Við sem fylgdumst með framgangi hugmyndalistarinnar – konseptinu svokallaða – fyrir rúmlega þrjátíu árum, tókum hana auðvitað alvarlega. Samt hefur örugglega flökrað að einhverjum kollega minna, að í samanburði við dauðans alvöru forveranna og ákefð „nýju expressjónistanna“, væri þessi myndlist tærra hugmynda kannski helst til löðurmannlegt fyrirbæri. Hverju þóttust menn bættari með því að færa til bókar hversdagslegustu athafnir sínar eða fleyta kerlingum á sléttu vatni og ljósmynda gárurnar, allt í þágu myndlistar? Hvar var lífsháskinn í þessu öllu saman, eins og Steinn Steinarr hefði líklega orðað það?

En þótt vestræn hugmyndalist hafi kannski ekki gert í blóðið sitt í sama mæli og ýmisleg önnur myndlist, gegndi hún óvænt mikilvægu hlutverki fyrir austan járntjald. Sennilega er ekki ofsagt að þar hafi hún verið listamönnum eins konar líflína. Í austantjaldslöndunum var þeim sem ekki gengust undir opinbera myndlistarstefnu fyrirmunað að sýna í héraði, þeir fengu ekki að taka þátt í sýningum erlendis eða bjóða erlendum listamönnum til sýninga í sínum ranni. Mest var listrænt frjálsræðið sennilega í Póllandi, en annars staðar, til dæmis í Ungverjalandi og Tékkó, leituðu nýfíknir listamenn leiða til að rjúfa einangrun sína, án þess að kalla yfir sig útskúfun og/ eða betrunarvist.

Hugmyndalistin var eins og sniðin fyrir þá sem þurftu að tjá sig undir rós, og nota til þess sakleysislega frasa, einfaldar yfirlýsingar, blátt áfram og tilgerðarlausar ljósmyndir eða bernskar teikningar. Ekkert af þessu gaf augljós tilefni til opinberra athugasemda eða íhlutunar stjórnvalda, og allt þetta var hægt að senda á milli landa í formi póstkorta eða bókverka með litlum tilkostnaði og setja upp á augabragði, nánast hvar sem er. Jafnvel uppi á íslandi.

Eru ekki allir í stuði?

Sérhver austur-evrópsku listamannanna kom sér upp persónulegum aðferðum sem engin leið var að bendla við pólitískan undirróður. En með því að lesa á milli línanna á því efni sem þeim var sent að austan, skynjuðu vestrænir listamenn samt ærinn tilvistarvanda – jafnvel áðurnefndan lífsháska – þessara kollega sinna. Ungverski listamaðurinn Endre Tót sendi um allar trissur ljósmyndir af sjálfum sér gleiðbrosandi, þar sem hann spurði hvort menn væru ekki í stuði, eða hvort viðtakendur væru ekki glaðir yfir því að geta spjallað saman. Géza Perneczky dreifði með pósti ljósmyndum af sér í rökræðum við sjálfan sig, lyftandi spjöldum þar sem stóð ýmist „JÁ“ eða „NEI“.

Gabor Attalai fer aðra leið, stjórnmálavæðir hugmyndir Marcels Duchamp um svokallaðan „myndgerving“ – ready-made -með eftirminnilegum hætti. Gallerí sem kölluðu eftir sýningum Attalais fengu bréf frá honum þar sem aðstandendur voru beðnir að koma fyrir svokölluðum „red-y made“, innan húss sem utan, kannski mála tröppu eða gólflista með rauðum lit, líka eina gluggarúðuna og svo að lokum staka gangstéttarhellu fyrir framan staðinn. Þar með var komin uppskrift að sýningu. Með því að breyta „ready“ í „red“ var Attalai, með meðvitaðri blöndu af gríni, sjálfhæðni og fúlustu alvöru, auðvitað að minna áhorfandann á tilveru sína og félaga sinna undir „rauðri“ ráðstjórn. Með þessari aðferðafræði er óneitanlega dregin upp dáldið fáránleg mynd af þjóðfélagi staðnaðrar umræðu, vonsvika og vitsmunalegrar óþreyju.

