Það er nóg að gera á Húsavík næstu daga í kringum tökur á Eurovision mynd Will Ferrell. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, sendi frá sér tilkynningu í dag á vef sveitarfélagsins þar sem hann fer yfir þann viðbúnað sem er í gildi vegna þeirra og tekur hann meðal annars fram að myndatökur séu bannaðar.
Um er að ræða nokkuð ítarlega tilkynningu þar sem Kristján fer yfir hvað má og hvað má ekki. Ekki má til að mynda fljúga drónum nálægt kvikmyndastöðum og þá má ekki taka myndir af leikurum á tökustað eða tökustöðum. Þá eru íbúar beðnir um að sýna skilning vegna tímabundinna lokana.
Eins og Fréttablaðið hefur greint frá verður öllu tjaldað til fyrir myndina og er leikarinn Pierce Brosnan til að mynda á leiðinni norður núna á tökustað. Eyðimerkurganga Íslands í Eurovision söngkeppninni verður í eldlínunni og keppendurnir sem leiknir eru af Will Ferrell og Rachel McAdams reyna að snúa við taflinu.
„Um 250 manns munu koma til Húsavíkur við vinnslu myndarinnar og munu upptökur vara frá föstudegi 11. október til mánudagsins 14. október n.k. og ljóst að íbúar munu verða varir við ýmiskonar umstang víða um bæinn á þessum tíma,“ segir meðal annars í tilkynningu Kristjáns.
„Um einstakan atburð er að ræða sem allar líkur eru á að hafi mikil og jákvæð áhrif á ferðamennsku inn á svæðið til næstu ára ef vel tekst til. Því er mikið í húfi og mikilvægt að við íbúar stöndum saman og látum þetta verkefni ganga eins vel og nokkur kostur er.“