Ingi­björg Elsa Björns­dóttir fékk ein­hverfu­greiningu 44 ára gömul. Þá fékk hún það stað­fest að hún hefði alla tíð verið með ó­dæmi­gerða ein­hverfu. Ingi­björg bjóst við því að eftir greininguna myndi margt breytast og að ýmis stuðningsúr­ræði stæðu henni til boða. En svo fannst henni lítið gerast. Hún áttaði sig á því að hún yrði að gera eitt­hvað í málunum sjálf. Henni fannst vanta vett­vang þar sem ein­hverfir gætu hist og talað saman. Það varð úr að hún hafði sam­band við Rauða krossinn og setti á fót ein­hverfu­kaffi.

„Það eru mjög góðir fundir í Reykja­vík. Bæði kvenna­hópur og líka hópur sem heitir Út úr skelinni þar sem ein­hverfir hittast á Háa­leitis­brautinni hjá Ein­hverfu­sam­tökunum. En það var ekkert að gerast hér á Sel­fossi þar sem ég bý. Þá datt mér í hug að búa til ein­hverfu­kaffi,“ segir Ingi­björg.
Þar sem Ingi­björg hefur unnið lengi sem sjálf boða­liði hjá Rauða krossinum, bæði sem síma­vinur og heim­sóknar­vinur, lá beinast við að leita til Rauða krossins og at­huga hvort hann vildi taka þetta upp sem eitt af sínum verk­efnum.

„Ég lagði það fyrir stjórn Ár­nes­sýslu­deildar Rauða kross Ís­lands hvort þau væru til í að styðja þetta og þau sam­þykktu það. Nú er ein­hverfu­kaffið orðið eitt af verk­efnum deildarinnar,“ segir Ingi­björg. Ein­hverfu­kaffi var fyrst haldið í fyrra og er haldið einu sinni í mánuði að jafnaði að vetri til. Ingi­björg segir að þau fái af­not af sal Rauða krossins á Sel­fossi sér að kostnaðar­lausu, auk þess sem Rauði krossinn býður upp á kaffi og með því og jafn­vel pitsur eða eitt­hvað slíkt. Hún vinnur við verk­efnið sem sjálf boða­liði hjá Rauða krossinum.

Allir sem elska ein­hverfa vel­komnir

„Rauði krossinn er með það á sinni dag­skrá að rjúfa fé­lags­lega ein­angrun, það er eitt af stóru mark­miðum Rauða krossins í heiminum. Þess vegna eru til heim­sóknar­vinir og síma­vinir og allt þetta sem á að rjúfa fé­lags­lega ein­angrun hjá til dæmis öldruðum og fólki sem á erfitt. Ein­hverfu­kaffið sam­ræmist mark­miðum Rauða krossins um að rjúfa fé­lags­lega ein­angrun,“ segir Ingi­björg.

Mætingin í ein­hverfu­kaffi hefur verið góð. Að jafnaði hafa 12-15 manns mætt, sem Ingi­björg segir gott miðað við stærð sveitar­fé­lagsins. Ungt fólk hefur verið að mæta sem fer jafn­vel ekki mikið út úr húsi og sem hefur jafn­vel ein­angrað sig við tölvuna.

„Þau koma í ein­hverfu­kaffi og þeim finnst gott að hitta annað ungt fólk með ein­hverfu, okkur finnst svo gott að hitta ein­hvern sem er eins og við. Það finnst það öllum, öllum finnst gott að hitta ein­hverja sem eru á sömu bylgju­lengd. Það er mis­skilningur að ein­hverfir vilji alltaf vera einir. Ein­hverfir vilja í raun og veru fé­lags­skap. Þeir eiga bara oft erfitt með að finna rétta fé­lags­skapinn,“ segir Ingi­björg.

Hún tekur fram að fólk á öllum aldri mæti, yngra fólkið þurfi því ekki að óttast að hitta engan á sínum aldri. Ingi­björg leggur á­herslu á að allir sem telja sig eiga erindi séu vel­komnir á ein­hverfu­kaffi. Bæði þeir sem eru komnir með greiningu, þeir sem eru í greiningar­ferli, þeir sem grunar að þeir séu ein­hverfir, að­stand­endur og jafn­vel fag­fólk.

„Allir sem elska ein­hverfa eru vel­komnir,“ segir hún. Ingi­björg hyggst tala við Rauða krossinn víða um land til að at­huga hvort deildirnar geti haft ein­hverfu­kaffi hjá sér. Hún vonast til þess að Rauða­kross­deildirnar úti um allt land taki upp þessa hug­mynd. Eins langar hana að skipu­leggja ein­hverfu­kaffi í Há­skóla Ís­lands fyrir ein­hverfa nem­endur og kennara. En hún lætur ekki Ís­land duga, hún er að setja upp vef­síðu sem heitir Aut­ism Café til að reyna að koma hug­myndinni á fram­færi er­lendis.