Ungæðislegir Íslendingar?

Ástæða þess að ungverskir listamenn eru hér sérstaklega nefndir til sögunnar, er býsna áhugaverð sýning í Listasafni Árnesinga, unnin að hluta til af einum starfsmanni safnsins, ungverska listfræðingnum Zsóka Leposa, ásamt Lászlo Százados, kollega hennar í Ungverjalandi. Sýningin er helguð samskiptum íslenskra og ungverskra listamanna á áttunda áratugnum, nánar tiltekið frá SÚM-sýningunni í Reykjavík 1972 til sýninga í Galleríi Suðurgötu 7 árið 1978, með millilendingum í galleríum Íslendinga í Hollandi. Það sem þessi tvö listamannamengi áttu sammerkt á þessu tímabili, var að bæði kappkostuðu þau að brjótast út úr sinni menningarlegu einangrun, þótt aðstæður Íslendinganna væri vissulega af öðrum toga en þær sem Ungverjarnir bjuggu við.

Þessi samskipti eru skoðuð út frá sjónarhóli beggja mengja, og út frá listaverkunum sem sýnd voru fyrir frumkvæði íslensku listamannanna. Sýningunni í Listasafni Árnesinga fylgir vönduð sýningarskrá með fróðlegum frásögnum beggja aðila og ýmiss konar ljósmyndaefni. Á vídeóskermum er síðan að finna nýleg viðtöl við þá Tót og Perneczky , nokkuð svo ellimóða, en ennþá brennandi í andanum. Margt skondið kemur fram í sýningarskránni, einkum í frásögnum Ungverjanna af viðskiptum sínum við hinar ungu íslensku listaspírur. Ungverjarnir voru nokkru eldri og sjóaðri í listbaráttunni, og ljóst að þeim þóttu Íslendingarnir stundum ívið ungæðislegir og ekki ýkja skipulagðir.

Perneczky segir m.a. frá sýningu sinni í In-Out galleríi Íslendinganna í Amsterdam, þangað sem hann kom. Þar var honum sagt að hann yrði sjálfur að hengja upp verk sín, enn fremur að venjulega kæmi enginn á opnun í galleríinu. „Þetta var allt sagt með þeim þreytulega, norræna raddblæ sem er sameiginlegur öllum íslenskum menntamönnum í Hollandi,“ segir Perneczky. Bætir hann við að spár Íslendingana um aðsókn hafi gengið eftir, enda hafi hvorki dag-né tímasetningu verið að finna á boðskortinu.

Góðkunningjar úr Galleríi Suðurgötu 7

Á sýningunni í Hveragerði hallar nokkuð svo á Ungverjana, þar sem einungis eldri verk þeirra er þar að finna, en Íslendingar sýna einungis ný verk. Óneitanlega er með því ýjað að því að Ungverjarnir séu í dag óvirkir. Í sýningarskránni, eins ágæt og hún er, hefði síðan mátt ganga betur á íslensku listamennina, fá þá til að láta í ljós viðhorf sín til þeirrar myndlistar sem Ungverjarnir sendu þeim. Í heildina er þetta mjög þörf og virðingarverð rannsókn á afmörkuðu skeiði í íslenskri/ungverskri nýlist. Og við sem sóttum sýningarnar í Gallerí Suðurgötu 7 forðum daga rekumst hér á mörg kunnuglegt verk. Eilítil athugasemd í lokin: Merking flúorpípuverksins „Neon Earth“ eftir Kristján Guðmundsson, sem er hluti af sýningunni, hlýtur óhjákvæmilega að taka breytingum við að hvíla á grús en ekki mold („Neon Gravel“?).