Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar 2023 hefst í dag og stendur yfir út vikuna víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Myrkir músíkdagar er ein elsta tónlistarhátíð landsins, stofnuð árið 1980 af Tónskáldafélagi Íslands. Tónlistarhátíðin fer fram á myrkasta tíma ársins en leiðarljós hátíðarinnar er að kynna íslenska og erlenda samtímatónlist, tónskáld og flytjendur.
Á meðal flytjenda sem koma fram á hátíðinni í ár eru Bozzini kvartettinn frá Kanada, p.e.r.s.o.n.a.l. c.l.u.t.t.e.r frá Bretlandi, Skerpla, óperan Mörsugur með söngkonunni Heiðu Árnadóttur, Nordic Affect, Bára Gísladóttir, Strokkvartettinn Siggi, Caput, Tríó Ísak, söngkonan Rosie Middleton frá Bretlandi, píanóleikarinn Andrew Zolinsky frá Bretlandi, Kammersveit Reykjavíkur, Strengjakvartetinn Gró, Hljómeyki og kammeróperan Ástin ein taugahrúga, enginn dans við Ufsaklett, með Tinnu Þorvalds Önnudóttur söngkonu og Júlíu Mogensen sellóleikara.
Þá heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands tvenna tónleika á hátíðinni, annars vegar Flekaskil fimmtudaginn 26. janúar, með fimm verkum eftir íslensk tónskáld, og hádegistónleikana Hringla, með verkum Báru Gísladóttur, föstudaginn 27. janúar.
Dagskrá Myrkra músíkdaga 2023 er með alþjóðlegum blæ og kemur fjölbreyttur hópur íslenskra og erlendra listamanna fram á hátíðinni. Þá er hátíðin sögð endurspegla þann kraft og nýsköpun sem einkennir íslenska samtímatónlist á líðandi stundu.
Í tilkynningu frá Myrkum músíkdögum segir að hátíðargestir muni upplifa þversnið þess sem ber hæst í íslenskri samtímatónlist. Strengjakvartettar verða í fyrirrúmi á hátíðinni í ár, auk nýrra óperu- og söngverka. Mörk hins mögulega í samtímatónlist verða áfram könnuð á hátíðinni með áhugaverðum tilraunum og blöndun mismunandi tækni.