Katrín Sigurðardóttir sýnir verk á myndlistarsýningunni Til staðar í Svavarssafni á Höfn í Hornafirði. „Katrín dvaldi og vann verk úr leir í þremur landsfjórðungum á Íslandi síðastliðið haust. Sýningin hverfist um þessi þrjú jarðverk og er heimild í formi ljósmynda og myndbands,“ segir Auður Mikaelsdóttir sýningarstjóri og safnvörður í Svavarssafni. „Katrín vildi gera verk víða um landið og valdi þrjá fjarlæga staði sem eiga það sameiginlegt að vera úr alfaraleið en þó aðgengilegir. Hér í Hornafirði vann hún við Hoffellsá undir Vatnajökli en hún vann einnig á Skarðsströnd við Breiðafjörð og í Svalbarðshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu. Allt eru þetta verk unnin við árfarveg þar sem vatnið hefur grafið niður á leirinn og gert listamanninum örlítið auðveldara að komast að honum.“

Eftir stendur jörðin

Þegar hún er beðin um að lýsa þessu verki Katrínar segir Auður: „Hún gróf eftir leir og steypti í mót þannig að til urðu eins konar múrsteinar. Ljósmyndir af þeim eru á veggjum safnsins, ein fyrir hvern stað. Úr múrsteinunum byggði Katrín svo hleðslur sem mynduðu hver sinn strúktúr í jörðinni. Að nokkrum dögum liðnum höfðu veður og vindar unnið á verkinu. Eftir stendur jörðin eins og hún var þrátt fyrir að hafa breytt um form á einhverjum tímapunkti. Myndbandið á sýningunni sýnir Katrínu við jarðnámið og leirvinnsluna.“

Auk ljósmynda er á sýningunni myndband sem sýnir vinnu Katrínar.

Efni sem er hér og nú

Auður segir COVID hafa verið ákveðna kveikju að verkinu og þær sérstöku aðstæður sem skapast hafa í kjölfarið. „Fólk býr nú við nýjan veruleika sem setur ýmsar skorður við ferðalögum og flutningum. Katrín fór að velta því fyrir sér hvað hún gæti skapað sem listamaður úr efni sem er hér og nú. Leirinn er efniviður sem þarf ekki að kaupa eða selja, þarf ekki að flytja, keyra eða fljúga með. Hann er til staðar. Þetta var frumhugmyndin: Hvað gerir listamaður þegar hann hefur engin aðföng? Viðfangið er náttúran og efniviðurinn er jörðin sjálf. Verkin eru forgengileg, þau eru búin til í náttúrunni, eru hluti af henni og umbreytast þar. Eftir stendur myndlistarsýning sem er í raun heimild um verkið.“

Listamannaspjall á síðu

Eins og myndlistarunnendur vita hefur Katrín átt mikilli velgengni að fagna innan listaheimsins og hún margsinnis verið fulltrúi íslenskrar myndlistar á erlendum vettvangi svo sem á Feneyja-, Sao Paulo- og Rabattvíæringunum og verk hennar hafa verið sýnd víða um heim, meðal annars á Metropolitan í New York. Engin formleg opnun var á sýningunni á Höfn í Hornafirði heldur boðið upp á listamannaspjall sem finna má á YouTube-síðu safnsins. „Spjallið var vel sótt og mæltist mjög vel fyrir hjá Hornfirðingum,“ segir Auður. Sýning Katrínar stendur til 5. maí.

Til staðar er sýning þar sem eru þrjár innsetningar Katrínar í náttúru Íslands og heimildir í formi ljósmynda og myndbands. Mynd/Aðsend