Myndir úr safni Braga Guðlaugssonar eru á sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningin hefur yfirskriftina Ágústmyndir Septembermanna. Hún stendur til 12. janúar 2020. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson. Í sýningarskrá segir Aðalsteinn um verkin á sýningunni: „Þarna er aðallega um að ræða verkin sem kynslóð eftirstríðsáranna gerir í aðdraganda myndlistarbyltingarinnar sem kennd er við Septembersýningarnar 1947-52, sem sagt „Ágústmyndir Septembermanna“.

Valdar af kostgæfni

Bragi Guðlaugsson iðnaðarmaður hefur í áratugi safnað myndlistarverkum. Hann er það sem kalla má ástríðusafnari og á að eigin sögn hátt í 300 verk. Á sýningunni í Reykjanesbæ er að finna rúmlega þrjátíu myndir, aðallega olíumálverk, eftir þrettán listamenn.

Sé yfir hluta salarins í Reykjanesbæ.

„Aðalsteinn Ingólfsson kom að máli við mig fyrir ári síðan vegna þessarar sýningar. Hann valdi myndirnar af kostgæfni. Þetta eru mest fígúratvífar myndir eftir listamenn sem flestir gerðust seinna abstrakt málarar. Þorvaldur Skúlason er nokkuð dómínerandi á sýningunni en þar eru ellefu verk eftir hann, þrjú eftir Kristján Davíðsson og þrjú eftir Jóhannes Jóhannesson,.“ segir Bragi.

Keyptar á löngu tímabili

Spurður hvað hafi laðað hann að þeim verkum sem eru á sýningunni segir hann: „Þetta var alvöru byrjunin á minni söfnun og seinna fór ég að safna abstrakt. Ég safnaði myndum þegar ég var strákur en losaði mig við þær myndir, enda var sú söfnun ekki upp á marga fiska. Ég hreifst af þessu tímabili og keypti myndirnar á löngu tímabili. Það tók mig einn til tvo áratugi að eignast verkin sem þarna eru. Þau voru alls ekki dýr á þessum tíma en hafa nú margfaldast í verði. Mér fannst þessi verk áhugaverð og þau hristu upp í mér. Það á sérstaklega við um verk Þorvalds Skúlasonar sem var einstakur listamaður. Myndir hans tala sterkt til manns og maður gleymir þeim ekki.“

Bragi segir af og frá að hann hugsi kaupin sem fjárfestingu. „Ég held að það sé mjög slæmt að hugsa þannig þar sem hugarfarið getur snúist í höndunum á manni.“ Spurður um eftirlætis myndlistarmenn nefnir hann Þorvald Skúlason, Gunnlaug Scheving, Karl Kvaran og Guðmundu Andrésdóttur. „Svo eru núlifandi listamenn eins og Eggert Pétursson og Þórdís Aðalsteinsdóttir. Ég hef líka fylgst vel með Þorvaldi Jónssyni og Helga Þórssyni.“

Enn að kaupa myndir

Bragi er enn að kaupa myndir. „Núna kaupi ég kannski þrjár til fimm myndir á ári og vel þær vel. Svo er ég farinn að kaupa myndir eftir myndlistarmenn sem urðu ekki stór nöfn en gerðu eitt og eitt mjög gott verk. Ég er nýbúinn að kaupa mjög fallega módelmynd í Fold eftir Ásgeir Bjarnþórsson. Hann var aðal mannamyndamálarinn á fyrri hluta aldarinnar og gerði myndir af alls konar stórmennum. Þetta er mynd sem hann gerði árið 1931 og sýnir nakta konu. Afar gott verk.“