Fjallið Skrauti ber vissulega nafn með rentu, en það er að finna í sunnanverðu Vonarskarði á milli Tungnafellsjökuls og Bárðarbungu í Vatnajökli. Fjallið er líklega það ljósasta á landinu og einstaklega tilkomumikið að sjá þar sem gengið er að því, framhjá nágrannafjöllunum Svarthöfða og Kolufelli.

Mikill jarðhiti er á svæðinu sem mótað hefur ásýnd margra fjalla á svæðinu sem er einstakt að náttúrufari og hefur notið þess að fáir fara þar um, enda svæðið sem næst miðju landsins, fjarri allri byggð.

Litadýrð á hálendinu

Aðeins er hægt að aka að því sunnan frá Hágöngulóni um erfiðan veg, ellegar ganga þangað drjúga dagleið frá skálum Ferðafélags Íslands í Nýjadal. En sjón er sögu ríkari, hér fyrir neðan má sjá myndskeið úr þættinum Fjallaskálar Íslands sem verður frumsýndur á Hringbraut annað kvöld klukkan 20:00.