Skondin auglýsing ungmennafélagsins Fjölnis fyrir væntanlegt þorrablót sem fram fer þann 26. janúar næstkomandi í Mamma Mia þema hefur vakið nokkurra athygli og þá sérstaklega myndvinnslan en búið er að splæsa hausum tónlistarmannanna sem munu troða upp á þorrablótinu á hausa stjarnanna úr hinni víðfrægu söngvamynd.

Líkt og sjá má á umræddri mynd eru hausar þeirra Jóhönnu Guðrúnar, Regínu Óskar, Ingó veðurguðs, Selmu Björnsdóttur og Helga Björns komnir kyrfilega á líkama þeirra Amöndu Seyfried, Meryl Streep, Pierce Brosnan, Christine Baranski og Colin Firth. 

Þannig spyr Sindri Freysson í Facebook færslu sem má sjá hér fyrir neðan hvort að Selma Björns hafi verið ráðin í kvikmyndina The Exorcist og vísar þar í hve einkennilega höfuð hennar snýr á myndinni. Þá ritar Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, að hún myndi láta athuga á sér hálsinn, væri hún Ingó veðurguð.

Í samtali við Fréttablaðið segir Guðmundur Lúðvík Gunnarsson, framkvæmdastjóri Fjölnis að hann hafi ekki orðið var við umræðuna á netinu en þyki málið þó bara skondið.  „Þetta er nú bara til gamans gert til þess að auglýsa þennan blessaða viðburð,“ segir Guðmundur léttur en nokkuð ljóst er að auglýsingin hefur þar þjónað tilgangi sínum.