Opnunarhátíð Eurovision-keppninnar fór fram í gærkvöldi. Þar kepptust mörg hundruð blaðamenn um viðtöl við fulltrúa hinna fjörutíu landa sem keppa í undanúrslitum á morgun og á fimmtudag, og keppast um sæti í lokakeppninni á laugardag.

Blaðið náði tali af nokkrum keppendum sem báru regnhlífar til að skýla sér undan hitaskúrunum sem einkenna svæðið.

Keppendur brugðu á leik fyrir myndavélarnar og sungu og léku á hljóðfæri fyrir fjölmiðlafólk sem lét spurningarnar dynja á þeim um allt mögulegt.

Systkinin á opnunarhátíðinni.
EBU/SARAH LOUISE BENNETT

Opnunarhátíðin fór fram í Venaria-höllinni í útjaðri Tórínó.

Íslenski hópurinn lét sig að sjálfsögðu ekki vanta. Það er áberandi hversu vel liðin þau eru af öðrum keppendum sem lýsa þeim sem yndislegum og frábærum manneskjum með fallegt lag og góðar radd-harmóníur.

Rigningin slær á sólarsamviskubitið

Blaðið náði tali af höfundi íslenska lagsins, Lovísu Elísabetu Sigrúnardóttur, Lay Low, rétt áður en hún stökk upp í rútu á opnunarhátíðina. Hún lét vel af dvölinni, segist hafa notið Tórínó síðustu daga, en sömuleiðis hafi verið mikið að gera. Hún þakkaði þó fyrir að vera í stöðu lagahöfundar og þurfa því ekki að vera í þungamiðju sviðsljóssins allan tímann, líkt og flytjendurnir.

Hún kveðst einnig ánægð með að hafa átt stund milli stríða og fengið tækifæri til að ganga um borgina og borða góðan mat.

Aðspurð um rigninguna á svæðinu segir hún að vissulega hafi verið svolítið mikil rigning.

Sólarsamviskubit er fyrirbæri sem margir Íslendingar þekkja og aðspurð hvort að rigningin slái ekki á þá tilfinningu, svarar hún.

„Jú, til dæmis á að vera sól næstu daga þegar maður á að vera inni,“ segir Lovísa létt í bragði. „En sólin kemur alltaf aftur.“

Talandi um sól, hverfist þema lagsins ekki einmitt um sólina?

„Jú það er svolítið þannig.“