Bypetrabender er „casual wear, fyrir bæði kynin og dálítið íþróttaleg lína. Rauði þráður línunnar snýr að andlegum málefnum og því hvernig við löðum að okkur það sem við erum sjálf. Logo línunnar eru tveir sæhestar sem tákna hvernig við endurspeglum okkur sjálf í öðrum,“ útskýrir fatahönnuðurinn Petra Bender en hún frumsýnir nýja fatalínu á HönnunarMars í kvöld.

Hún segir hugmyndina að línunni hafa kviknað fyrir nokkrum árum í London en þar stundaði hún mastersnám í textíl í Central St. Martins.

„Ég bjó í London í sjö ár og myndi segja að það hafi verið árin sem ég fann fatahönnuðinn í mér,“ segir Petra. „Ég lærði grafíska hönnun í Listaháskólanum hér heima en í starfsnámi í London tengdust verkefnin mín tískugeiranum. Stofan sem ég var á vann mikið fyrir Marc Jacobs og þá var ég nemi hjá fatahönnuðinum Peter Jensen. Eftir námið vann ég á auglýsingastofunni Hotel Creative og þeirra aðalviðskiptavinur er Nike. Fyrir Nike snerust verkefnin um að hanna inn í rými með fatnað. Við unnum einnig fyrir tískumerkið Kenzo að innsetningum fyrir tískusýningar. Ég var oft í hugmyndavinnunni og að stílisera tískuþætti og fann að mig langaði til þess að búa til föt og sjá grafíkina mína á öðru en flötum pappír. Ég stundaði mikið hlaup úti í London með hlaupahópi á vegum Nike og þá kviknaði hugmynd að þægilegum fatnaði til að fara í þegar fólk kemur úr ræktinni,“ útskýrir Petra.

Árin í London hafi verið dýrmæt reynsla þar sem hún kynntist ýmsum hliðum hönnunarheimsins. Það hafi þó verið gott að koma heim.

„Ég varð strax ástfangin af London en þetta var mikið hark. Ég átti oft ekki fyrir mat í enda mánaðarins. Maður heldur svoleiðis ástand bara út í ákveðinn tíma og loks kom að því að ég flutti heim. Það var gott að geta núllstillt sig hér heima og þá byrjaði ég að þróa þetta verkefni sem ég kynni nú á HönnunarMars. Í kvöld fer einnig í loftið vefsíða og vefverslun, www.bypetrabender.com.“

Petra opnar sýninguna klukkan 18 í kvöld að Aðalstræti 2.