Julia hefur alltaf hlaupið eitthvað og stundaði meðal annars útihlaup á tvítugsaldri til þess að halda sér í formi. „Hlaupin hafa alltaf verið lógísk hreyfing fyrir mér enda stunduðu pabbi og bróðir minn báðir mikið hlaup þegar ég var lítil. Sjálf fór ég ekki að taka hlaupin alvarlega og setja mér markmið fyrr en fyrir þremur árum síðan. Það var eftir að ég fékk stöðugt starf í sinfóníuhljómsveit í Svíþjóð og í kjölfarið hér á Íslandi, en þá gat ég gefið mér meiri tíma í áhugamál mín, eins og hlaupið,“ segir Julia.

Þarf ekki að bóka tíma í hlaup

Julia segist elska að hlaupa. „Ég kann sérstaklega vel að meta andlega árangurinn, sem mér finnst meiri í hlaupinu en sá líkamlegi. Það hjálpar mér líka í mínu starfi sem óbóleikari að spila tónlist og koma fram, að þjálfa hugann og ná betri fókus og stjórn. Svo fylgja líka líkamlegir kostir hlaupinu, ég er bæði heilbrigðari og fæ meira frískt loft.

Það er líka kostur að hlaupin liggja svo beint við. Þau eru einfaldari en margt annað. Það er auðveldara að stunda hlaup heldur en til dæmis sund eða annað. Þú getur farið út að hlaupa hvenær sem þú vilt, og þarft ekki að fara á sérstakan stað, bóka tíma eða stunda þau á einhverjum opnunartíma. Ég hleyp allt árið og reyni að hlaupa líka á veturna, en ekki eins mikið og á sumrin. Ef veðrið er of slæmt þá fer ég ekki út, allavega ekki mjög lengi.“

Julia segist alltaf hafa verið heilluð af langhlaupum og lesið mikið um þau. „Ég hélt samt aldrei að ég myndi nokkurn tíma skrá mig í maraþon, hvað þá langt maraþon á fjöllum. Síðustu þrjú ár hef ég náð að setja mér markmið í hlaupunum og síðustu jól las ég bók sem hafði mjög hvetjandi áhrif á mig. Bókin heitir Born to Run og er eftir Christopher McDougall. Christopher heldur því fram í bókinni að maðurinn sem tegund sé hannaður til þess að hlaupa og að það sé mjög náttúrulegt fyrir honum. Hann skoðar langhlaup frá mörgum mismunandi sjónarhornum og maður fer að trúa því að maður geti í alvöru stundað langhlaup. Því líkaminn er hannaður til þess. Bókin er mjög vel skrifuð og inniheldur margar sögur af fólki sem hleypur og fékk mig til að íhuga hvort ég gæti ekki sjálf stundað langhlaup. Ég ákvað því að taka af skarið og skrá mig í hlaupið. Þetta er mitt fyrsta stóra hlaup og er stærsta markmið sem ég hef sett mér.“

Julia Hantschel tók þátt í Hvítasunnuhlaupinu fyrir nokkrum vikum með vinkonu sinni Melkorku Ólafsdóttur.

Tók tólf tíma að líða eðlilega

Julia hljóp 53 kílómetra í Salomon Hengill Ultra maraþoninu laugardaginn 5. júní síðastliðinn. Leiðin sem er með 2.000 m hækkun, hefst í Hveragerði, upp Reykjadal að Ölkelduhnjúk, áfram inn að Hengli, yfir fjallgarðinn, niður Sleggjubeinsskarð og þaðan til baka.

„Ég var mjög taugaóstyrk áður en ég byrjaði að hlaupa leiðina, en líka mjög spennt. Ég vissi að ég hafði aldrei gert neitt þessu líkt áður og ég vildi virkilega vita hvernig þetta væri, hvernig manni liði.

Ég get skipt hlaupinu í þrjú stig hjá mér. Ég naut mín í botn fyrstu tvo tímana. Svo varð veðrið mjög vont og það eina sem ég hugsaði um var að halda áfram og klára. Ég gat ekki leitt hugann að neinu öðru. Ég var bara að reyna að komast upp á fjallið og niður. Ég reyndi að halda á mér hita og halda mér á lífi eiginlega. En í lokin fór ég að njóta mín aftur því ég var svo agndofa og stolt að mér hefði tekist að komast svona langt. Þegar ég kláraði hlaupið og kom niður af fjallinu var mér ískalt og það tók mig örugglega um tólf tíma að líða eðlilega aftur. Það tók mig langan tíma að hitna aftur og maginn var í uppnámi. Um nóttina fékk ég krampa í fæturna. Ég er enn að jafna mig og er enn smá aum og illt, en mér líður vel.

Hlaupið allt tók mig átta og hálfa klukkustund, og ég var alls ekki fyrst í mark eða með þeim fyrstu. Fyrsta í mínum aldursflokki kom í mark um tveimur klukkustundum á undan mér og sumir kláruðu á ellefu tímum. Ég var þarna einhvers staðar á milli. Veðrið var líka frekar vont svo það hægði á öllum held ég.“

Julia hljóp 28 km í Eldslóðarhlaupinu 2019.

Myndirðu gera þetta aftur?

„Ég myndi ekki hika við að gera þetta aftur og ég veit núna hvað gekk vel hjá mér og hvað ég myndi vilja bæta hjá mér.“

Hengill Ultra hlaupið bauð ekki bara upp á 53 km. Einnig í boði að hlaupa 5 km, 10, 53, 106 og svo 160 km sem eru 100 mílur. Aðspurð hvort hún myndi geta hugsað sér að taka þátt í 160 km hlaupinu segir Julia að hún myndi kannski ekki stefna að því næst að hlaupa svo langt á fjallaslóða, en hana langar til þess að taka einhvern tímann þátt í slíku langhlaupi á jafnsléttu. „Mig langar líka að taka þátt í Laugavegshlaupinu næst sem er 55 km.“