HBO gaf í gær út glænýja kitlu fyrir áttundu og síðustu seríuna af Game of Thrones. Í klippunni sést ís leggjast yfir kort af Westeros en eldur mætir ísnum á miðri eyjunni. Sjá má kitluna hér að neðan.

Um er einungis að ræða rúmlega 39 sekúndna langa kitlu og hafa einhverjir aðdáendur kannski vonast eftir örlítið bitastæðara efni fyrir seríuna sem kemur út í apríl á næsta ári en umrædd kitla er skemmtileg að því leytinu til að hún gefur margar vísbendingar um það sem koma skal og hér á eftir verða nokkrar getgátur um hvað þetta þýðir mögulega fyrir væntanlega seríu. 

Vert er að taka fram að það sem hér á eftir eru ekkert nema getgátur, engir raunverulegir spillar eru úr komandi seríu, en það er best að varast lestur ef viðkomandi hefur ekki séð sjöundu seríu eða vill láta koma sér á óvart.

Fyrsta augljósa túlkunin er sú að ísinn tákni Næturkonunginn og ísuppvakningana svokölluðu en eldurinn lið lifenda, með Danaerys og Jon Snow í broddi fylkingar. Sem næsta sería mun í raun snúast um. Bókaserían heitir A Song of Ice and Fire og í lokaseríunni virðist sannkallaður söngur íss og elds eiga sér stað. 

Það hefur hins vegar vakið athygli margra að ísinn teygir sig yfir og gleypir bæði úlfinn og drekann, sem hvort um sig eru merki Stark og Targaryen fjölskyldanna, sem líkt og allir vita eru fjölskyldur þeirra Jon og Danaerys. 

Að sama skapi brennur ljónið vegna eldsins sem kemur úr suðrinu. Ljónið er vitaskuld merki Lannister fjölskyldunnar og glöggir aðdáendur hafa bent á að eina ljónið sem eftir er í suðrinu er engin önnur en Cersei Lannister sem neitaði að senda herlið með bróður sínum Jamie norður til þess að berjast við hvítgenglanna. Enda áætlun hennar sú að leyfa þeim að deyja á meðan hún herðir tökin í suðrinu. Ef marka má þessar getgátur fer ekki vel fyrir henni í komandi seríu.

Þá hafa miklar vangaveltur átt sér stað varðandi þann vegg sem myndast þegar eldurinn og ísinn mætast á miðju kortinu og hvort þessu eigi að taka sem bókstaflegum atburði í komandi seríu. George R.R. Martin hefur áður fullyrt að endir þáttanna og bókanna verði ljúfsár og því hafa einhverijr velt því fyrir sér hvort að þessi nýi veggur þýði einfaldlega að Westeros verði skipt aftur upp, nú með nýjum vegg sem kemur í stað þess gamla.

Það sem hefur vakið mesta athygli hörðustu aðdáenda er hins vegar hvar nákvæmlega ísinn og eldurinn mætast en í stiklunni sést að þeir mætast á ársvæðunum svokölluðu í Westeros (e.Riverlands) og því hafa margir velt fyrir sér hvort að lokauppgjörið muni eiga sér stað við árbakka Trident áinnar. 

Það hefur sýnt sig að sú staðsetning skiptir gífurlegu máli fyrir söguþráð þáttanna og bókanna en þar sigraði Robert Baratheon prinsinn Rhaegar Targaryen (föður Jon Snow) í borgarastyrjöldinni sem geisaði örfáum árum fyrir söguþráð þáttanna.

Aðdáendur benda á að engar líkur séu á því að um tilviljun sé að ræða. Dauði Rhaegar Targaryen er af mörgum talinn hafa ýtt úr vör öllum þeim hamförum sem áttu sér stað í söguþræði þáttanna en Rhaegar ætlaði sér ætíð að uppfylla spádóminn um „prinsinn sem var lofað“ (e. The Prince Who Was Promised) sem kvað á um bjargvætt sem upp myndi rísa til varnar heimi lifenda gegn hvítgenglunum. 

Staðsetningin er talin benda til þess að söguþráðurinn fari nú í heilan hring og lokauppgjör litlu systur Rhaegar og sonar hans, þeirra Dany og Jon muni eiga sér stað þar, á staðnum sem að Rhaegar lét lífið.

Byggt á umfjöllunum WatchersOnTheWall og Nerdist.