Myndlistarsýning Þrándar Þórarinssonar, „Kaprice“, í Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn hefur vakið mikla athygli, gangrýnandi Kunstavisen lofar listamanninn í hástert og sjálfur er Þrándur hæstánægður með strandhögg sitt í Köben.

Sjá einnig: Þrándur treður Bjarna Ben í nábrækur

Orla Schantz, gagnrýnandi Kunstavisen, fer fögrum orðum um sýningu Þrándar og myndlist hans sem hann segir minna á gömlu meistarana. Hann sé nútímalegur gullaldarmálari sem verði að gefa gaum.

Schantz beinir sjónum sínum meðal annars að hinu magnaða Grýlumálverki Þrándar og hvernig listamaðurinn vinnur með íslenska þjóðsagnahefð. Úrvinnsla hans á þeim gamla sagnaarfi lyfti þjóðsögunum í sömu hæðir og hinir miklu málarar endurreisnarinnar færðu gríska- og rómverska goðafræði.

Sjá einnig: Þrándur sleppir krókódílamanninum lausum

Þrándur segist í samtali við Fréttablaðið vera í „sjöunda himni“, bæði með viðtökurnar sem hann hefur fengið í Kaupmannahöfn og ekki síður þessa glimrandi fínu gagnrýni.

Sjá einnig: Þórarinn í IKEA féll fyrir málverki af logandi geit

„Salan á sýningunni var fjarska góð og mætingin líka,“ segir Þrándur. „Og nú hef ég fengið þessa hörku lofsamlega gagnrýni í ofanálag svo ég er í sjöunda himni.“

„Þetta er raunar í fyrsta skipti sem sýning hjá mér er gagnrýnd í fjölmiðlum. Ég hef yfirleitt fengið ágætis umfjallanir í blöðum eða sjónvarpi til kynningar á tiltekinni sýningu en ekki beinlínis raunverulega gagnrýni fyrr en nú.“