Sýning Dýrfinnu Benitu Basalan, Náttúrlega brothætt / Natural Fragility, stendur yfir í Þulu galleríi við Laugaveg. Sýningin stendur til 8. nóvember.

„Ég sýni teikningar og málverk,“ segir Dýrfinna. „Myndefnið er sambland af náttúru og kvenlegri orku. Ég fæ innblástur úr náttúrunni og kvenlegri orku og ævintýrum. Þarna má sjá áhrif poppkúltúrs í uppeldi mínu. Disney-myndir, japanskar teiknimyndir og femínískar teiknimyndasögur hafa til dæmis haft áhrif á hvernig ég hef gert myndirnar mínar og þar er ég meðal annars að skoða hvað það þýðir að vera kona. Allt mitt líf hef ég haft unun af hryllingi, bæði í kvikmyndum og teiknimyndasögum.“

Á byrjunarreit

Dýrfinna segist hafa mikla ánægju af að vinna blýantsteikningarnar. „Ég hafði ekki unnið með blýant á þennan hátt áður, hafði notað penna, sprey eða málningu. Með blýantinum fannst mér ég vera komin á byrjunarreit. Þegar maður er krakki í skóla þá er blýantur það fyrsta sem maður notar. Ég hafði ekki áttað mig á hvað blýanturinn væri mikilvægt og sterkt tól fyrr en ég byrjaði að gera þessar myndir.“

Dýrfinna er með BA-gráðu í myndlist og hönnun. Hún er einn stofnenda Lucky 3 listhópsins, ásamt Darren Mark og Melanie Ubaldo, sem opnuðu sýningu sína Lucky me? árið 2019 í Kling og Bang með það markmið að vekja athygli á stöðu filippseyskra innflytjenda á Íslandi en meðlimir hópsins eru allir af filippseyskum uppruna. Dýrfinna er einnig meðlimur The Blue Collective fjöllistahópsins.

Róska áhrifavaldur

Dýrfinna er þekkt undir listamannsnafninu Countess Malaise. Um það listamannsnafn segir hún: „Nafnið Countess Malaise notaði ég í sambandi við tónlist mína og vídeó, en núna líður mér eins og nafnið hafi alltaf fylgt mér í lífinu, ekki bara í tengslum við tónlistina. Hugmyndin að nafninu kviknaði þegar ég var að lesa myndasögur frá áttunda áratugnum um flottar konur sem kunnu að berjast. Róska, sem er áhrifavaldur minn í myndlist, varð fyrir miklum áhrifum af myndasögu um Modesty Blaise, sem er sterkur kvenkarakter sem ég tengi við. Þegar ég var að leita að listamannsnafni fyrir tónlistina mína þá fannst mér Countess Malaise henta vel. Malaise er franskt orð sem lýsir því þegar manni líður óþægilega eða er byrjaður að veikjast. Óþægindi og veikindi hafa verið hluti af lífi mínu og mér fannst nafnið passa við það sem ég er fulltrúi fyrir. Ég er mjög opinská um andlega heilsu og ofbeldi, eins og endurspeglast í myndlist minni.“