Tón­listar­há­tíðin Myrkir músík­dagar 2023 hefst í dag og stendur yfir út vikuna víðs vegar um höfuð­borgar­svæðið. Myrkir músík­dagar er ein elsta tón­listar­há­tíð landsins, stofnuð árið 1980 af Tón­skálda­fé­lagi Ís­lands. Tón­listar­há­tíðin fer fram á myrkasta tíma ársins en leiðar­ljós há­tíðarinnar er að kynna ís­lenska og er­lenda sam­tíma­tón­list, tón­skáld og flytj­endur.

Á meðal flytj­enda sem koma fram á há­tíðinni í ár eru Bozzini kvartettinn frá Kanada, p.e.r.s.o.n.a.l. c.l.u.t.t.e.r frá Bret­landi, Skerpla, óperan Mörsugur með söng­konunni Heiðu Árna­dóttur, Nor­dic Af­fect, Bára Gísla­dóttir, Strok­kvartettinn Siggi, Caput, Tríó Ísak, söng­konan Rosi­e Midd­let­on frá Bret­landi, píanó­leikarinn Andrew Zolins­ky frá Bret­landi, Kammer­sveit Reykja­víkur, Strengja­kvartetinn Gró, Hljóm­eyki og kammer­óperan Ástin ein tauga­hrúga, enginn dans við Ufsa­klett, með Tinnu Þor­valds Önnu­dóttur söng­konu og Júlíu Mogen­sen selló­leikara.

Þá heldur Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands tvenna tón­leika á há­tíðinni, annars vegar Fleka­skil fimmtu­daginn 26. janúar, með fimm verkum eftir ís­lensk tón­skáld, og há­degis­tón­leikana Hringla, með verkum Báru Gísla­dóttur, föstu­daginn 27. janúar.

Dag­skrá Myrkra músík­daga 2023 er með al­þjóð­legum blæ og kemur fjöl­breyttur hópur ís­lenskra og er­lendra lista­manna fram á há­tíðinni. Þá er há­tíðin sögð endur­spegla þann kraft og ný­sköpun sem ein­kennir ís­lenska sam­tíma­tón­list á líðandi stundu.

Í til­kynningu frá Myrkum músík­dögum segir að há­tíðar­gestir muni upp­lifa þver­snið þess sem ber hæst í ís­lenskri sam­tíma­tón­list. Strengja­kvartettar verða í fyrir­rúmi á há­tíðinni í ár, auk nýrra óperu- og söng­verka. Mörk hins mögu­lega í sam­tíma­tón­list verða á­fram könnuð á há­tíðinni með á­huga­verðum til­raunum og blöndun mis­munandi tækni.