Á sýningunni verða sýnd frumrit myndverka sem íslenskir listamenn hafa unnið fyrir íslenskar námsbækur allt frá því fyrir lýðveldisstofnun. Frumritin hafa ekki komið fyrir sjónir almennings áður, þótt kynslóðir Íslendinga þekki mörg verkanna úr námsbókum undanfarinna áratuga. Verkin á sýningunni eru í eigu Menntamálastofnunar en sýningin er samstarfsverkefni hennar, Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs.

„Hugmyndin að sýningunni vaknaði í fyrra þegar ég gerði sýningu um barnabókina í gegnum tíðina fyrir bókasafnið. Þá fréttum við af þessari safneign hjá Menntamálastofnun. Ég sá hvað þetta var mikið og bitastætt efni og stakk upp á því að búa til sér sýningu í kringum þessar myndir,“ segir Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir sýningarstjóri.

Hún telur fáa átta sig á því hve mikill metnaður liggi að baki myndskreytingum í íslenskum námsbókum í gegnum tíðina.

Margir þekktir myndlistarmenn eiga myndir á sýningunni. Sem dæmi má nefna Baltasar Samper sem myndskreytti meðal annars Litlu gulu hænuna og Unga litla. Einnig Sigrúnu Eldjárn og Halldór Pétursson. Halldór Baldursson er síðan með nýjasta efnið sem nær inn á sýninguna. „Ég afmarkaði þessa sýningu við þær myndir sem Menntamálastofnun á sjálf en á tíunda áratugnum hætti stofnunin að eiga efnið og listamennirnir sjálfir eiga frumritin eftir þann tíma,“ lýsir Guðfinna. Hún bendir þó á að stofnunin vinni enn í dag með myndlistarfólki að metnaðarfullu námsefni.

Myndirnar á sýningunni eru fjölbreyttar og skemmtilegar. „Það sést greinilega á mörgum myndanna að þær eru unnar fyrir bækur. Margar eru með athugasemdum eða merkingum fyrir prentvélar. Svo er gaman að sjá myndir sem unnar eru fyrir tíma Photoshop þar sem myndlistarmennirnir vinna lagskipt. Þá er liturinn á einum pappír og svarthvít teikning á öðrum.“

Guðfinna segir nafn sýningarinnar, Tíðarandinn í teikningum, vera mjög lýsandi. „Maður sér hvernig tíðarandinn breytist með tímanum. Til dæmis í hvaða hlutverkum stelpur og strákar eru.“

Líklega vekja myndirnar minningar hjá mörgum. „Mismunandi kynslóðir tengja við mismunandi efni,“ segir Guðfinna og bendir á að á sýningunni verði einnig til sýnis nokkrar námsbækur til að sýna hvernig myndirnar eru notaðar í samhengi við námsefnið.

„Það er gaman að Menntamálastofnun bjóði upp á samtal með þessari sýningu, og kannski verða einhver málþing um námsefni almennt í framhaldinu,“ segir Guðfinna en sýningin verður opnuð í Bókasafni Kópavogs í dag klukkan 15 af Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.