Þess vegna er það svo stórt skref að hafa samband. Svo þarf fólk að horfa á það sem það hefur gert, taka ábyrgð og breyta hegðuninni. En þó það fylgi því mikil skömm er kosturinn við að sjá að maður gerði þetta sá að það þýðir að maður getur sjálfur breytt þessu.“

Engin ein lausn fyrir alla

Andrés segir að það skipti miklu máli að bjóða upp á svona meðferð vegna þess að hún virkar.

„Fólk getur lært að hætta að beita ofbeldi og lært að bregðast öðruvísi við aðstæðum. Kjarninn í meðferðinni er að við lítum fyrst og fremst svo á að fólk beiti ofbeldi því það kann ekki annað og að það felst vanmáttur í að finnast maður þurfa að bregðast við með ofbeldi,“ segir hann. „Okkar hlutverk er að kenna fólki að gera annað og sanna að það er bæði rétt og gott.

Í því felst meðal annars að vinna úr áfallasögu fólks og að skoða tengslamyndunina upp á nýtt, hvernig þú snýrð að hinu kyninu og hvernig gildismat og upplifun þú hefur,“ útskýrir Andrés. „Þetta er gríðarlega flókið mál og hvert mál er einstakt. Það er aldrei hægt að beita nákvæmlega sömu aðferðinni fyrir alla, heldur þurfum við að alltaf að finna lausnir fyrir hvern og einn.“

Margir bæta ráð sitt

„Sálfræðilega er þetta flókið, en það sem skiptir máli er að við skilum ágætis árangri og það er ekki bara ég sem segi það, heldur hefur Háskóli Íslands rannsakað árangurinn og þetta stenst skoðun,“ segir Andrés.

„Það er mjög algengt að fólk bæti ráð sitt. Við náum árangri sem er á pari á við það besta sem gerist,“ segir hann. „Við erum hluti af stærra batteríi sem heitir ATV og er starfrækt í Noregi, en það eru regnhlífarsamtök yfir svona starf á Norðurlöndunum. Við sjáum það á samanburðinum að við stöndum vel og þar sem þetta er svo sérhæft reynum við líka að þjappa saman kunnáttu og fáum handleiðslu og þjálfun þaðan.“

Andrés segir að sambönd geti einstaka sinnum náð bata eftir ofbeldi, en það gangi alls ekki alltaf. Forsenda fyrir því að það gangi er að ofbeldið hætti.

Meiri skömm hjá konum

„Kynjahlutföllin eru enn þá mjög ójöfn hjá okkur, 75 prósent þeirra sem leita til okkar eru karlar, en 25 prósent eru konur. Samkvæmt rannsóknum er þó ekki svona skarpur munur á gerendum. Þær benda til að það sé ef til vill miklu minni munur á ofbeldishegðun karla og kvenna en oft hefur verið talið,“ útskýrir Andrés.

„En ég held að það sé meiri skömm hjá konum vegna heimilis­ofbeldis og það sé hindrun sem kemur í veg fyrir að fleiri konur leiti sér aðstoðar.“