„Ég er svona að vonast til þess að ein­hver taki hug­myndina upp og þrói hana á­fram því þetta þarf ekkert endi­lega að snúast um mig. Hug­myndin sjálf þarf að fá að vaxa og dafna. Mig langar að koma þessu á­fram,“ segir Ingi­björg.
„Það eru ýmsar rann­sóknir sem benda til þess að ein­angrun ein­hverfra sé mjög mikil. Stundum vilja ein­hverfir vera einir – þeir fá stundum hrein­lega nóg af mann­legum sam­skiptum. En það eru samt rann­sóknir sem benda til þess að ein­hverfir geti verið mjög ein­angraðir og mjög ein­mana.“ Ein­hverfu­kaffið er hugsað fyrir fólk sem hefur náð 18 ára aldri. En Ingi­björg er með á­form um að halda líka ein­hverfu­kaffi þar sem allir aldurs­hópar eru vel­komnir.

„Ég fékk þá snilldar­hug­mynd að vera með þema-ein­hverfu­kaffi. Til dæmis risa­eðlu-ein­hverfu­kaffi fyrir fólk á öllum aldri frá börnum upp í full­orðna. Þá geta allir mætt með upp­á­halds­risa­eðluna sína eða mætt í risa­eðlu­búningi, bara alveg eins og fólk vill. Allir sem hafa á­huga á risa­eðlum geta komið og notið þess að tala um risa­eðlur. Ég ætla að reyna að halda það í septem­ber á þessu ári. Svo datt mér í hug að vera með legó-ein­hverfu­kaffi og allir mæta með upp­á­halds legó-kubbana sína. Svo getum við þess vegna verið með glæpa­sagna­ein­hverfu­kaffi. Þá geta þeir sem hafa á­huga á glæpa­sögum og bók­menntum mætt og jafn­vel hlustað á glæpa­sagna­rit­höfund sem mætir í heim­sókn. Mögu­leikarnir eru ó­teljandi.“

Mikil­vægt að hafa fyrir­myndir

Ingi­björgu finnst mikil­vægt að unga fólkið hafi fyrir­myndir í full­orðnu ein­hverfu fólki sem það fær að um­gangast og kynnast. Sjálf er hún hamingju­sam­lega gift, á barn, hús og bíl. Hún vill að börn og ung­lingar með ein­hverfu viti að það sé von. Að þau geti lifað hamingju­sömu fjöl­skyldu­lífi þrátt fyrir ein­hverfuna.

„Það er líka mikil­vægt að fólk fari ekki í af­neitun og vilji ekki vera ein­hverft. Við erum að reyna að miðla til fólks að það er allt í lagi að vera ein­hverfur. Það getur jafn­vel verið gaman að vera ein­hverfur. Ég myndi ekki vilja skipta um heila ef mér væri boðið að fara í heilaígræðslu. Ég myndi segja nei, takk, jafn­vel þótt heilinn í mér sé svona skondinn og skrýtinn,“ segir Ingi­björg.

„Ég hélt einu sinni fyrir­lestur hjá Ör­yrkja­banda­laginu um það hvernig ég fór að því að eignast fjöl­skyldu því það er mjög oft erfitt fyrir ein­hverfa að mynda fé­lags­leg tengsl og eignast fjöl­skyldu. Eftir fyrir­lesturinn kom til mín ung kona sem var að berjast við ein­hvers konar fötlun. Hún sagði við mig að ég væri búin að gefa henni von um að hún gæti eignast fjöl­skyldu ein­hvern tímann í fram­tíðinni. Það að gefa von er mikils virði.“

Ingi­björg segist aldrei hafa látið ein­hverfuna tak­marka sig. Hún er með fjórar há­skóla­gráður. Hún hefur kennt í há­skólanum og vinnur nú sem þýðandi í hluta­starfi og vonast til að geta byrjað að vinna fulla vinnu í janúar á næsta ári. Hún segir að til þess að vera fyrir­mynd þurfi að sýna í verki að lífið sé mögu­leiki, ekki ó­mögu­leiki.

„Þetta er alveg eins og með krakkana. Þegar maður elur þau upp skiptir ekki máli hvað maður segir heldur hvað maður gerir. Ég verð að vera fyrir­mynd með því að vera ég sjálf og lifa mínu lífi eins og ég lifi mínu lífi. Ég get ekki sagt við fólk: Nú ætla ég að vera fyrir­mynd fyrir ykkur. Það þýðir ekki, en ég get aftur á móti orðið fyrir­mynd ef ég sýni í verki að þetta er hægt.“