Það er nóg að gera á Húsa­vík næstu daga í kringum tökur á Euro­vision mynd Will Ferrell. Kristján Þór Magnús­son, sveitar­stjóri Norður­þings, sendi frá sér til­kynningu í dag á vef sveitar­fé­lagsins þar sem hann fer yfir þann við­búnað sem er í gildi vegna þeirra og tekur hann meðal annars fram að mynda­tökur séu bannaðar.

Um er að ræða nokkuð ítar­lega til­kynningu þar sem Kristján fer yfir hvað má og hvað má ekki. Ekki má til að mynda fljúga drónum ná­lægt kvik­mynda­stöðum og þá má ekki taka myndir af leikurum á töku­stað eða töku­stöðum. Þá eru í­búar beðnir um að sýna skilning vegna tíma­bundinna lokana.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá verður öllu tjaldað til fyrir myndina og er leikarinn Pi­erce Brosnan til að mynda á leiðinni norður núna á töku­stað. Eyði­merkur­ganga Ís­lands í Euro­vision söng­keppninni verður í eld­línunni og kepp­endurnir sem leiknir eru af Will Ferrell og Rachel M­cA­dams reyna að snúa við taflinu.

„Um 250 manns munu koma til Húsa­víkur við vinnslu myndarinnar og munu upp­tökur vara frá föstu­degi 11. októ­ber til mánu­dagsins 14. októ­ber n.k. og ljóst að í­búar munu verða varir við ýmis­konar um­stang víða um bæinn á þessum tíma,“ segir meðal annars í til­kynningu Kristjáns.

„Um ein­stakan at­burð er að ræða sem allar líkur eru á að hafi mikil og já­kvæð á­hrif á ferða­mennsku inn á svæðið til næstu ára ef vel tekst til. Því er mikið í húfi og mikil­vægt að við í­búar stöndum saman og látum þetta verk­efni ganga eins vel og nokkur kostur er.“